Ævintýri í borg
Þegar sumar gengur í garð hægist um eitt og annað í safnaðarstarfi.
En sumarið getur líka verið tækifæri til að beina sjónum að öðruvísi þáttum í safnaðarstarfi. Þannig er það í Grafarvogskirkju. Þar er boðið upp á uppbyggileg ævintýri við hvert fótmál – fyrir börn. Öflugur angi í starfinu sprettur upp og fær að njóta sín.
Augljóst var að börnunum leið vel og voru ánægð á Ævintýranámskeiðinu í Grafarvogskirkju þegar kirkjan.is leit þar við.
Alls verða námskeiðin fimm en þetta var það þriðja í röðinni. Þessi námskeið hafa verið haldin í nokkur ár í Grafarvogskirkju.
Börnin hlustuðu róleg og eftirvæntingarfull á svipinn á ungu konurnar sem stýrðu námskeiðinu, þær Ástu Jóhönnu Harðardóttur og Ernu Kristínu Stefánsdóttur. Eitthvað var í aðsigi. Og það kom í ljós: hádegismatur og að honum loknum átti að fara út í litla ævintýraferð og grilla sykurpúða.
Ungleiðtogar starfa með þeim Ástu Jóhönnu og Ernu Kristínu.
Börnin eru á aldrinum sex til níu ára, strákar og stelpur. Ævintýranámskeiðin fara fram á fyrstu hæð kirkjunnar í góðu rými þar sem bæði er hægt að ærslast og að eiga kyrrar stundir þar sem sögur eru sagðar og beðist fyrir með börnunum.
„Námskeiðin eru mjög vel sótt,“ segir Erna Kristín, „á hvert þeirra komast 24 börn og það er biðlisti á námskeiðin í ágúst.“
Svæðið í kringum kirkjuna býður upp á svo margt,“ segir Ásta Jóhanna, „hér er skógarrjóður og fjaran er ekki langt frá.“
„Ég tengi þetta við sköpunarverkið, líkaminn er sköpun og hann er fullkominn eins og hann er,“ segir Erna Kristín, „hann er eins og hann á að vera.“ Hún segir að hvað þetta tema snertir þá sé unnið út frá bók hennar: Ég vel mig, sem kom út árið 2020. „Við byggjum upp sjálfsmyndina hjá börnunum svo þau hafi traust á sjálfum sér.“ Í þessu felst áhersla á að allar séu manneskjurnar hluti af náttúrunni, sköpun Guðs. „Við erum allskonar,“ segir Erna Kristín, og bætir við: „og það er í lagi.“ Eða með öðrum orðum: hver flýgur eins og hann er fiðraður – og það er hið besta mál. Hún segir að með þessu sé gengist við hinum sjálfsagða fjölbreytileika. Einnig sé mikilvægt að tengja saman náungakærleik og kærleika gagnvart sjálfri sér sem manneskju. „Það er erfitt að byggja upp jákvæða sjálfsmynd ef maður er ekki góður við náungann,“ segir Erna Kristín og bætir við að það sé í raun erfitt að vera góður við náungann ef maður sé ekki góður við sjálfan sig.
Ásta Jóhanna segir að þær kenni börnunum bænir og það sé ánægjulegt að þau kunni flest Faðir vorið. „Svo erum við með bangsaskírn,“ segir hún og börnin eru mjög spennt fyrir því og hafa gaman af þeim viðburði.
Þær Ásta Jóhanna og Erna Kristín segja að að þær fari yfir nokkrar dæmisögur Jesú með börnunum og þau séu bara mjög sjálfstæð í sínum pælingum. Séu skemmtilega forvitin og spyrji um margt. Mörg þeirra kannist við dæmisögurnar enda hafa þau tekið þátt í barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar.
Þegar kirkjan.is kvaddi þær Ástu Jóhönnu og Ernu Kristínu var djúp kyrrð yfir öllu í Grafarvogskirkju. Börnin voru að borða hádegismatinn sinn og virtust kunna mjög svo vel við hann – enda koma þau með hann sjálf að heiman. Morgunmat fá þau í kirkjunni og eru ekki síður ánægð með hann.
En sykurpúðagrillið beið og þá hefur örugglega færst heldur betur fjör í leikinn eins og vera ber hjá litlum manneskjum á þessum aldri.
Allar upplýsingar um námskeiðin má finna á heimasíðu Grafarvogskirkju.
hsh
Hver dagur byggist upp á rólegum stundum, sögum og uppbyggingu á jákvæðri líkamsímynd, ásamt útiveru, ævintýrum og endalausu fjöri.
Námskeiðið byggist upp á jákvæðri sjálfsmynd og líkamsímynd barna í gegnum fræðslu og fjör.
Rólegar stundir – Þakklæti
Spjall, saga, kærleikshringur
Fræðslustundir – Áfram ég
Jákvæð líkamsímynd og sögur úr Biblíunni
Föndur og uppákomur
Fjör – Óstöðvandi
„Wipe-out“- braut, ævintýraferð, danskennsla, náttfatapartý, bangsaskírn, hæfileikasýning, vatnsrennibraut, pylsupartý, leikir, öfugur dagur og margt margt fleira. Útivera – Næring fyrir líkama og sál Skógarferð, gönguferð, ævintýraferð, buslferð og fleira.
Hendur framtíðarinnar