Jón Sveinbjörnsson, prófessor emeritus, kvaddur
Jón Sveinbjörnsson, prófessor emeritus, lést 1. september s.l., 93 ára að aldri.
Jón fæddist í Reykjavík 27. júlí 1928, sonur hjónanna Sveinbjörns Jónssonar, hæstaréttarlögmanns, og Þórunnar Bergþórsdóttur, húsmóður.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Guðrún Magnúsdóttir, húsmóðir, og eignuðust þau fimm börn, þau Sveinbjörn, Þórunni Bergþóru, Magnús Bjarna, Halldór og Ingibjörgu.
Jón lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1948. Hann hélt þá utan til Svíþjóðar og lauk fil.kand.-prófi í grísku, trúarbragðafræðum og teoretískri heimspeki frá Uppsalaháskóla 1955. Síðar lauk hann kandídatsprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1959. Framhaldsnám og rannsóknir stundaði hann í Cambridge á Englandi, sömuleiðis við Fornfræðistofnunina í Claremont í Suður-Kaliforníu og Emory háskólann í Atlanta, Georgíu, í Bandaríkjunum.
Jón var ráðinn þýðandi hjá Hinu íslenska Biblíufélagi árið 1962 og kom allar götur síðan að þýðingarstörfum hinnar íslensku Biblíu. Hann lagðist ofan í þýðingarfræði og beitti nýjum aðferðum og kenningum þeirra fræða við þýðingar sínar.
Hann sinnti fjölmörgum trúnaðarstörfum innan háskólans og var í tvígang forseti guðfræðideildar.
Hann kom til kennslu við háskólann árið 1962 og var skipaður prófessor í nýjatestamentisfræðum við Háskóla Íslands 1974 og gegndi því starfi til sjötugs.
Eftir Jón liggur fjöldi vísindagreina um þýðingarmál og nýjatestamentisfræði. Hann var sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við guðfræðideild Háskóla Íslands árið 2000.
Segja má að Jón Sveinbjörnsson hafi kennt heilli kynslóð guðfræðinga og flestir þeirra tóku vígslu. Jón var einstakur kennari og nálgaðist texta Biblíunnar með ærlegum hætti eins og hann tók sjálfur til orða og lét ekki trúarsetningar kirkju og kristni villa sér sýn. Hann hvatti stúdenta til að pressa textann – eins og hann orðaði það, láta textann sjálfan tala. Sem kennari taldi hann það ekki vera sitt hlutverk að segja stúdentum hver merking textans væri heldur skyldu þeir sjálfir ráða fram úr því. Þannig voru kennslustundir hans samverkastundir þar sem hann og stúdentar sveittust yfir textum. Hann hvatti stúdenta til að ýta frá sér öllum fyrirframgefnum skoðunum og túlkunum á textunum. Með þessum vinnubrögðum vildi hann kenna stúdentum sjálfstæða og rökfasta akademíska hugsun. Hann er stúdentum eftirminnilegur sakir þess hve hispurslaus hann var, yfirlætislaus og hlýr í allri kynningu. En jafnframt var hann kröfuharður og hristi stundum sitt úfna höfuð með sínum sérstaka hætti ef honum fannst eitthvað fráleitt og lagði granna hönd undir kinn. Skaut gleraugum upp á enni og rýndi í textann. Þar átti hann heima.
Utan fræðistarfa lá hugur Jóns til skógræktar en hann bjó í Ártúnsbrekku við Elliðaár á föðurleifð sinni. Faðir hans hóf þar skógrækt á sínum tíma og tók Jón við því starfi og hélt því áfram. Skógræktin var honum því í blóð borin. Hann bjó inni í miðjum skógi sínum í Ártúnsbrekkunni og undi hvergi betur hag sínum en þar. Nóg var að gera í skóginum allan ársins hring og hugurinn hvíldist við ræktunina. Þau sem heimsóttu hann þangað gleyma ekki þeim stundum.
Prófessor emeritus Jón Sveinbjörnsson er kvaddur með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.
hsh