Hvað er Eide-messa?
Kirkjan.is rak augun í að Keflavíkurkirkja auglýsti Eide-messu nú á sunnudaginn 26. september kl. 20.00 og spurði sóknarprestinn, sr. Erlu Guðmundsdóttur, hvað það væri.
„Sindre Eide er norskur prestur og sálmahöfundur,“ segir hún, „og hefur skrifað fjölda sálma og ekki síður kynnt trúarlega tónlist framandi þjóða.“ Hún segir að hann hafi aðlagað textana og lögin að lúthersku helgihaldi. „Sr. Kristján Valur Ingólfsson hefur þýtt flesta textana á íslensku við lögin,“ segir sr. Erla en það hafi verið Arnór Vilbergsson, organisti þeirra, sem kynnti þessa sálma fyrir kórnum fyrir mörgum árum. Kórinn féll fyrir þeim og fór að kalla guðsþjónusturnar með sálmum hans Eide-messu.
„Við erum að öllu jöfnu með eina guðsþjónustu af þessu tagi þar sem við syngjum bara sálma eftir Eide,“ segir sr. Erla og bætir því við að stundum séu þessir sálmar sungnir í almennum guðsþjónustum.
Sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholti, hefur þýtt flesta sálmana sem um ræðir og bað kirkjan.is hann um að segja fáein orð um þá og Sindre Eide sem hann gerði fúslega:
Sem sagt: Eide-messa á sunnudaginn í Keflavíkurkirkju kl. 20.00. Þessir sálmar verða sungnir: nr. 876 Heyr það nú, nr. 835 Heyr þann boðskap, nr. 856 Af því hann kom, nr. 880 Kom lát oss syngja söng og nr. 895 Þér friður á jörðu.
Félagar úr Kór Keflavíkurkirkju syngja undir stjórn Arnórs Vilberssonar, organista. Helga Jakobsdóttir og Þórey Eyþórsdóttir eru messuþjónar. Sr. Erla Guðmundsdóttir þjónar.
hsh