Verkin tala
Þegar ekið er upp úr Hvalfjarðargöngunum og beygt í áttina að Akranesi sér í litla hvíta kirkju nokkru norðan vegarins. Hún vekur ekki mikla athygli hversdagslega en býr yfir sögu eins og aðrar kirkjur og mörg eru þau sem bera umhyggju fyrir henni. Gamlar kirkju eiga nefnilega vini og velunnara víðar en fólk hyggur. Þetta er kirkjan að Innra-Hólmi sem reist var árið 1891 eða fyrir 130 árum – vígð ári síðar. Og kirkjustaðurinn er ævaforn.
Nú er mikið að vera um þessar mundir að Innra-Hólmi.
Í aprílmánuði síðastliðnum ræddi kirkjan.is við Ragnheiði Guðmundsdóttur, sóknarnefndarformann og djákna, í Innra-Hólmssókn, og skoðaði kirkjuna með henni. Hún er ein af þeim mörgu kirkjukonum með stórt hjarta og góðan hug sem standa vörð um kirkjur landsins.
Lengi hefur fólk fundið til með þessu litla guðshúsi og þótt sárt að geta ekki hafið endurbætur á því. Sóknin er fámenn, innan við hundrað manns í henni – og er þjónað frá Akranesi. En fólk hefur ekki gefist upp. Fólkið hefur sjálft brett upp ermar og staðið sína vakt án þess að þeyta í lúðra.
Í mörg ár hafa konur haldið basar í félagsheimilinu Miðgarði við Akranes og safnað fyrir viðgerðum á kirkjunni. Þegar markaðurinn gengur vel kemur hátt í einn milljón króna inn í sjóðinn. Það er ekki lítið. Í þessar kirkjuforystu eru sóknarnefndarkonurnar Ragnheiður Guðmundsdóttir, Ingileif Daníelsdóttir og Guðrún Lára Ottesen. Þá hefur hópur velunnara kirkjunnar sem kennir sig við 1949 árganginn af Innnesinu ekki látið sitt eftir liggja. „Þetta eru fjögur fjögur fermingarsystkin sem fermdust 1963,“ segir Ragnheiður, „og höfðu samband við okkur og vilja styðja við verkið.“
Ragnheiður segir finna fyrir miklum velvilja gagnvart verkinu. Sveitarfélagið styrkti þau með myndarlegum hætti og svo hafa einstaklingar látið fé af hendi rakna til verksins. Þegar hún er spurð hvað þessi áfangi muni kosta svarar hún með bros á vör að hann megi ekki kosta meira en þau eigi. Í næsta áfanga verði svo hugað að endurbótum innan dyra og mun söfnun hefjast fyrir því innan tíðar.
Kirkjan.is leit við í gærkvöldi á Innra-Hólmi og tók nokkrar myndir sem sýna að framkvæmdir eru langt komnar.
Búið er að skipta um járn á þaki, múra kirkjuna alla að utan. Þá verður skipt um glugga. Eftir á að saga út fyrir einu höfuðeinkenni kirkjunnar, broddbogalagaða turnglugganum og setja rósettuna með lárviðarsveignum yfir hann. Smárakrossinn efst á turni er nýviðgerður og sómir sér sem fyrr vel.
Góðir hlutir gerast hægt, er gjarnan sagt. Það á svo sannarlega við um starf sóknarnefndar Innra-Hólmskirkju í Garða- og Saurbæjarprestakalli.
hsh
Turn og stallur - kemur vel út - eftir á saga út fyrir turnglugga
Turninn og stallurinn voru illa farnir -maí 2020
Nýtt sáluhlið og forkirkja múruð
Svona leit þetta út í maí 2020
Vel að verki staðið og með myndarbrag
Hér sést hve kirkjan var illa farin - mynd frá maí 2020