Vegleg Skálholtshátíð
Skálholtshátíð er jafnan haldin árlega fyrsta sunnudag eftir Þorláksmessu á sumri. Dagskráin er ætíð fjölbreytileg og vönduð.
Strax á föstudagskvöldinu 16. júlí verða þeir Hjörleifur Valsson og Jónas Þórir með tónleika þar sem fiðlan ómar og orgelið tekur undir. Svo sannarlega eru þar á ferð tveir meistarar.
Laugardaginn 17. júlí er útimessa við Þorlákssæti og hefst hún kl. 9.00 að morgni.
Stuttu síðar eða kl. 10.00 hefst svo málþing á vegum Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar um sr. Sigurbjörn en hann hefði orðið 110 ára hinn 30. júní s.l. Þau sem flytja stutt erindi eru dr. Arnfríður Guðmundsdóttir, dr. Gunnlaugur A. Jónsson, dr. Magnús Þorkell Bernharðsson og vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson. Sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup, flytur ávarp. Formaður Stofnunar dr. Sigurbjörns Einarssonar, Bogi Ágústsson, fréttamaður, stýrir umræðum.
Hægt verður að fara í vettvangsferðir eftir hádegið. Sérstaklega skal bent á Ragnheiðargöngu sem hefst kl. 12.45 en henni stýrir Friðrik Erlingsson, rithöfundur. Um þessar mundir eru 380 ár liðin frá fæðingu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur (1641-1663) og er gangan farin henni til heiðurs.
Laugardagssíðdegið verða hátíðartónleikar undir stjórn Jóns Bjarnasonar – þeir hefjast kl. 16.00. Skálholtskórinn syngur og ýmsir tónlistarmenn koma fram.
Sunnudagurinn hefst svo með morgunbænum kl. 9.00. Jón Bjarnason, kantor Skálholtsdomkirkju, verður með orgeltónleika kl. 11.00.
Hátíðarmessa verður á sunnudeginum 18. júlí kl. 14.00. Sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, prédikar. Skálholtskórinn syngur undir stjórn Jóns Bjarnasonar, kantors.
Kirkjukaffið er á sínum stað eftir messuna og þegar gestir hafa fengið sér kaffihressinguna er boðið upp á hátíðardagskrá í kirkjunni. Skálholtskórinn er þar sem fyrr í veigamiklu hlutverki ásamt nokkrum einleikurum. Það er Þórunn Elín Erlu Valdimarsdóttir, rithöfundur og sagnfræðingur, sem flytur að þessu sinni hátíðarræðu Skálholtshátíðar.
Pílagrímagöngur hafa verið skipulagðar í tengslum við Skálholtshátíð og mun hópur pílagríma ganga inn í kirkju við upphaf guðsþjónustu. Þau sem lengst eru komin að koma frá Hólum í Hjaltadal. Önnur koma frá Bæ í Borgarfirði og enn önnur frá Reynivöllum í Kjós.
Hinn forni tíðasöngur er sunginn í Skálholti alla daga og frá föstudegi til mánudagsmorguns mun Ísleifsreglan leiða sönginn að morgni dags og um kvöld.
Veitingar og gistingu er hægt að kaupa í Skálholtsskóla: hotelskalholt@skalholt.is.
hsh