Góð markmið
Mikilvægt er að fólk hafi eitthvað fyrir stafni og einkum ef ekkert sérstakt fyllir upp tímann hjá því.
Þannig er það í fangelsum.
Fangar hafa góðan tíma og þess vegna er eitt og annað í boði fyrir þá innan fangelsanna. Skóli, atvinna, tómstundir og fleira í þeim dúr. Tíminn líður líka hraðar ef fengist er við eitthvað gefandi. Þeir reyna að setja sér góð og skynsamleg markmið sem eru viðráðanleg.
Góðir hlutir gerast hægt, er oft sagt í fangelsum.
Margir fangar eru afar handlagnir og sumir hverjir listrænir.
Í Hólmsheiðarfangelsinu vinna fangar meðal annars við að búa til skálar og krukkur, könnur og kertahlífar fyrir útikerti. Efnið sem er notað er flotsteypa og mótin eru umbúðir utan um hvers kyns mat sem eru endurnýttar með þessum hætti. Síðan skreyta þeir munina að utan. Fangarnir sauma líka barnaföt og innkaupapoka, fjölnota. Slæður, svuntur og margt fleira. Þá vinna margir fangar við þrif og aðstoð innan fangelsanna, til dæmis í verslun fangelsisins.
Kirkjan.is ræddi við einn fanga sem hefur búið til Hallgrímskirkju úr grillpinnum. Þeir skiptu þúsundum pinnarnir sem fóru í kirkjuna. Síðan límdi hann þá nákvæmlega saman á hliðunum, það var mikið vandaverk.
„Ég er trúaður á minn hátt,“ segir hann og langaði til að glíma við þetta verkefni. „Ég er heppinn að hafa gott sjónminni og man hlutföll og þess háttar.“ Hallgrímskirkjan úr grillpinnunum vakti nokkra athygli og hann er tilbúinn til að hafa hana til sýnis í Hallgrímskirkju ef farið yrði fram á það.
Líkanið af Hallgrímskirkju er 115 sm á hæð, 102 sm á breidd og 115 sm á lengd. Mótið var handgert úr pappa og svo klætt með grillpinnum. Í verkið fóru alls 9300 grillpinnar, þrír mánuðir af vinnu og gríðalegt magn af þolinmæði. Einu verkfærin sem komu við sögu voru sandpappír, naglaklippur og dúkahnífur. Dökkleit áferðin á grillpinnunum fékkst með því að bera á þá olíu og stinga þeim inn í bökunarofn.
„Ég er að hugsa um að búa til líkan af Miðgarðakirkju í Grímsey eins og hún leit út fyrir brunann,“ segir hann en málin af henni hafi hann nú ekki undir höndum eins og er.
Um þessar mundir er hann að búa til líkan af Alþingishúsinu. Hann steypir hliðarnar og málar þær nákvæmlega. „Þakið verður úr grillpinnum,“ segir hann. Kirkjan.is veltir því fyrir sér hvernig hann geti búið til kórónu Kristjáns IX., á Alþingishúsinu en hann segir það muni leysast. Allt leysist á endanum – eins mun hann losna sjálfur úr fangelsinu einn góðan veðurdag.
Svo er andrúmsloftið milli fanganna miklu betra þegar þeir vinna saman, segir fanginn.
Hér má sjá meira af því sem fangarnir fást við.
hsh
Hallgrímskirkja úr grillpinnum - einstakt verk
Líkan af Alþingishúsinu í smíðum, hliðar steyptar en þak gert úr grillpinnum. Gluggakarmar og hurð úr íspinnaprikum
Skreyttir blómapottar
Flottur saumaskapur og faglega staðið að verki
Fallegar skálar til ýmissa nota
Svunturnar sem fangarnir sauma eru mjög vinsælar - merktar FANGAVERK
Útigarður sem fangarnir fara út í þegar þeir taka sér vinnuhlé