Söguleg athöfn
Á morgun, 28. nóvember, fyrsta sunnudag í aðventu, verður söguleg athöfn í Hallgrímskirkju í Reykjavík kl. 10.00. Þá mun biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir, og Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, undirrita samkomulag Samtaka evangelískra kirkna í Evrópu (CPCE/GEKE). Þessi samtök voru stofnuð 1973.
Kirkjuþing íslensku þjóðkirkjunnar samþykkti 2018 fyrir sitt leyti samþykkt aðildina sem og Prestastefna Íslands. Undirskriftin felur í sér samþykki þjóðkirkjunnar á Leuenberg-samkomulaginu frá 1973 með síðari viðbótum og staðfestingu á umsókn þjóðkirkjunnar um fulla aðild að samtökunum.
Ásamt biskupi og forseta kirkjuþings undirrita samkomulagið fulltrúar Samtaka evangelískra kirkna í Evrópu (CPCE/GEKE), þeir John Bradbury forseti, sem forseti samtakanna, og Mario Fischer, aðalritari samtakanna.
Grundvallarskjal Samtaka evangelískra kirkna í Evrópu (CPCE/GEKE) má lesa hér í íslenskri þýðingu.
Þegar formlegri undirskrift er lokið hefst stundvíslega kl. 11.00 guðsþjónusta í Hallgrímskirkju þar sem biskup Íslands prédikar. Hjálparstarf kirkjunnar verður sérstaklega í brennidepli en margt hvílir á því í aðdraganda jóla eins og fata- og matarúthlutun til bágstaddra.
Mánudaginn 29. nóvember kl. 13.00 verður samkoma á Biskupsstofu, Katrínartúni þar sem John Bradbury og Mario Fischer gera grein fyrir nýjustu verkefnum samtakanna og samtölum innan þeirra sem og við aðrar kirkjudeildir eins og þær sem nú fara fram við rómversk- kaþólsku kirkjuna.
Sennilega hafa flestir einhvern tíma heyrt um sextándu aldar mennina Zwingli, Kalvín og Lúther. Sá síðastnefndi er að sjálfsögðu okkar maður enda kirkja okkar evangelísk-lúthersk. Allir voru þetta mætir menn, Zwingli, Kalvín og Lúther; siðbótarmenn sem báru þó ekki gæfu til að vera samstíga í einu og öllu. En margir fylktu liði með þeim og samþykktu siðbótaráherslur þeirra sem voru í mörgu mjög ólíkar en að öðru leyti líkar. Kirkjudeildir urðu til í kringum áherslur þeirra og þær kenna sig við nöfn þeirra og vinna góð störf.
Það var árið 1973 sem menn urðu á eitt sáttir um sameiginlegt plagg sem dró fram sameiginlegan skilning þessara siðbótarmanna á þessum örmum siðbótarinnar. Samkomulagið er kennt við svissnesku borgina Leuenberg. Og í ljós kom að enda þótt fólk sé ósammála um eitt og annað þá er það kannski sammála um meira en virðist í fyrstu sýn þegar öllu er á botninn hvolft. Með þátttöku er dregist að því jákvæða og því sem sameinar í samskiptum. Slíkt er til heilla gert.
hsh
hsh