Ráðstefnan heppnaðist vel

22. nóvember 2021

Ráðstefnan heppnaðist vel

Að sjálfsögðu var tekin mynd af hópnum í Skálholti

Dagana 1. - 4. nóvember var haldin norræn litúrgísk ráðstefna í Skálholti. Hún er haldin árlega og skiptast löndin á að hafa umsjón með henni. Þessi ráðstefna átti að vera í fyrra hér á landi en var felld niður vegna kórónuveirufaraldursins.

Ráðstefnan var sett með pompi og pragt í Hallgrímskirkju. Vönduð tónlistardagskrá var í boði og flutti biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, ávarp.

Ráðstefnan fór fram í Skálholti og var dagskráin viðamikil.

Yfirskrift ráðstefnunnar var Litúrgía norðursins – á líðandi stund og í framtíðinni.

Þátttakendur voru hátt í fimmtíu og langflestir voru erlendir.

Fyrirlestrar voru af ýmsum toga og fyrir hönd Íslands fluttu þær dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor, og dr. Sigríður Guðmarsdóttir, lektor, fyrirlestra. Dr. Marion Grau, frá Noregi, flutti og fyrirlestur. Auk þess voru tvö styttri innlegg og annað þeirra var í höndum Árna Heimis Ingólfssonar, tónlistarfræðings og hitt var í umsjón Péturs G. Markan, biskupsritara.

Það var Margrét Bóasdóttir, söngmálastjóri þjóðkirkjunnar, sem hélt um alla þræði þessarar ráðstefnu.

„Þátttakendur voru sérlega snortnir af efnistökum fyrirlesaranna,“ segir Margrét þegar hún er spurð út í ráðstefnuna, „og er óhætt að segja að aðalfyrirlestrarnir þrír hafi verið áhrifamiklir og eftirminnilegir.“

Auk fyrirlestra og umræðna var starfað í þremur minni umræðuhópum um mismunandi efnistök lítúrgíu og annarra greina guðfræði og kirkjutónlistar.

En fólk sat ekki alla dagana og hlýddi á fyrirlestra og erindi.

„Lifandi lítúrgía var einnig iðkuð,“ segir Margrét, „auk morgunbæna sem löndin skiptust á um að undirbúa, var farið í gróðurhús Friðheima og þar var fræðsla um ræktun þeirra og sjálfbærni og hin óviðjafnanlega tómatsúpa tekin til kostanna.“

Engir koma til Íslands nema þeir fari um Þingvöll. Ráðstefnugestir stormuðu þangað og þar flutti sr. Elínborg Sturludóttir fyrirlestur um pílagrímagöngur og sögu Þingvalla. Að lokinni göngu um vellina var stutt bænagjörð höfð um hönd á Lögbergi. Síðan var gengið í þögn til kirkju þar sem Kristján Valur Ingólfsson, fyrrum vígslubiskup í Skálholti, og sr. Elínborg höfðu um hönd stutta altarisgönguathöfn. „Viðstaddir sungu Fögur er foldin á fimm tungumálum og svo spreyttu þeir sig á Gefðu að móðurmálið mitt,“ segir Margrét fjallhress.

Margrét kvað veðrið hafa leikið við ráðstefnufólkið. „Sólarupprás í Skálholti í töfralitum, jólasnjór á Þingvöllum og norðurljósadýrð fyrir þá sem vöktu frameftir,“ segir Margrét, „er hægt að hafa það betra?“

Hún segir að allir hafi lokið upp einum rómi um ágæti Skálholts sem ráðstefnustaðar. Aðbúnaður allur og matseld hafi verið til mikilla fyrirmyndar.

Söngmálastjóri þjóðkirkjunnar var formaður verkefnisins þetta árið og hafði veg og vanda af skipulagningu, en samnorræn stjórn ákveður efnistök. Næsta ár verður ráðstefnan í Finnlandi á sama tíma ársins. Allir höfðu við orð að hittast þar, því að á ráðstefnum sem þessum myndast vinátta og sterkt tengslanet í mikilvægum greinum fræðanna.

Hvað er lítúrgía?

„Lítúrgía birtist í orði og hátterni sem vitnisburður og sem þjónn hinn helgu leyndardóma Guðs. Lítúrgían er tilbeiðsla, sem gerir Guð dýrlegan. Hún stuðlar að helgun mannsins, að hann færi Guði líf sitt í þjónustu við hann og náungann. Hún er skóli trúarinnar í auðmýkt fyrir Guði. Hún er einnig megin vörn trúarinnar gegn efnishyggju og óvinveittri heimshyggju.“ (Hátterni í kirkjusiðum, dr. Arngrímur Jónsson, Reykjavík, 1995 bls. 13).

„Viðfangsefni litúrgíunnar eru annars vegar Kristur, sem er sá sem helgar og blessar hinn trúaða með orðum og sakramentum, og hins vegar kirkjan sem svarar með þakklæti og lofsöng.“ Kirkjan játar, Einar Sigurbjörnsson, Reykjavík 1991, bls. 95).

„Helgisiðalistin, litúrgía kaþólskunnar, reyndist guðdómleg listgrein sem ég þreyttist ekki á að kanna.“ Dagar hjá múnkum, Halldór Laxness, Reykjavík 1992, bls. 47).


mb/hsh

 


Dr. Sigríður Guðmarsdóttir í ræðustól á ráðstefnunni

 


Sr. Kristján Valur Ingólfsson og sr. Elínborg Sturludóttir í Þingvallakirkju



  • Heimsókn

  • List og kirkja

  • Menning

  • Ráðstefna

  • Samfélag

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls