Falleg stund

29. október 2021

Falleg stund

Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, afhjúpaði söguskiltið að viðstöddu fjölmenni - mynd: Þóra Björg Sigurðardóttir

Það var ánægjuleg athöfn síðdegis í fyrradag þegar söguskilti við Hallgrímskirkju í Saurbæ var afhjúpað. Biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, var mætt á staðinn og dró klæði af skiltinu.

Á skiltinu er saga Hallgrímskirkju rakin í stuttu máli, einnig saga sr. Hallgríms Péturssonar og Guðríðar Símonardóttur. Þessi dagur, 27. október, kallast Hallgrímsmessa, en hann er dánardagur skáldsins sem lést 1674, eða fyrir 347 árum, að Ferstiklu í Hvalfirði.

Fjöldi fólks var viðstaddur athöfnina en veður var fallegt, bjart en allsvalt. Fimm prestar sem voru að störfum í Vatnaskógi og forsvarsmenn KFUMK komu til að fylgjast með athöfninni. Vatnaskógur hefur ætíð haft sterkar taugar til Hallgrímskirkju í Saurbæ.

Þegar búið var að afhjúpa söguskiltið hófst athöfn í kirkjunni. Kór Saurbæjarprestakalls söng sálma eftir sr. Hallgrím og Benedikt Kristjánsson flutti kirkjuljóð eftir Jón Leifs. Sr. Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup, sagði frá því er Hallgrímur kom að Saurbæ.

Söguskiltið er fyrsti liður í verkefninu „Merking sögu og merkisstaða í Hvalfjarðarsveit“. Verkefnið er unnið í samstarfi við Markaðsstofu Vesturlands og byggir á samstarfi þriggja sveitarfélaga við Hvalfjörð sem eru Kjósarhreppur, Hvalfjarðarsveit og Akranes og gengur út á þróun ferðaleiða um Hvalfjörð.

Á hverju ári koma fjölmargir á þennan merka sögustað, Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, þar sem Passíusálmarnir urðu til og geta nú lesið sitthvað um hann á söguskiltinu sér til ánægju og fróðleiks.

Nánar um sr. Hallgrím Pétursson og Guðríði Símonardóttur.

hsh


Biskup virðir fyrir sér hið myndarlega söguskilti


Þetta var fagur dagur

  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Biskup

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls