Varðskip blessað

9. nóvember 2021

Varðskip blessað

Freyja, varðskipið nýja - mynd: Sigurður Ægisson

Sr. Sigurður Ægisson, sóknarprestur Siglfirðinga, blessaði þann 6. nóvember s.l. hið nýja varðskip Íslendinga, Freyju, sem lagði að Hafnarbryggjunni þar í bæ. Það var forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Kr. Lárusson, sem fól honum þetta verkefni en skip eru gjarnan blessuð og fyrir þeim og áhöfn þeirra beðið.

Athöfnin var hin virðulegasta enda þótt gengi á með slagveðursrigningu og blessaði sr. Sigurður varðskipið eftir að forseti Íslands, dómsmálaráðherra og bæjarstjóri Fjallabyggðar höfðu flutt ávörp sín. Þetta nýja varðskip Íslendinga, Freyja, mun koma til með að eiga sér heimahöfn á Siglufirði.

Sr. Sigurði fórust meðal annars svo orð:

Siglufjörður hefur verið þekktur fyrir ýmislegt í gegnum aldirnar. Flest tengist það hafinu og þar á meðal er heiti fjarðarins. Og eins er með Siglunes, hér fyrir utan, landnámsjörð Þormóðs ramma.

Tvö af elstu táknum kristindómsins eru aukinheldur annars vegar fiskurinn og hins vegar skipið. Og þetta er einnig ástæðan fyrir því, að líkan af seglskútu hangir uppi í Siglufjarðarkirkju.

Fleyið táknar alheimskirkjuna, sem er hið trausta far okkar á siglingu um mislyndan veraldarsjóinn, til ákvörðunarstaðarins á himnum.

Og til að undirstrika þetta, tengslin við fortíðina í Austurlöndum nær, og þann veruleika sem menn við nyrsta haf upplifðu hér í þúsund ár, oft í óblíðum faðmlögum við náttúruna í öllu sínu veldi, var núverandi altaristafla þar gefin Siglufjarðarkirkju, hin yfirmáta sterka mynd Gunnlaugs Blöndal, þar sem Jesús gengur á úfnu vatninu eða öllu heldur sjónum, segjandi: „Þetta er ég, óttist ekki.“

Síðan vék sr. Sigurði að þeim manni sem kunnur var undir heitinu Gústi guðsmaður (Guðmundur Ágúst Gíslason) og bjó lengi á Siglufirði en var fæddur í Dýrafriði, en ólst upp í Hnífsdal og á Ísafirði. Sr. Sigurður þekkir sögu hans manna besta enda ritaði hann ævisögu hans sem kom út fyrir þremur árum.

En gefum prestinum aftur orðið:

Ég á Biblíu sem var í eigu hans og sem mér var gefin fyrir 20 árum, þegar ég hóf að viða að mér efni um sögu hans. …mig langar að afhenda þessa vægast sagt mikið notuðu og snjáðu bók þessu skipi til eignar, og fer þess á leit að hún verði varðveitt hér um borð í tilhlýðilegri hirslu. Hún er með eiginhandaráritun alþýðuhetjunnar, fiskimannsins og kristniboðans sem átti hana upphaflega.

Síðan sagði sr. Sigurður frá því að önnur Biblía sem hefði verið í eigu Gústa guðsmanns væri í björgunarskipi þeirra Siglfirðinga, sem heitir eftir báti Gústa guðsmanns, Sigurvin. Björgunarskipið fylgdi einmitt nýja varðskipinu inn fjörðinn þennan laugardag þegar það var blessað.

Sr. Sigurður sagði frá því að Gústi guðsmaður hefði haft þann hátt á að gauka að fólki á förnum vegi miðum sem hann hafði skrifað ritningarvers á. Miðarnir voru af ýmsu tagi og oft litlir brúnir bréfpokar eða bréfsnifsi af hinu og þessu sem nærtækust voru hverju sinni. Þetta hafi verið ein af aðferðum hans til að boða fagnaðarerindið. Inni í Biblíunni sem varðskipið Freyja fékk að gjöf var miði sem á stendur:

„Guð er oss hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum. Fyrir því hræðumst vér eigi.“ (Úr 46. Davíðssálmi, vers 2-3).

hsh



Biblían sem sr. Sigurður nefndi í ávarpi sínu  - miðinn sem getið er um sést vinstra megin


Þetta er Biblía Gústa guðsmanns og gefin var varðskipinu Freyju









  • Menning

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls