Ferming.is og minnislykill
Það er alltaf eitthvað nýtt á prjónunum hjá þjóðkirkjunni.
Í dag fá fermingarbörn ársins 2022 sendan í pósti umhverfisvænan minnislykil (usb-lykil). Á lyklinum er að finna sex áhugaverða fyrirlestra sem ætlaðir eru fermingarbörnum.
Alls verða sendir út fjögur þúsund umhverfisvænir minnislyklar.
„Við vonumst eftir góðum viðtökum hjá fermingarbörnunum og að foreldrar horfi og hlusti með þeim á þessa áhugaverðu fyrirlestra,“ segir sr. Hildur Björk Hörpudóttir, núverandi sóknarprestur í Reykholti en áður sviðsstjóri fræðslusviðs Biskupsstofu. „Einnig að börnin nýti svo minnislyklana áfram til þess að geyma annað nytsamlegt efni á. En þeir smellapassa í öll veski.“
Sr. Hildur Björk segir að hugmyndin að fermingar-usb-lykli hafi orðið til á fræðslusviðinu á Biskupsstofu og einnig í samtölum við fagfólk á sviði upplýsinga- og kennslufræðimála.
Samhliða útgáfu á þessum umhverfisvæna usb-lykli hefur verið opnaður vefurinn ferming.is. Þar má finna margvíslegar upplýsingar um ferminguna, skemmtilegan fróðleik og fyrirlestrana sem usb-lykillinn geymir.
Gaman verður að heyra frá fermingarbörnum næsta árs sem fædd eru árið 2008 hvað þeim finnst um usb-lykilinn sem sendur verður til þeirra. Örugglega fá þau ekki oft póstsendingu upp á gamla mátann og því verða þetta kannski líka tímamót hjá mörgum þeirra.
hsh
Minnislyklar settir í fjögur þúsund umslög - frá vinstri: Ívar Jónsson og Kjartan Jakobsson Richter
Margt hefur verið gert í fermingarfræðslu undanfarna áratugi og ætíð reynt að koma nýjungum á framfæri - þetta skírteini er frá sjöunda áratug síðustu aldar
Textinn í fermingarskírteininu - sennilega yrði kveðjan í lokin orðuð með öðrum hætti nú en þá