Hestar og sálgæsla
Oft er sagt að dýrin geti brætt hjörtu mannanna. Og hvert þeirra gerir það með sínum hætti. Hundar eru sagðir vera bestu vinir mannsins og eru honum tryggir. Kettir fara sínar eigin leiðir en eru líka tryggir húsbændum sínum á sína vísu. Kýr vita sínu viti og það sama er um kindur að segja. Forystufé er margfrægt. Til eru margar fallegar sögur um samskipti manna sem draga má lærdóma af. Dýr hafa og bjargað mannslífum í ótrúlegustu aðstæðum.
Hesturinn var kallaður þarfasti þjónninn. Enn þjónar hann – og með margvíslegum hætti – og nýjum.
Sr. María Gunnarsdóttir er mikil hestakona. Hefur verið að snúast í kringum hesta í nær fjörutíu ár. Hún þekkir hesta því vel og nú ætlar hún að nýta bæði sína hæfileika og menntun samhliða hæfileikum hestsins í verkefni sem hún kallar sálgæsla með aðstoð hesta.
„Hestar hafa margar af sömu tilfinningum og manneskjan,“ segir sr. María. „Þeir verða hræddir, sorgmæddir, daprir, reiðir, jákvæðir og ánægðir. Þeir endurspegla tilfinningar manneskjunnar og hjálpa manneskjunni að læra á eigin tilfinningar. Hesturinn hefur hjálpað mörgum að læra á eigið tilfinningalíf og hvernig eigi að eiga góð samskipti við aðra.“
Hún segir að fólk geti lært svo mikið af því að vera í kringum hesta. Hestar eru falleg dýr og stór. Þeir bregðast strax við fólki. „Sálgæsluaðilinn veit ekki hvernig skjólstæðingurinn muni bregðast við hestinum og sálgæsluaðilinn veit ekki fyrirfram hvernig hesturinn muni bregðast við skjólstæðingnum. Hvaða upplifun og tilfinningar koma fram og hvernig ferlið muni þróast í sálgæslumeðferðinni. Skjólstæðingurinn ræður flæðinu í meðferðinni og hvað hann þarf akkúrat þá og þegar“.
„Það fer alveg eftir skjólstæðingnum, aldri og verkefnunum sem hann stendur frammi fyrir í lífi sínu,“ segir sr. María. „Yfirleitt er notaður einn hestur með einum skjólstæðingi og sálgæsluaðila. “ Hún segir að ekki sé um að ræða reiðmennsku eða hestamennsku heldur sé markmiðið að fá skjólstæðinginn til þess að tengjast hestinum með því að umgangast hann á staðnum. Farið er yfir öryggisþætti skjólstæðingsins og hesturinn kynntur fyrir honum. „Oft táknar hesturinn ákveðna hluti eða persónu í huga skjólstæðingsins,“ segir sr. María.
„Hindranir lífsins eða erfiðleikar eru settir upp sem táknmynd á svæðið þar sem unnið er með hestinum,“ útskýrir sr. María og segir að hnakkur og beisli séu ekki nauðsynleg þegar komið er inn í táknheiminn (svæðið með hestinum). „Það er hægt að nota ýmis tákn, t.d keilur, staura, húllahringi og margt fleira. Þessir hlutir eru allavega á litinn, lögun og stærðum og geta haft ýmsar merkingar fyrir skjólstæðinginn.“ Hún segir að hægt sé að nota ýmislegt annað sem hafi sérstaka merkingu fyrir skjólstæðinginn, t.d. stígvél, dúkkur, bangsa, eða eitthvað úr vinnunni. „Það er gott að hlutirnir sem skjólstæðingurinn tekur með sér hafi sterka merkingu fyrir hann og það hlutverk sem hlutirnir gegna í raunveruleikanum hafa þá þegar merkingu áður þeir eru settir inn í rýmið.“
Sálgæsla með aðstoð hesta snýst um samskipti hests og manneskjunnar.
„Þetta er gott umhverfi til þess að læra á sjálfan sig,“ segir sr. María. „Finna fyrir eigin tilfinningum og þörfum, hugsunum og óskum.“ Hún segir að það séu tilfinningar og tengsl í flæðinu milli hests og manns og ef skjólstæðingurinn sé uppstökkur eða reiður þá komi það fram í líkamstjáningu hans og hesturinn finni fyrir þessum erfiðu tilfinningum skjólstæðingsins. „Hesturinn bregst við tilfinningum skjólstæðingsins og ef hesturinn vill ekkert með skjólstæðinginn hafa þá þarf hann að breyta hegðun sinni og tilfinningum til þess að fá hestinn til þess að yrða á sig.“ Finni hesturinn fyrir ósamræmi í tilfinningum skjólstæðingsins, að hann meini ekki það sem hann segi eða hann virðist rólegur á yfirborðinu en sé ein tilfinningaflækja hið innra þá verði hesturinn varkár í samskiptum við skjólstæðinginn og það sjáist strax í atferli hestsins. „Þá er gott fyrir sálgætinn að spyrja opinna spurninga. Hvað veldur?“ segir sr. María.
Þetta er athyglisverð nýjung sem sr. María býður upp á. Leiðin sem hún fer með aðstoð hesta er ólík allri hefðbundinni samtalsmeðferð. Þetta er leið sem virkjar öll skilningarvit og skjólstæðingarnir læra að vinna úr tilfinningum sínum og hugsunum.
Hér sameinast í eitt manneskjan og hesturinn – hesturinn er hluti af sálgæsluteymi. Ástæða er til að fagna þessari nýjung og óska sr. Maríu alls góðs á nýjum slóðum.
hsh