Bleik Bústaðakirkja
Lifandi kirkja hefur fingurinn á púlsi samfélagins til að geta komið erindi sínu á framfæri til ólíkra hópa sem búa við margs konar aðstæður um leið og hún styður við bakið á þeim með myndarlegum hætti.
Októbermánuður er mánuður Bleiku slaufunnar. Þá stendur Krabbameinsfélagið fyrir fjáröflunar- og árvekniátaki til að berjast gegn krabbameini hjá konum.
Kjarni málsins er að vera til staðar og standa við bakið á konum þegar þær greinast með krabbamein og tilveran breytist í einu vetfangi.
Þess vegna efnir Bústaðakirkja til listamánaðar undir yfirskriftinni Bleikur október.
Dagskráin tekur mið af þessu góða málefni sem kirkjan vill styðja og standa með þeim er horfast skyndilega í augu við breyttan veruleika.
Messurnar eru með öðru sniði í október og hádegistónleikar verða á miðvikudögum kl. 12.05.
Dagskrá hádegistónleikanna er fjölbreytt og skemmtileg þar sem Jónas Þórir og ýmsir listamenn töfra fram fagra tóna af alkunnri snilld. Aðgangur er ókeypis, en á tónleikunum gefst gestum færi á að leggja Ljósinu sérstaklega lið.
Miðvikudaginn 13. október kl. 12.05 munu Sigrún Hjálmtýsdóttir (Diddú) og Örn Árnason rifja upp gömlu góðu lögin frá stríðsárunum. Jónas Þórir leikur með á flygilinn. Dagskrána í heild á Bleikum október í Bústaðakirkju má finna hér.
Á sunnudaginn verður Bolvíkingamessa í Bústaðakirkju kl. 13.00. Sóknarpresturinn í Bolungarvík, sr. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir, mun þjóna ásamt hinum nýja sóknarpresti í Fossvogsprestakalli, sr. Þorvaldi Víðissyni.
Einsöngvarar úr Kammerkór Bústaðakirkju munu syngja, ásamt jasstríói, þar sem Björn Thoroddsen leikur á gítar, Gunnar Kv. Hrafnsson á bassa og Jónas Þórir á píanó.
Gestir frá Bolungarvík taka þátt í messunni og m.a. verður flutt lag og ljóð Benedikts Sigurðssonar „Bolungarvík.“
Sem sé. Bústaðakirkja fer á fullri ferð inn í vetrarstarfið með svipuðu sniði og fyrir tíma kórónuveirunnar. Allt er á uppleið.
hsh