Blanda af leik og gleði

8. október 2021

Blanda af leik og gleði

Fermingarbörn íslensku safnaðanna í Danmörku og Svíþjóð á mótsstað, Åh stiftsgård, norðan við Gautaborg

Það er fastur liður í fermingarfræðslu margra safnaða að fara með fermingarbörnin á staði þar sem kristilegar sumarbúðir eru reknar. Við könnumst öll við sumarbúðastaðina Vatnaskóg, Hólavatn, Vestmannsvatn og Eiðavatn. Augljóst af þeim að vatn er nauðsynlegt þar sem hafa á sumarbúðir og halda alls konar mót fyrir börn og ungmenni.

Fermingarbörnin kunna vel að meta fermingarferðalagið og samveran þjappar hópnum saman.

En fermingarbörn íslensku safnaðanna í Danmörku og Svíþjóð fara líka í fermingarferðalög. Þau eru svipuð og ferðirnar hér heima nema oft er um lengri veg að fara.

„Við fórum í tæplega fjögurra tíma lestaferðalag til Gautaborgar þar sem sr. Ágúst Einarsson, prestur Íslendinga í Svíþjóð, tók brosandi á móti okkur,“ segir sr. Sigfús Kristjánsson, sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn. Hann segir að fermingarbarnahópurinn hafi verið ögn feiminn til að byrja með en feimnin hafi runnið fljótt af hópnum sem í þetta sinn er aðeins skipaður stúlkum. Fjögurra tíma lestaferð er nefnilega ágætis hrærivél til að koma hópnum saman.

Síðan var haldið í rútu frá Gautaborg með íslensku fermingarbörnunum í Svíþjóð og ekið í eina klukkustund, 70 km norður fyrir Gautaborg. Það efldi mannskapinn enn meira.

„Við komum á fallegan sumarbúðastað, Åh stiftgård  sem stendur auðvitað við sjóinn, og þar tók á móti okkur hópur ungleiðtoga á aldrinum 16-18 ára sem hjálpaði til við að stjórna mótinu,“ segir sr. Sigfús. .

Og hvað er nú gert á svona móti?

„Mótið er blanda af leik og gleði,“ segir sr. Sigfús, „fræðslu, frjálsum tíma, spilatíma, kvöldvökum og alls konar skemmtilegri dagskrá.“

Á staðnum er falleg kirkja þar sem farið var kvölds og morgna í helgistund sem prestarnir sr. Ágúst og sr. Sigfús skiptust á að leiða ásamt sjálfboðaliðum úr safnaðarstarfinu í Svíþjóð og Danmörku.

Sr. Sigfús segir að ungleiðtogarnir hafi staðið sig einstaklega vel og söfnuðirnir séu heppnir að geta leitað til þessa hóps fullorðinna sjálfboðaliða sem búa yfir reynslu og þekkingu auk þess sem þeir sinna starfi sínum af trúmennsku og gleði.

Segja mætti að ungleiðtogarnir hafi slegið í gegn sem fyrirmyndir því að efst í huga einnar stúlkunnar í lok mótsins var spurning sem brann á henni: „Hvernig get ég orðið ungleiðtogi?“ Og hún var ekki sú eina í hópi íslensku fermingarbarnnanna sem velti þessu fyrir sér eftir mótið.

Þau voru fimm fermingarbörnin frá íslenska söfnuðinum í Danmörku en fjórtán frá Svíþjóð. Í vorferðinni er búist við að íslensku fermingarbörnin í Noregi sláist í hópinn auk sextán fermingarbarna frá því í fyrra úr íslenska söfnuðinum í Danmörku en vegna kórónuveirunnar var mótið blásið af í það sinn.

Fermingarferðalögin íslenska safnaðarins í Danmörku eru tvö: helgarferð að hausti og önnur að vori. Eftir ferðina er fullorðna safnaðarfólkið þakklátt fyrir að hafa fengið að kynnast þessum fermingarbarnahópi og fyrir frábæra hjálp ungleiðtoganna. „Það eru forréttindi að eiga samfélag með hópnum frá Svíþjóð, sr. Ágúst Einarsson og hans fólk,“ segir sr. Sigfús. „Þau búa yfir mikilli reynslu af þessu fermingarbarnastarfi og hafa þróað það í meira en áratug.“ Sr. Sigfús segist að íslenski söfnuðurinn sé mjög ánægður með þetta samstarf við sr. Ágúst Einarsson.

„Og við erum strax farin að hlakka til vorferðarinnar,“ segir sr. Sigfús í lokin.

hsh




Fermingarbörnin fóru kvölds og morgna í kirkjuna 



























  • Frétt

  • Menning

  • Námskeið

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Fræðsla

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls