Fólkið í kirkjunni: Kúabóndi, sóknarnefndarformaður og meðhjálpari
Þegar komið er að rauðum kirkjudyrum í Hrunakirkju í Hrunamannahreppi þá eru þær læstar. Það er svo sem víða að kirkjur eru læstar á Íslandi – þó ekki alls staðar – og þá er lítið annað að gera en að guða á glugga og reyna að sjá það sem sést í gegnum rúðurnar.
En kirkjudyr Hrunakirkju voru sem sé læstar. En hægra megin á dyrastaf var lyklabox og símanúmer gefið upp.
Kirkjan.is hringdi í númerið og rödd svaraði að bragði: Marta. Hringjandi sagðist vera staddur á tröppum Hrunakirkju og Marta gaf fúslega upp númerið á lásnum og kvaddi með vinsemd. Allt gekk upp, lokið af boxinu hrökk upp og þar blasti við nettur og fallegur kirkjulykill.
„Hverjum datt þetta í hug,“ spyr kirkjan.is Mörtu Esther Hjaltadóttur, kúabónda á Kópsvatni og sóknarnefndarformann til tuttugu ára. „Okkur í sóknarnefndinni, fyrir svona um sex árum,“ segir Marta, „það er heilmikil umferð hingað og fólk vill skoða þessa fallegu kirkju.“ Hún segir að þau hafi ekki viljað hafa hana læsta en undan því var ekki komist og því farið þessa leið. Kirkjan getur ekki verið opin allan sólarhringinn vegna tryggingamála. Þessi lausn hefur gefist vel.
Hrunakirkja er falleg, stílhrein og laus við allt prjál. Ekki er búið að mála járnið sem er nýlegt utan á henni – sumir vilja hafa hana eins og hún er meðan aðrir vilja mála hana rauða og hvíta eins og hún var. Þetta verður leyst þegar að því kemur.
Kirkjustarfið er öflugt í Hrunasókn. Kórinn telur hátt í fjörutíu manns og það er messað einu sinni í mánuði í Hruna í Hrepphólum. „Stór og góður kór fyrir Hruna- og Hrepphólasóknir,“ segir Marta Esther en hún syngur líka í kórnum og organisti er Stefán Þorleifsson og hefur verið það frá 2007 – hann er sameiginlegur starfsmaður Hruna- og Hrepphólasókna og sá eini sem er á launum.
Marta Esther segir að það sé mjög skemmtilegt að vinna í sóknarnefndinni. Hún er kirkjukona, alin upp í Skálholtssókn og hefur búið í um þrjá áratugi á þessum slóðum. Þau sem koma að kirkjumálunum eru öll í sjálfboðavinnu og það er mannauður sem kirkjan býr að og verður að sjálfsögðu að leggja rækt við. Fjárhagur kirkjunnar er í járnum. Marta Esther segir að sóknargjöldin dugi varla fyrir mánaðarlegum útgjöldum vegna kirkjustarfsins. „Kirkjugarðurinn er betur staddur,“ segir hún og bætir við: „En kirkja og garður þola engin óvænt útgjöld.“
Við kirkjuna er aðstöðuhús sem er með þeim stærri á landinu – það var vígt 1993. Nú er verið að undirbúa málningu þess. Þetta hús notar presturinn, sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, meðal annars til að fræða fermingarbörnin í prestakallinu. Hann notar það líka fyrir viðtöl og einstaka sinnum eru þar fámennar skírnar eða fermingarveislur að sögn Mörtu Estherar. Þá eru kaffiveitingar í húsinu eftir messu í boði sóknarnefndar sem og smærri viðburðir. Það er til dæmis alltaf messa kl. 8.00 að morgni páskadags í Hrunakirkju og eftir hana er boðið í kaffi. Aðstöðuhúsið er sömuleiðis nýtt í fjölmennum jarðarförum; hljóði og mynd er varpað þangað yfir. Svo stendur til að setja bundið slitlag við aðstöðuhúsið. Þannig að að það er mikið um að vera hjá þeim Hrunamönnum.
Kirkjan.is hefur það á orði að bændur hafi verið í rolluragi þennan dag þegar hún var á ferð. „Já, séra Óskar var að vigta féð,“ segir Marta Esther, „það var smalað um síðustu helgi.“ Vonandi hefur klerkur fengið væna dilka af fjalli enda sérlegur áhugamaður um ræktun.
Marta Esther Hjaltadóttir, kúabóndi og sóknarnefndarformaður, er öflug kirkjukona og áhugasöm. Hún er ein þeim fjölmörgu sem stendur við bakið á kirkjunni sinni. Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.
hsh
Lyklaboxið snjalla er á vinstri dyrastaf
Nettur er kirkjulykillinn sem kemur í ljós út úr lyklaboxinu
Aðstöðuhúsið - safnaðarheimilið - viðhaldsvinna í gangi
Hrunakirkja er myndarlegt guðshús og stílhreint
Altaristaflan er dönsk, máluð 1855 af Claus Christian Tilly og kom í kirkjuna ári síðar
Söngtafla - önnur af tveimur, frá 1866