Fjör á hausthátíð
Barnastarf kirknanna er víðast hvar farið af stað. Það er eitt mikilvægasta starfið í söfnuðum landsins sem leggja verður rækt og alúð við.
Það var ánægjulegt að sjá hve margt fólk streymdi í Breiðholtskirkju í gærmorgun í vindstrekkingi og kaldri rigningu til helgistundar.
Sóknirnar tvær í Breiðholtsprestakalli, Fella- og Hólasókn og Breiðholtssókn, hefja hauststarf sitt með því að blása til sameiginlegrar hausthátíðar sunnudagaskólans í takt við haustvindana. Hún hefst með helgistund og að henni lokinni er skemmtileg samvera. Þá er vetrarstarfið kynnt en það er mjög fjölbreytilegt.
Það tók hressilega í fánann á stönginni fyrir framan kirkjuna og húfan fauk af tíðindamanni kirkjunnar.is við kirkjudyr en hún var gripin á lofti enda eðalhúfa sem sárt hefði verið að fyki út í buskann. Foreldrar leiddu smábörn sér við hönd og sum fermingarbarnanna miðað við veður lítt klædd að hætti unglinga, settu höfuð undir sig mót vindstrengnum og þungri rigningunni. Ánægjulegt að sjá hve margir komu gangandi til kirkju – en meirihlutinn var þó greinilega kominn á bílum sínum.
Móttökurnar voru hlýjar í forkirkjunni og þar tók Steinunn Þorbergsdóttir, djákni, á móti fókinu. Klappaði yngri börnunum á kollinn og vísaði þeim inn í kirkjuna. Svo var sr. Magnús Björn Björnsson, prestur, á staðnum, hress að vanda og bauð alla velkomna með brosi á vör. Þau stjórnuðu helgistundinni ásamt sr. Pétri Ragnhildarsyni, Dagnýju Guðmundsdóttur sem lék á gítar og Örnu Ingólfsdóttur .
Helgistundin í kirkjunni var hátíðleg og gekk vel fyrir sig. Tekið var vel undir sönginn og fjörugir hreyfisöngvarnir hittu beint í mark. Gott að heyra sungið Ó, Jesús bróðir besti og Leiddu mína litlu hendi, en sumir telja að hefðbundnir barnasálmar eigi undir högg að sækja gagnvart hressilegum hreyfisöngvum.
Sr. Magnús Björn sagði biblíusögu sem náði vel til áheyrenda. Miskunnarbæn sungin, farið með postullega trúarjátningu, Faðir vorið og svo lásu allir saman hina drottinlegu blessun í lokin.
Í safnaðarheimilinu niðri var líf og fjör eftir guðsþjónustuna í kirkjunni. Börn sökktu sér ofan í föndur og liti með aðstoð fullorðna fólksins – síðan voru grillaðar pylsur í boði. Tveir fermingarpiltar skenktu pylsurnar í brauðin en eiginmaður Steinunnar djákna stóð við grillið. Það var glatt á hjalla og fólk spjallaði saman.
Kirkjan.is ræddi við Vigdísi V. Pálsdóttur, formann sóknarnefndar, sem var afskaplega ánægð með hve helgistundin var vel sótt. Hún var líka í sjöunda himni með að Breiðholtssókn væri orðin græn kirkja. Sagði að þegar viðgerðir kirkjunnar stóðu yfir hafi helgihaldið farið fram á neðri hæðinni og það hafi verið allt mjög umhverfisvænt.
Þá ræddi kirkjan.is við prestana í Breiðholtssókn og Fellla- og Hólasókn, sr. Magnús Björn Björnssonsr, sr. Jón Ómar Gunnarsson og sr. Guðmund Karl Ágústsson - hann er sóknarprestur í Breiðholtsprestakalli, og æskulýðsprestinn, sr. Pétur Ragnhildarson. Það var gott í þeim hljóðið og létt yfir þeim. Fastur liður er að spyrja um fermingarstörfin á þessum árstíma og sögðu þeir fermingarbörnin vera nú rúmlega fimmtíu – nokkuð fleiri en í fyrra. Fermingarfræðslan fer fram í Breiðholtskirkju og er í umsjón þeirra sr. Jóns Ómars og sr. Pétur.
Samstarfið mili sóknanna tveggja er til mikillar fyrirmyndar.
hsh
Þessi mynd var tekin fyrir nokkru þegar Breiðholtskirkja komst í hóp grænna kirkna. Frá vinstri sr. Halldór Reynisson, frá umhverfisnefnd þjóðkirkjunnar, Valgerður Guðmundsdóttir, Vigdís V. Pálsdóttir, formaður sóknarnefndar, og sr. Magnús Björn Björnsson, prestur í Breiðsholtssókn
Margar hendur fengust við föndrið
Haustlitir í föndrinu eins og vera ber á þessum tíma
Helgistundin var vel sótt
■Frumskylda kirkjusóknar er helgihald, kærleiksþjónusta og fræðsla sem nærir og eflir trú sem starfar í kærleika.
Til þess er haldið uppi:
• reglubundnum guðsþjónustum og séð til þess að sóknarbörn eigi aðgang að sálgæslu í samtali, prédikun, sakramenti og fyrirbæn,
• reglubundnu fræðslustarfi um kristna trú og sið, og stuðningi við trúaruppeldi heimilanna með barnastarfi, fermingarfræðslu og æskulýðsstarfi,
• kærleiksþjónustu á vettvangi sóknarinnar og með aðild að hjálparstarfi og kristniboði kirkjunnar.
Þar sem ekki er unnt að halda uppi reglubundinni þjónustu, svo sem vegna fámennis, geta sóknir í sama prestakalli, eða á sama samstarfssvæði, sameinast um ofangreinda meginþætti safnaðarstarfs.