Falleg stund
Það var ánægjuleg athöfn síðdegis í fyrradag þegar söguskilti við Hallgrímskirkju í Saurbæ var afhjúpað. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, var mætt á staðinn og dró klæði af skiltinu.
Á skiltinu er saga Hallgrímskirkju rakin í stuttu máli, einnig saga sr. Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur. Þessi dagur, 27. október, kallast Hallgrímsmessa, en hann er dánardagur skáldsins sem lést 1674, eða fyrir 347 árum, að Ferstiklu í Hvalfirði.
Fjöldi fólks var viðstaddur athöfnina en veður var fallegt, bjart en allsvalt. Fimm prestar sem voru að störfum í Vatnaskógi og forsvarsmenn KFUMK komu til að fylgjast með athöfninni. Vatnaskógur hefur ætíð haft sterkar taugar til Hallgrímskirkju í Saurbæ.
Þegar búið var að afhjúpa söguskiltið hófst athöfn í kirkjunni. Kór Saurbæjarprestakalls söng sálma eftir sr. Hallgrím og Benedikt Kristjánsson flutti kirkjuljóð eftir Jón Leifs. Sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup, sagði frá því er Hallgrímur kom að Saurbæ.
Á hverju ári koma fjölmargir á þennan merka sögustað, Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, þar sem Passíusálmarnir urðu til og geta nú lesið sitthvað um hann á söguskiltinu sér til ánægju og fróðleiks.
Nánar um sr. Hallgrím Pétursson og Guðríði Símonardóttur.
hsh
Biskup virðir fyrir sér hið myndarlega söguskilti
Þetta var fagur dagur