Grasrót í kristilegu starfi
Það stendur mikið til hjá KSS (Kristilegum skólasamtökum) á morgun en þá er blásið til kynningarfundar í húsakynnum KFUM og KFUK á Holtavegi 28. Í tilefni þess hafði kirkjan.is samband við sr. Sigurð Má Hannesson, skólaprest, og lagði fyrir hann nokkrar spurningar.
Fyrsta spurningin er sígild en hún er sú hvernig starfið hjá Kristilegum skólasamtökum hafi gengið að undanförnu.
„Það hefur bara gengið gríðarlega vel,“ svarar sr. Sigurður Már eldhress í bragði, „enda er líka svo gaman að vinna með öllu þessu ágæta unga fólki sem kemur að starfsemi allra þessara félaga (KSH og aðildarfélaganna KSS og KSF).“
Sr. Sigurður Már segir að veiran hafi auðvitað sett strik í reikninginn, aðallega þegar kom að því að gera áætlanir fram í tímann en bætir við „við sjáum fram á að það verði talsvert auðveldara þessa önnina. Við gerum til dæmis ráð fyrir því að loks verði hægt að halda langþráð haustskólamót í Vatnaskógi núna í byrjun október, en skólamótin hafa alltaf verið álitinn viss hápunktur hverrar annar í dagskrá KSS – en ég hef sjálfur ekki fengið að upplifa slíkt frá því að ég tók við keflinu sem skólaprestur, vegna heimsfaraldursins.“ Hann segir að síðustu þremur skólamótum hafi verið aflýst.
Hvað eru það margir að jafnaði sem taka þátt í starfinu?
„Ætli hópurinn sem er að mæta á fundi KSS undanfarið ár telji ekki um 50-60 ungmenni – en á hverjum og einum fundi hafa verið um 30-40 þátttakendur,“ segir sr. Sigurður Már.
Sr. Sigurður Már segir að stór hópur þátttakenda í starfi KSS hafi kynnst félaginu í gegnum KFUM og KFUK. „Aðallega úr sumarbúðastarfinu – en þó alls ekki allir,“ segir hann. „Við vinnum að sjálfsögðu náið með KFUM og KFUK, og það samstarf er farsælt og gott, en staðreyndin er sú að Kristilega skólahreyfingin (og aðildarfélög hennar) er sjálfstætt félag, og það er svo alltaf von okkar að fólk sjái KSS ekki sem lokaðan einkaklúbb, heldur sem hollan félagsskap, sem opinn er öllum ungmennum á aldrinum 15-20, þar sem allir eru velkomnir eins og þeir eru.“
Hver eru kynjahlutföll þeirra sem taka þátt í starfinu, fleiri stúlkur en piltar?
„Kynjahlutfallið er merkilega nokk bara nokkuð jafnt,“ svarar sr. Sigurður Már.
Hver verða helstu dagskrármál vetrarins hjá ykkur? spyr kirkjan.is.
„Við verðum að sjálfsögðu með okkar hefðbundnu laugardagsfundi kl. 20.30 alveg fram í miðjan desember,“ segir sr. Sigurður Már.
„Þar verður alltaf eitthvað skemmtilegt á boðstólum, og ávallt áhugaverðir fyrirlesarar, sem virkir eru í kristilegu starfi, fengnir til að halda tölu fyrir hópinn, í bland við söng og skemmtun fundanna,“ segir sr. Sigurður Már.
Eftir fundi erum við svo alltaf með einhvern samhristing. Á dagskrá vetrarins er að finna hæfileikakeppni, „lazertag“, „galakvöld“ og margt fleira. Þegar nær dregur jólum fer dagskráin svo að færa sig í jólabúninginn, og verður þá t.d. farið á skauta og haldnir jólatónleikar. Hápunktur misserisins er svo auðvitað áðurnefnt haustskólamót, sem haldið verður 1.-3. október í Vatnaskógi, þar sem gist verður í tvær nætur, hlýtt á uppbyggjandi fyrirlestra, og skemmt sér yfir stútfullri dagskrá, í góðra vina hópi.
hsh