Saga af einstakri gjöf
Októbermánuður er helgaður baráttu gegn brjóstakrabbameini. Margar byggingar eru baðaðar bleiku ljósi til að minna á baráttumálið og bleiku slaufuna sem er seld til stuðnings málefninu.
Í Grundarfjarðarkirkju fór fram falleg athöfn fyrir nokkru þegar sóknarprestinum, sr. Aðalsteini Þorvaldssyni var gefin stóla. Fyrir þau sem eru ekki kunn kirkjulegum heitum þá skal útskýrt að stóla er hluti af messuklæðum, um fimm til fimmtán sentimetra breiður borði sem lagður er um háls prests eða djákna og táknar ok Krists. Stólan nær oftast vel niður fyrir hné. Hún er í litum kirkjuársins eða er skreytt með ýmsum táknum.
Sr. Aðalsteinn sagði frá því í guðsþjónustunni hvernig þessi stóla hefði komið til. Stólan er gerð til minningar um tengdamóður sr. Aðalsteins, Kristínu Jóhannesdóttur. Tengdamóðir hans lést úr krabbameini langt um aldur fram. Hann kynntist ekki tengdamóður sinni persónulega en að sjálfsögðu í gegnum konu sína, Línu Hrönn Þorkelsdóttur, mág sinn, tengdaföður og systkini hennar.
Stólan var helguð í bleikri messu í Grundarfjarðarkirkju og er hún hönnuð og saumuð af systur Kristínar, Sigríði Jóhannesdóttur.
Sr. Aðalsteinn sagði frá því í guðsþjónustunni að hann hefði fyrir nokkrum árum beðið Sigríði, eða Diddu, eins og hún er kölluð, um að gera stólu og mætti hún hafa algjörlega frjálsar hendur um gerð hennar.
„Eftir umhugsun þá ákvað Didda að stólan skyldi segja frá draumi sem Stínu systur hennar dreymdi þegar hún var veik. Stína túlkaði draum sinn sem svo að hún fengi lækningu.
En draumurinn var svona:
Stínu dreymdi að hún væri í fjallgöngu með tveimur konum sem hún þekkti. Neðst á stólunni sjást þessar þrjár konur hefja gönguferð sína við fjöruborðið og stígurinn liggur upp á fjallið. Gengið var um dali og skóga sem Stína kannaðist ekki við – og bútasaumskonan Didda myndskreytir stóluna meðal annars með sefgrasi, öndum og einu japönsku hofi - þetta var alltént ekki leiðin upp á Súlur en samt!
Stína verður vör við að eina konu vantar á leiðinni og vissi hún að sú kona væri dáin. Gangan hélt áfram og göngukonurnar, nú tvær, nálguðust fjallstindinn. Stína leit aldrei aftur, nema einu sinni, og var þá orðin ein og Stína vissi að hin konan hefði læknast. Þegar Stína náði upp á tind fjallsins blasti við henni ólýsanlega fögur náttúrusýn sem hún kannaðist ekki við en leið vel og þar með var draumnum lokið.
Stína fékk ekki lækningu á meinum sínum eins og hún túlkaði draum sinn. En þessi draumur sat í Diddu og Línu öll þessi ár af því að í draumnum er von, sterk von og þrá.
Draumurinn er í okkar huga ekki tákn ósigurs gegn krabbameini heldur tákn sigurs og vonar. Stína dó en fékk að líta inn í ríki vonarinnar og sigursins yfir dauðanum í Kristi Jesú.
Hún fékk að líta leyndardóm og fegurð guðsríkisins, hún sá hið hulda. Leyndardóm Guðs sem er leyndardómur á leyndardóm ofan og Didda túlkar svo listavel með því að hafa á baki stólunar tákn heilags anda, dúfuna með daufum útlínum. Við sjáum ekki alltaf allt!“
hsh
Sr. Aðalsteinn með stóluna góðu
Sefgras og jarðarlitir
Fuglar himins og stjörnur
Hér má sjá daufar útlínur dúfunnar, tákns hins heilaga anda, efst á baki stólunnar
Stólan á gínu í kirkjunni - bleikur október minnir á baráttuna gegn brjóstakrabbameini