Sr. Sigurjón Einarsson, prófastur emeritus, kvaddur
Sr. Sigurjón Einarsson, fyrrum prófastur á Kirkjubæjarklaustri, lést 23. júlí s.l. á Hrafnistu í Reykjavík. Jarðaraför hans fer fram frá Fossvogskirkju þriðjudaginn 17. ágúst kl. 13.00.
Sr. Sigurjón fæddist í Austmannsdal, Ketildalahreppi í Vestur-Barðastrandarsýslu, 28. ágúst 1928 og ólst upp í Arnarfirðinum. Foreldrar hans voru Einar Bogi Gíslason, búfræðingur, bóndi, sjómaður og hreppstjóri á Bakka í Arnarfirði, Vestur-Barðastrandasýslu, og Kristjana Vigdís Andrésdóttir, ljósmóðir.
Eiginkona sr. Sigurjóns, Jóna Þorsteinsdóttir, kennari og bókasafnsfræðingur, lést 2001. Þau eignuðust tvö börn, Æsu og Ketil.
Á langri ævi kom hann víða við. Hann stundaði sjómennsku á bátum og togurum á námsárum sínum, var næturvörður, fékkst við kennslu og var skrifari á Alþingi, svo fátt eitt sé nefnt.
Sr. Sigurjón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1950 og embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1956. Eftir stúdentspróf var hann við framhaldsnám og rannsóknir í Þýskalandi og Austurríki. Lagði hann stund á kirkju-,miðalda- og almenna trúarbragðasögu. Síðan sökkti hann sér ofan í rannsóknir á siðbreytingunni og dvaldist við þær rannsóknir í Kaupmannahöfn í nokkrum lotum.
Hann vígðist hinn 22. nóvember árið 1959 til Brjánslækjarprestakalls og fékk lausn þaðan 1960. Árið 1963 var honum veitt Kirkjubæjarklaustursprestakall og hann var skipaður prófastur Skaftafellsprófastsdæmis 1989. Lausn frá embættum fékk hann árið 1998 fyrir aldurs sakir. Sr. Sigurjón þjónaði Kirkjubæjarklaustri frá 1963 til 1998 eða í 35 ár.
Sr. Sigurjón var mikill félagsmálamaður og eftirsóttur enda hann maður eldmóðs og athafna. Saga lands og þjóðar, málefni kristni og kirkju áttu jafnan hug hans allan.
Sr. Sigurjón og kona hans, Jóna, voru miklir máttarstólpar í samfélaginu á Kirkjubæjarklaustri. Þau settu á fót unglingaskóla á Klaustri og voru helstu hvatamenn að byggingu Kirkjubæjarskóla. Auk þess var sr. Sigurjón formaður fræðsluráðs Suðurlands um árabil.
Sr. Sigurjón var í forystu fyrir því að reist yrði Minningarkapella um eldklerkinn, sr. Jón Steingrímsson. Hann var oddviti Kirkjubæjarhrepps um skeið og sat í ýmsum nefndum og ráðum á vegum hrepps og sýslu enda kappsfullur og metnaðarfullur í hverju verki.
Hann sat á kirkjuþingi og í kirkjuráði.
Sr. Sigurjón ritaði fjölda greina í blöð og tímarit um efni sagnfræðilegs eðlis enda maðurinn einkar vel ritfær og hafsjór af fróðleik. Hann var ritstjóri ýmissa blaða og tímarita, eins og Dynskóga, héraðsriti Vestur-Skaftfellinga, og var einn af stofnendum þess, Afmælisriti Prestafélags Suðurlands og Verslunarsögu Vestur-Skaftfellinga. Þá var hann formaður ritstjórnar Kristnisögu Íslands í tilefni þúsund ára afmælis kristnitökunnar – svo nokkuð sé nefnt. Einnig var sr. Sigurjón stundakennari í kirkjusögu við guðfræðideild Háskóla Íslands um nokkurra ára skeið. Árið 2006 kom út sjálfsævisaga hans, Undir hamrastáli. Uppvaxtarsaga og mannlífsmyndir úr Arnarfirði. Það er mikil bók og stórmerk.
Sr. Sigurjón var ræðinn maður, hlýr í viðkynningu og áhugasamur gagnvart viðmælendum sínum. Ögn ör í máli þegar honum var mikið niðri fyrir. Alþýðlegur í allri framgöngu og hógvær í viðmóti, glettinn og góðviljaður. Hann var íhugull og glöggur fræðimaður og staðhæfði ekkert í sögulegum efnum nema hann hefði fast land undir fótum.
Sóknarfólki sínu reyndist hann hinn besti hirðir.
Sr. Sigurjón Einarsson er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.
hsh