Tvöfalt afmæli í Reykholti

22. júlí 2021

Tvöfalt afmæli í Reykholti

Reykholtskirkja hin nýja, vígð 28. júlí 1996, og hin eldri, vígð 31. júlí 1887 - mynd: hsh

Það verður mikið um að vera í Reykholti dagana 23. júlí - 25. júlí.

Á morgun hefst Reykholtshátíð með miklum glæsibrag enda fagnar hún aldarfjórðungsafmæli sínu. Hið sama gerir Reykholtskirkja sem vígð var 28. júlí 1996.

Dagskráin Reykholtshátíðar er að vanda fjölbreytileg og spennandi. Hér má lesa hana.

Á afmælisári hátíðarinnar er sjónum beint sérstaklega að skáldinu Þorsteini frá Hamri (1938-2018) en hann var fæddur á Hamri í Þverárhlíð í Borgarfirði og eitt fremsta skáld þjóðarinnar.

En það eru ekki bara tímamót vegna afmælis kirkju og hátíðar heldur var ráðinn nýr prestur fyrir skömmu í Reykholt, sr. Hildur Björk Hörpudóttir. Tók hún við af hinum þjóðkunna klerki, sr. Geir G. Waage, sem hafði forystu um uppbyggingu Reykholtsstaðar.

Kirkjan.is ræddi við sr. Hildi Björk og spurði hana fyrst út í Reykholtshátíðina.

„Ég er einstaklega spennt fyrir Reykholtshátíð og tilhlökkunin er mikil,“ sagði sr. Hildur Björk, „Bæði eru einstakir tónlistarmenn að koma fram, spennandi fyrirlestur og svo dásamleg hátíðarguðsþjónusta á dagskránni sem verður helguð 25 ára vígsluafmæli Reykholtskirkju.“

Sr. Hildur Björk segir að hátíðir eins og Reykholtshátíð, Skálholtshátíð og Hólahátíð séu alveg sérstakir viðburðir í kirkjulífinu og styrki og styðji við bæði menningu og listir og síðast en ekki síst trúarlífið og það fallega samfélag sem kirkjan sé. „Það er einnig mikilvægt að styðja við þessa fornu kirkjustaði og merka sögu þeirra og laða fólk að með dagskrá sem nær til allra þeirra sem vilja næra sál og anda,“ bætir sr. Hildur Björk við.

Borgfirska skáldið, Þorsteinn frá Hamri verður í sviðsljósinu sem áður sagði og um það segir sr. Hildur Björk:

„Ég hlakka mikið til að hlusta á fyrirlestur Ástráðs Eysteinssonar um ljóð Þorsteins og finnst mér titill fyrirlestursins einstaklega fallegur og lýsandi fyrir ljóð hans en hann er Lífríki spora, um fótfestu í ljóðum Þorsteins frá Hamri. Við sem þekkjum ljóðin hans Þorsteins ágætlega vitum að þau eru svo margbrotin og myndræn og um leið eins og hugvekjur sem endalaust er hægt að finna eitthvað nýtt í um mannshugann og tilfinningar því oftar sem þau eru lesin.“

Sr. Hildur Björk segir að vígsluafmælis kirkjunnar verði minnst með hátíðarguðsþjónustu sunnudaginn 25. júlí kl. 14.00 þar sem tónlistin verði í hávegum höfð. „Tónlistarfólk á Reykholtshátíð mun flytja okkur Saraböndur eftir Bach og Corelli, einleikskafla eftir Bach og dúett eftir Beethoven,“ segir hún og með þessum hætti tvinnist hátíð og kirkja saman í eitt. „Í messunni munum við sr. Geir Waage, pastor emeritus, þjóna saman og sr. Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, mun predika í tilefni stórafmælisins.“

Dóra Erna Ásbjörnsdóttir organisti Reykholtsprestakalls leikur á orgel og stjórnar kirkjukór Reykholtskirkju.

Og hvernig skyldi nýi presturinn horfa til starfsins?

„Það hefur verið einstaklega ljúft og gott að koma til starfa við prestakallið og hefur sumarið einkennst af messuhaldi og athöfnum eins og hjá flestum öðrum prestum eftir kórónuveirufaraldurinn,“ segir sr. Hildur Björk. „Ég er svo farin að hlakka til að hefja hauststarfið okkar en þá ætlum við að byrja með flæði og þemamessur einu sinni í mánuði, barnakór, fermingarfræðslu með forráðamönnum, fara í viku fermingarfræðsluferðalag og byrja með kyrrðarbænastarf svo eitthvað sé nefnt.“

Kirkjan.is óskar sr. Hildi Björk góðs gengis á nýjum slóðum og sendir henni hamingjuóskir í tilefni hins tvöfalda afmælis. 

hsh
  • List og kirkja

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls