Kirkjulistakonu minnst

27. ágúst 2021

Kirkjulistakonu minnst

Sigrún Jónsdóttir (1921-2021), kirkjulistakona, við hökul sem hún gerði fyrir Reynistaðarkirkju í Skagafirði árið 2000. Mynd: Ásdís Ásgeirsdóttir

Sýning á kirkjulistaverkum Sigrúnar Jónsdóttur (1921-2021), kirkjulistakonu, verður í Seltjarnarneskirkju í tilefni þess að eitt hundrað ár voru liðin frá fæðingu hennar 19. ágúst síðastliðinn.

Sýningin verður opnuð að lokinni guðsþjónustu í Seltjarnarneskirkju sunudaginn 29. ágúst kl. 11. 00. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, prédikar í guðsþjónustunni, en sóknarpresturinn sr. Bjarni Þór Bjarnason, þjónar fyrir altari. Organisti er Friðrik Vignir Stefánsson og kór kirkjunnar syngur. 

Á sýningunni má sjá úrval af höklum sem Sigrún gerði á langri ævi, einnig og altarisklæði og trúarleg myndverk. Þá verða sýndir ýmsir veraldlegir nytjahlutir sem hún gerði eins og batik-lampar, myndir; kjólar og fleira.

Sigrún Jónsdóttir, kirkjulistakona, fæddist í Vík í Mýrdal 19. ágúst 1921. Hún lést 22. nóvember 2001.

Foreldrar hennar voru hjónin Jón Jónsson, silfur- og málmsmiður, og Guðný Þorgerður Þorgilsdóttir, starfskona hjá Alþingi.

Snemma komu i ljós listrænir hannyrðahæfileikar Sigrúnar sem hún lagði rækt við og gerðu hana að þeirri listakonu sem nú er minnst með virðingu. Hún fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur og hóf nám í Kvennaskólanum og lauk því 1939. Nokkru síðar tók hún að sækja námskeið í saumum og handavinnu, ýmist hjá einkakennurum eða í Handíða- og myndlistaskólanum. Sigrún lauk handavinnukennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1947. Hún hélt utan til Gautaborgar til frekara listnáms. Sigrún útskrifaðist sem meistari úr textíldeild Slöjdföreningens-skóla eftir tíu ára nám og starf að listgreininni í Gautaborg.

Sigrún kynnti fyrir Íslendingum ævaforna listgrein, batik. Batikskermar og batikdúkar sem hún gerði nutu mikilla vinsælda á sínum tíma.
Sýningar á kirkjulist hennar voru haldnar hér heima og víða um heim.

Segja má að hún sé með fyrstu kirkjulistakonum Íslendinga og er líklega mikilvirkust þeirra allra í kirkjulist þar sem vefnaður og saumur koma við sögu.

Sigrún vann fjölda ofinna og saumaðra kirkjulistaverka fyrir kirkjur víðs vegar út um land sem og í útlöndum. Það eru höklar, stólur, stólsáklæði á prédikunarstóli, altarisdúkar og altarisklæði.

Verkin eru prýdd með fornum kirkju- og guðfræðilegum táknum. Þá tengdi hún oft myndir og tákn í listaverkum sínum því samfélagi sem hún vann þau fyrir. Dæmi um það er svartur hökull í eigu Landakirkju í Vestmannaeyjum en framan á honum er efri bogi hins kunna sáluhliðs í kirkjugarðinum sem stóð upp úr öskunni í gosinu 1973 með hinum sterka boðskap: Ég lifi og þér munuð lifa. Einnig hökull í eigu Siglufjarðarkirkju en þar er á baki hans Hólshyrna og nótur við lag sr. Bjarna Þorsteinssonar, sem kallaður var faðir Siglufjarðar. Á framhlið eru nótur úr lagi sr. Bjarna, Kirkjuhvoll.

Hún lét líka til sína taka á öðrum menningar- og minjasviðum svo um munaði. Það var að frumkvæði hennar að eikarskipið Skaftfellingur var flutt til Víkur í Mýrdal frá Vestmannaeyjum fyrir rúmum tuttugu árum. Skaftfellingur var á æskuárum hennar líftaug íbúanna í Vík.

Sigrún var öflug kona og alla tíð trú sínu listræna þjónustuhlutverki.

Hún er mér inngróin
Í ævisögu Sigrúnar sem kom út árið 2000 segir hún á einum stað:

„Ég mætti ekki alltaf skilningi í uppvextinum og hvert á maður að snúa sér sem barn í kristnu samfélagi eins og Vík var þá nema til guðs? Ég veit ekki hvernig líf mitt hefði orðið ef ég hefði ekki haft guðstrúna. Hún er mér inngróin.“ (Engin venjuleg kona – Litríkt líf Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu, eftir Þórunni Valdimarsdóttur, bls. 49).

Sýning á list Sigrúnar stendur yfir í mánuð og er aðgangur ókeypis. Það er Biskupsstofa sem stendur að sýningunni og með því vill þjóðkirkjan gjalda Sigrúnu Jónsdóttur, kirkjulistakonu, virðingu og þökk, fyrir merkilegt og heillandi lífsstarf sem hefur styrkt boðun kirkjunnar á fagnaðarerindinu.

Söfnuðir og einstaklingar lánuðu muni á sýninguna. Ættingjar Sigrúnar lögðu sömuleiðis sýningunni lið með margvíslegum hætti.

Í undirbúningsnefnd fyrir sýninguna voru þau Gígja Árnadóttir, skjalavörður á Biskupsstofu, Ragnhildur Benediktsdóttir, lögfræðingur, og sr. Hreinn S. Hákonarson, sérþjónustuprestur á Biskupsstofu.

Sýningin er opin þriðjudaga til fimmtudaga kl. 13.00-17.00. Og á föstudögum frá 13.00 til 16.00.

Á sýningunni er hinn svarti hökull Landakirkju í Vestmannaeyjum. Sigrún glímdi við krabbamein þegar hún vann að honum. Hún segir svo í ævisögu sinni:

„Milli tarna í geislunum í Lundi vinn ég eins og ég get við hökulinn fyrir Landakirkju í Vestmannaeyjum.

Ég sauma sársauka minn og um leið sársauka allra sem horfast í augu við dauðann út í svarta sorgarhempuna. ... Úr því þessi hökull lenti í höndum mínum núna hlýt ég að sleppa gegnum hörmungarnar. Því trúi ég þegar best liggur á mér, þeirri sannnfæringu held ég þrátt fyrir yfirlýsingar lækna um að ég eigi stutt eftir. ... Það linar þjáningarnar að finna til með Kristi og tengja sig við þjáningar allra, það er gott að vera ekki sá eini sem þjáist, samlíðun er undarlega sefandi. ...“ (Engin venjuleg kona – Litríkt líf Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu, eftir Þórunni Valdimarsdóttur, bls. 187).

hsh





  • List og kirkja

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls