Erlend frétt: List og kirkja
Fyrir nokkru var tekin skóflustunga að Hvinningsdalskirkju í Ballesókn í Silkeborg í Danmörku. Kirkjan mun standa á dálítilli hæð og kemur til með að sjást víða að. Hún verður steypt og sömuleiðis munu ljósgulir múrsteinar prýða hana. Öll verður hún ljós yfirlitum og í kirkjuskipinu verða engin myndverk, listaverk. Aðeins krossmark fellt inn í múrinn yfir altarinu; einfaldur prédikunarstóll og skírnarfontur.
Kirkjan í Hvinningsdal verður því nokkuð óvenjuleg enda þótt sums staðar megi finna kirkjur með fáum listaverkum.
Löngum hafa nú listaverk prýtt kirkjur. Og sumar hverjar bókstaflega verið hlaðnar listaverkum. Auk þess sem listaverkin, og þá myndir og steindir gluggar, voru sett upp meðvitað fyrr á öldum til að segja sögur Biblíunnar með myndrænum hætti enda ekki allir læsir. Nú er öldin önnur. Eða hvað?
Sóknarnefndin danska í Ballesókn lítur á kirkjuhúsið sjálft sem sjálfstætt listaverk og fólk eigi að njóta þess. Engu að síður hafði sóknarnefndin velt því mikið fyrir sér að fá einhvers konar listaverk inn í kirkjuskipið en niðurstaðan varð þessi. Fólk var á einu máli um að kaupa ekki listaverk til að setja inn í kirkjuna enda þótt sóknin hefði getað safnað fyrir því.
Hvinningsdalskirkja verður vígð að öllu óbreyttu á hvítasunnudag á næsta ári. Kirkjurýmið er rúmgott, hæst til lofts eru tuttugu metrar. Svo eru svalir sem kirkjugestir geta stigið út á og virt fyrir sér hið fagra umhverfi.
„Það var einkum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar að arkitektar nýrra kirkna brugðu fæti fyrir að listamenn gætu komið þar sínum verkum,“ segir Benny Grey Shuster, sem er lektor við Fræðslusetur dönsku þjóðkirkjunnar. Arkitektarnir hafi litið á sig sem listamenn og kærðu sig ekki um að aðrir kæmu með sín verk inn í þeirra eigin listaverk. Hvernig fóru þeir að því? „Veggir voru oft sveigðir út og suður og með alls konar útúrdúrum svo ekki var nokkur leið að hengja eitt né neitt upp á kirkjuveggina,“ segir Benny „og iðulega skutu þeir sjálfir inn lágmyndum sem skrauti og því var ekki talið nauðsyn á að kalla inn aðra listamenn.“
Margir söfnuðir hafa byrjað strax á því að safna í listasjóði um leið og ákveðið er að reisa kirkju. Stundum líða áratugir þar til sjóður er orðinn það öflugur að hægt sé að kaupa listaverk.
Benny segir að listamenn komi líka strax að málum þegar til stendur að reisa kirkju. Þá reyni menn að tengja saman arkitektúr og listina í kirkjunni. Það hafi oft gefist vel. Dæmi um það sé Trekroner Kirke í Himmelevsókn við Hróarskeldu – sú kirkja var vígð 2019. Einnig nefnir hann sjúkrahúskapelluna í Gødtrup sem sé prýdd höggmyndum eftir Laila Westergaard.
En sóknarnefndarformaðurinn í Ballesókn er brattur og telur að enginn muni sakna listaverka í kirkjunni en bætir þó við: „Sú ósk getur náttúrlega komið upp eftir fimm, tíu eða fimmtíu ár – og það er hið besta mál – þau sem þá stýra málum taka ákvörðun um það.“
Hvinningsdalskirkja verður þó ekki alveg laus við list fyrir utan að vera listaverk í sjálfu sér að áliti margra. Sóknarnefndarformaðurinn upplýsir að í forkirkjunni verði jafnan myndlistarsýning á verkum barna.
Þess má geta að Benny Grey Shuster hefur stofnað tvær heimasíður um list og kirkju: Kirkjuarkitektúr og Nútímakirkjulist. Hann vinnur sem áður segir hjá Fræðslusetri dönsku þjóðkirkjunnar (Folkekirkens Uddannelses- og Videnscenter).
KristeligtDagblad/hsh