Mannvinur gefur út bók
Nýlega kom út bók eftir Gunnar Kvaran, sellóleikara og prófessor emeritus. Hún ber nafnið Tjáning sem er að sönnu eitt aðalsmerki listamanna.
Gunnar er þjóðkunnur maður á sínu sviði. Mörg eru þau sem hafa notið listar hans þegar hann dregur bogann yfir sellóið mjúkum og næmum fingrum. Margir geisladiskar hafa komið út með tónlist hans og hann haldið fjölda tónleika hér heima og í útlöndum.
En Gunnar Kvaran hefur líka skrifað greinar í blöð á umliðnum árum og tjáð sig um ýmis mannúðar – og félagsmál. Síðast skrifaði hann grein til stuðning Páli Guðmundssyni frá Húsafelli þegar til stóð að hrekja hann í burtu með hið gagnmerka legsteinastafn. Sátt náðist sem betur fer í því máli. En Gunnar Kvaran hefur ætíð brugðist til varnar þeim sem sæta einhvers konar óréttlæti, hvort heldur af réttlætisriddurum samfélagsins eða öðrum. Hann er enda vel ritfær maður.
Gunnar er mannvinur og hjarta hans slær með list og manneskjum. Þessi bók, Tjáning, rekur mörg dæmi þess. Hann er óhræddur að segja það sem honum finnst. Og Gunnar er líka kirkjunnar maður og hefur lagt henni lið með margvíslegu móti, gerði til dæmis hljómplötu og seldi til styrktar Hjálparstarfi kirkjunnar á sínum tíma.
Bókin skiptist í þrjá meginhluta: Töframáttur tónlistar, Ljóðið, Lífið og listin. Inn í alla kaflana er íofið hinni ljúfu manngerð sem Gunnar er, listfengi hennar og kærleiksríkum huga.
Mörg voru þau skiptin sem Gunnar Kvaran heimsótti fangelsin ásamt vini sínum, Hauki Guðlaugssyni, fyrrum söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. Þessir tveir menn léku saman á hljóðfæri sín og töluðu við fangana í helgistundum sem og við önnur tækifæri. Gunnar Kvaran segir frá því í bókarbyrjun þegar hann lék á sellóið sitt fyrir fangana. Þar kemur fram að tónlistin hafði einkar jákvæð áhrif á fangana. Hann segir réttilega að falleg tónlist sé eitt af því sem fangar þurfi að „upplifa“. Og það er einmitt lóðið. Þegar hlustað er á Gunnar Kvaran leika á hljóðfæri sitt þá er það „upplifun.“ Sama mannúðarsjónarmið kemur upp hjá honum gagnvart fólki sem býr við geðfatlanir. Hann blæs til tónleika þeim til stuðnings og fær ýmsa góða og gilda tónlistarmenn með sér í lið sem og upprennandi. Allt fer vel, enda svífur mannelska hans yfir vötnum. Hann segir: „Góð tónlist nær oft niður í afkima sálarinnar sem eru lokuð svæði, en þurfa næringar við.“ (Bls. 15).
Gunnar er einlægur trúmaður. Hann kemst vel að orði þegar hann segir:
Víða kemur fram hið nána samband sellóleikarans við hljóðfærið. Og hljóðfærin eru misjöfn og þau bestu eru firna dýr. Hljóðfærið er „samofið sál“ listamannsins (bls. 39). En þetta samband getur verið sveiflukennt:
Bókin Tjáning getur örugglega reynst hin besta hjálp og leiðsögn til handa listafólki sem þarf að glíma við svo margt sem ólíkt er hinu hversdagslega – já, og það sem ekki allir sjá þó þeir klappi kröftuglega í lok tónleika.
Trúarlegt næmi Gunnars er eftirtektarvert og kemur mjög víða fram í ljóðum hans. Þar tengir hann iðulega saman list og trú.
En næmnin kemur líka fram með yfirskilvitlegum hætti eins og á tónleikum þar sem hann lék skömmu eftir andlát föður síns, hins vel þekkta leikara og sálarrannsóknarmanns, Ævars R. Kvaran. Tónleikarnir skiptu miklu máli en Gunnar var harmi sleginn eftir lát föður síns og segir stöðugt með sjálfum sér á tónleikunum að nú verði persóna hans (Gunnars) að víkja algjörlega til að koma innihaldi tónlistarinnar til skila. Það tókst. En vinkona þeirra hjóna sagðist hafa séð á ákveðnu augnabliki í flutningnum andlit Gunnars breytast í andlit föður hans. „Mín skoðun á þessu máli er sú að pabbi hafi verið þarna, bæði til að kveðja mig og styrkja,“ segir Gunnar. (Bls. 53).
Mörg ljóðanna eru tileinkuð listamönnum sem hann hefur kynnst á ævi sinni, full af þakklæti og hlýju. Þá er náttúran aldrei langt frá í ljóðum hans, fuglarnir eiga huga hans. Til dæmis þetta fallega ljóð um kríuna – ber nafn hennar:
Það haustar og vængjaðir vinir þínir
eru löngu farnir út yfir hafið í suðurátt.
Það syngur í fjöðrum þínum dökkur tónn.
Þegar harðnar á dalnum
og myrkrið grúfir yfir landinu,
liggur þú helfrosinn í köldum faðmi þess lands
sem bar þig á höndum sér
í allt sumar. (Bls. 69).
En sellóleikarinn er líka spekingur. Síðasti hluti bókarinnar, Lífið og listin, geymir nokkur erindi sem hafa verið flutt við ýmis tilefni. Til nemenda, tónleikagesta, kennara, og ýmissa annarra. Hann gefur góð og kærleiksrík ráð, huggar og styrkir, miðlar af reynslu sinni og þekkingu.
Allt þetta efni er borið uppi af væntumþykju, einlægni, hlýju og spádómsgáfu. Efnið er af mörgum toga en sammerkt því öllu er að það er ætlað manneskjum til góðs – til íhugunar og athugunar. Spekin er aldrei langt undan í textanum eins og:
Bók Gunnars Kvaran, sellóleikara, Tjáning, er perla sem siglir inn á íslenskan bókamarkað á sama tíma og mýkt og litabrigði haustsins gerir vart við sig. Það er snjall tími til að gefa út bók. Og ekki síst þegar hún er þessi slípaði og fágaði steinn sem getur verið uppistaða í vörðu á lífsleið nútímamannsins. Svona bók verða allir mannvinir að lesa, sem og fólk er lætur sig trú, list og menningu ásamt réttlæti einhverju varða.
Bókin er 128 blaðsíður, útgefandi er Skrudda. Kápumynd er af verkinu Fölnar fögur fold, eftir Pál Guðmundsson, frá Húsafelli.
hsh