Dagur kærleiksþjónustunnar
Einn dagur á ári er sérstaklega tekinn út fyrir sviga og þá er hugað að kærleiksþjónustu kirkjunnar. Einhver myndi nú segja að allir dagar væru dagar kærleiksþjónustunnar. Það má svo vissulega til sanns vegar færa því að kærleikurinn fer aldrei í frí. Hann er stöðugur.
Á degi kærleiksþjónustunnar hefur gjarnan verið tekið fyrir eitt tema og augum beint sérstaklega að því. Dæmi um það eru eldri borgarar, sjálfboðaliðar í kirkjustarfi, langveik börn o.s.frv. Að þessu sinni er ekkert eitt tema sem er dregið fram heldur er söfnuðum í sjálfs vald sett hvað þeir taka fyrir.
Þess vegna getur verið mjög spennandi að sækja guðsþjónustur í dag og heyra hvaða stef kunna að vera ofarlega í huga þeirra sem stíga í stólinn. Víst er víða er þörf á kærleiksfúsum höndum til að styðja við mörg góð málefni.
Magnea Sverrisdóttir, djákni, vinnur á kærleikssviði Biskupsstofu. Hún mun prédika í Grafarvogskirkju og hefst guðsþjónustan kl. 11.00. Þetta er svokölluð kaffihúsamessa. Yfir þeim er léttur bragur og fólk situr við borð og drekkur kaffi eða te.
„Dagur kærleiksþjónustunnar er bundinn við 13. sunnudag eftir eftir þrenningarhátíð og hann skýtur alltaf upp kolli í ágústmánuði,“ segir Magnea þegar kirkjan.is tók hana tali. Kirkjan.is spyr aðeins út í prédikunina. Magnea ætlar að nota pistil dagsins, 1. Korintubréf 13.8-13, sem upptakt í prédikunina og síðan er hún með í pokahorninu sögu um vonina frá Suri Name og sögu um trú og kærleika frá Nígeríu. Hún leggur áherslu á að kærleiksþjónusta sé ekki eins og einhver launavinna heldur fyrst og fremst mennskan í okkur öllum. „Við erum öll hendur Guðs hér á jörðinni og viðfangsefni okkar eru allar manneskjur,“ segir Magnea og bætir við að vissulega geti þetta verið stundum býsna erfitt verkefni en þó ekki óyfirstíganlegt. Góðir hlutir gerist hægt.
„Kærleiksþjónustan fjallar um að mæta bræðrum okkar og systrum og hún á að vera valdeflandi og án skilyrða,“ segir Magnea. Kærleiksþjónusta kirkjunnar er margslungin og unnin á mörgum stöðum.
hsh
Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok,
og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.
Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.
En þegar hið fullkomna kemur líður það undir lok sem er í molum.
Þegar ég var barn talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn.
En þegar ég var orðinn fulltíða lagði ég niður barnaskapinn.
Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu,
en þá munum vér sjá augliti til auglitis.
Nú er þekking mín í molum en þá mun ég gjörþekkja eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.
En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt,
en þeirra er kærleikurinn mestur.
1.Korintubréf 13. 8-13