Líður vel með skissubókina

3. desember 2021

Líður vel með skissubókina

Sr. Örn Bárður við eina af myndum sínum og heitir hún: Bláu augun þín - akrýlmynd á striga - mynd: hsh

Á morgun verður opnuð sýning á vatnslitamyndum og málverkum eftir sr. Örn Bárð Jónsson, í Gallerí 16, sem er að Vitastíg 16.

Sr. Örn Bárður hefur lengi fengist við myndlist í hjáverkum eftir því sem tími hefur gefist.

„Ég var sextán ára gamall þegar pabbi gaf mér litaspjald,“ segir sr. Örn Bárður þegar kirkjan.is ræddi við hann í gær á Vitastíg 16. „Pabbi málaði aðallega landslagsmyndir og blómamyndir“.

Myndlistarhæfileikar hafa blundað í sr. Erni Bárði en hann segir það aldrei hafa komið til álita að hann legði út á þá braut. Lífið hafði líka tekið aðra stefnu og síðan tók annasamur prestskapur við hér heima og í Noregi.

Eftir að hann lét af prestsskapnum hefur skissubókin verið oftar tekin upp og líka málaratrönurnar.

Sr. Örn Bárður segist alltaf hafa skissubókina með í farteskinu og situr gjarnan með hana í kjöltu sér og virðir fyrir sér mannlífið og dregur það upp í skjótum og lifandi dráttum, fyllir oft inn í með orðum og setningum. „Mér líður vel með skissubókina og hún dregur mig inn í heim listarinnar,“ segir hann og það sé nánast bara eins og íhugun að vera festa mannlífið og umhverfið á pappírinn.

En þessar myndir sem sýnir eru alls 35. Vatnslitamyndir eru í meirihluta og svo eru nokkur málverk frá ýmsum tímum og akrýlverk.

„Þetta er fyrsta sýning mín hér á landi,“ segir sr. Örn Bárður og spurður hvernig á því standi að hann hafi ekki sýnt fyrr er svarið feimni og hógværð listamannsins. „Einhverjum finnst kannski skrítið miðað við að ég er nú opinn og læt nú eitt og annað fjúka,“ segir hann með sínu sposka og hlýja brosi, „en þessi listræna iðja er svo persónuleg og maður spyr sig auðvitað hvort hún sé ekki eins og gönuhlaup inn á vettvang sem aðrir eiga.“ En hann hefur verið hvattur til að sýna og ákvað að slá til og ganga inn á völlinn með bros á vör og þakklátur fyrir þær viðtökur sem hann fær.

Myndefnið er af ýmsum toga. Myndir af húsum og bátum – og nokkrar að vestan, frá heimahögum sr. Arnar Bárðar, Ísafirði, myndir af fjöllum, og mannlífs- og stemningsmyndir úr borgum og fáeinar abstraktmyndir. Þær bera listamanninum fagurt vitni og eru líflegar og litríkar, margar grípandi í einfaldleika sínum og aðrar dulúðar og fullar af ilmandi mýkt.

Sýning sr. Arnar Bárðar er opin frá kl. 13.00 -17.00 og stendur yfir til 8. desember.

Kirkjan.is hvetur öll þau sem geta til að láta ekki þessa góðu og fallegu sýningu fram hjá sér fara.

Listaprestur
Örn Bárður, fyrrverandi sóknarprestur, hefur fengist við að mála frá unglingsaldri en þó með áralöngum hléum vegna anna í starfi. Hann hefur áður málað með olíu og akrýl en á seinni árum einkum glímt við vatnsliti.

Fyrsta opinbera sýning hans var sett upp í Noregi árið 2019 á Dómkirkjuoddanum í Hamri. Örn þjónaði sem prestur í Valdres í Noregi 2014-15 en var sóknarprestur í Neskirkju þar í landi 2015-2019. Nessöfnuður þar gaf út dagatal tvö ár í röð með myndum eftir Örn til að safna fyrir viðgerð á orgeli kirkjunnar en hann lagði þær til án endurgjalds.

Örn hefur tekið þátt í nokkrum námskeiðum, í málun í Myndlistarskóla Garðabæjar hjá Kristínu Blöndal, módelteikningu í Myndlistarskóla Reykjavíkur hjá Þorra Hringssyni og í vatnslitamálun í Frakklandi hjá Alvaro Castagnet frá Úrúgvæ. Einnig hefur hann notið kennslu á Netinu hjá ýmsum erlendum kennurum m.a. Ian Fennelly.

Sjá nánar Örn Bárður.

hsh


Listamaðurinn horfir arnarfránum augum yfir sýninguna


Listamaðurinn og presturinn eru ekki skoðanalausir og hafa margt að segja - alltaf sammála


Nokkrar af vatnslitamyndunum 


Snoturt gallerí og hlýlegt - er á Vitastíg 16

  • Menning

  • Samfélag

  • Viðburður

  • List og kirkja

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls