Fólkið í kirkjunni: Hógvær kona í Breiðholti
Hún ólst upp í Sandvíkurhreppi í Flóa. Fæðist þar í Ásakoti árið 1938 og þau systkinin eru fimm. Í huga hennar eru sumar minningar tengdar stríðinu en flugvélar fóru oft yfir Ölfusána með miklum gný og þá varð litla stúlkan hrædd og hljóp heim eins og fætur toguðu. Það var flugvöllur í Kaldaðarnesi í Flóa. Móðir þeirra systkina deyr rétt eftir stríðið þegar hún er sex ára og börnunum er komið fyrir hjá vandalausum. En þau vissu þó nokkuð vel hvert af öðru og kynntust svo aftur þegar þau voru öll komin af barnsaldri. Hún fer á bæ í hreppnum sem heitir Smjördalir og þar var gott fólk. Sóknarpresturinn á Selfossi, sr. Sigurður Pálsson, nettur og hægur maður, húsvitjar og prófar börnin í lestri og kunnáttu í kristnum fræðum. Hún stendur sig vel og finnst presturinn vera hinn þægilegasti maður þó ögn sé hann forn í augum barnsins.
Og æskan leið hratt í Smjördölum. Skólabíllinn fór með börnin á Selfoss. Ef einhverjir aukatímar voru eftir skólann eins og leikfimi eða handavinna, urðu börnin sjálf að sjá um að koma sér heim. Þá var eina leiðin að ganga heim. Það tók tæpan klukkutíma – og stundum lengur ef tíð var rysjótt og veður illt.
Hún var jólabarn – já, jólin töluðu sérstaklega til hennar. Gjafir þess tíma voru nytsamlegar, föt og bækur. Hún las allar stúlknabækur sem hún komst yfir.
Síðan komu fleiri börn. Þau urðu fjögur. Unga fólkið var alið upp við hagsýni og vinnusemi. Íslenskt alþýðufólk að koma undir sig fótunum á sjötta áratug síðustu aldar. Þau tóku aldrei lán. Fikruðu sig upp úr minni íbúð upp í stærri. Hann fór að læra bílamálun og tekjurnar urðu betri en áður. Eignuðust fyrstu íbúðina í Samtúni og var hún 36 fermetrar – og börnin þá orðin þrjú. Þau bjuggu svo í efra Breiðholti, í Vörðufellinu og fluttu svo á Maríubakka í Breiðholti.
Þetta er leifturmynd úr lífshlaupi Valgerðar Guðmundsdóttur og Reynis Ástvalds Jakobssonar. Hann lést árið 2007.
Margt fólk af þessari kynslóð kannast við höfuðdrætti þessarar sögu. Og líka framhaldið.
Valgerður gekk í Kvenfélag Breiðholts 1986. Það hafði fundaraðstöðu undir stiganum í Breiðholtskirkju. Þar komu konurnar saman til skrafs og ráðagerða – og síðast en ekki síst til að láta hendur standa fram úr ermum í hannyrðum. Þær héldu basara, seldu það sem þær höfðu prjónað, heklað og saumað – og bakað. Markmið þeirra var að safna fyrir eldhúsi í kirkjuna. Og það tókst með samstilltu átaki þeirra. Kvennanna.
Valgerður var ein af þeim. Hógvær og prúð.
Hún tók sæti í sóknarnefnd og það var dýrmæt reynsla fyrir hana og ekki síst aðra að kynnast hjartahlýrri hugsjónakonu. Tekur þátt í starfi kirkjunnar sem messuþjónn og sækir þar fundi og ýmsar kristilegar stundir. Sér ásamt öðrum konum um kaffi og veitingar í kirkjukaffinu.
Valgerður Guðmundsdóttir, kirkjukona og sjálfboðaliði í Breiðholtskirkju, er hugsjónamanneskja sem lifað hefur tímana tvenna, og er ein af þeim fjölmörgu úr djúpi þjóðar og kristni sem stendur við bakið á kirkjunni sinni.
Kirkjan er söfnuðurinn. Fólkið.
hsh