„Eilífðin er í augnablikum...“
Öll þau sem fást við ljóðagerð eiga mikinn heiður skilið. Kannski mætti segja að ljóðskáld séu hugsjónafólk sem virðir lífið og tilveruna fyrir sér með ljóðrænun áhöldum. Svo gefa þau út bækur sínar – og upplagið er lítið og lesendur sagðir á undanhaldi en þeim hraðar sem undanhald þeirra gengur því fleiri bækur koma frá hugsjónaskáldunum.
Borðið með ljóðabókunum í Eymundsson í Kringlunni var undarlega lítið og út af fyrir sig óljóðrænt. Varla var hægt að taka eina bók upp án þess að fleiri bækur færu af stað. Það urgaði í ljóðaunnandanum og hann renndi augum yfir ábúðarmikil borðin með glæpasögunum sem landinn rífur í sig eins og soltið dýr. Hann spurði um tiltekna bók, jú, mikil ósköp hún var til. Starfsstúlkan kom að litla borðinu og fór fimum höndum um það eins og þrautþjálfaður sirkusstarfsmaður. Er það þessi? Og ljóðaunnandinn svaraði að bragði já, en hvað kápan er falleg. Starfsmaðurinn var á bak og burt enda ekki í starfslýsingu hans að hlusta á hrifnæmi einstaka kaupanda.
Á krossgötum er þriðja ljóðabók Benedikts Jóhannssonar, sálfræðings og fyrrum starfsmanns Fjölskylduþjónustu kirkjunnar. Fyrri tvær bækurnar voru Á sléttunni og Á leiðinni.
Nýjasta ljóðabókin skiptist í þrjá hluta, Í hamsleysi; Í djúpinu og Í ham. Alls eru ljóðin 57 að tölu, sum rímuð og önnur ekki.
Yfirbragð ljóðanna er kyrrt og vinsamlegt, mörg þeirra geyma heilráð til lesenda eða reynsluráð höfundar. Þótt yfirborð ljóðanna sé kyrrt þá er þar með ekki sagt að höfundur láti ekki í ljós skoðanir sínar. Yfirborð kyrrðar og rósemdar er stundum rofið með skarpri gagnrýni eða umvöndun.
Mörg ljóðanna geyma trúarleg stef sem eru í sumum tilvikum fléttuð heimspekilegum vangaveltum um tíma og eilífð. Sum ljóðanna hlaupa alfarið eftir nótnaborði heimspekinnar án þess að trúarleg nóta sé slegin.
Benedikt er íhugull höfundur og nútímalegur hvað það snertir að hafa visst jafnvægi milli einhvers konar guðstrúar og svo skynsamlegrar heimspekilífsstefnu. Skaparinn er sagður vera hið Eina – og það hefur svo sem heyrst áður. En hvort tveggja getur svo staðið alveg sér í ljóði hlið við hlið, þ.e. trúin og svo heimspekin. Það er leið sem margur fer í nútímanum.
Eins og hjá mörgum andlega þenkjandi mönnum þá bankar tíminn upp á með ýmsum hætti. Höfundur tekst á við tímann og eilífðina – hvort tveggja er sígilt viðfangsefni manns og skálds. Hér skulu nefnd tvö dæmi af hendi ljóðskáldsins, knöpp og sterk. Það fyrra heitir Kynni (bls. 24) og hljóðar svo:
torræð sveigist
tímans lína.
Í óminnis hyljum
undirdjúpa
sé ég ásýnd þína
og andlit þitt hverfist
andsælis kringum
einsemd mína.
EIns og svo mörg skáld kýs Benedikt að lýsa tímanum í knöppu og meitluðu formi. Það er vel þegar glímt er við þetta furðurfyrirbæri lifsins, tímann, sem fólk hvílir í út allt lífið, stendur í samningum við hann, tekur tilliti til hans, elskar hann og hatar.
tíminn sífellt
þótt einnig taki óvænt sprang.
Eilífðin er
í augnablikum
þá stundin kær þitt fyllir fang.
Línulaus
liggur eilífð
hornrétt á tímans hamagang.
Svo segir höfundur í ljóði sínu Tími og eilífð (bls. 32).
Benedikt tekst víða ákaflega vel upp í náttúrustemningaljóðum eins og í ljóðinu Á gulum skóm (bls. 32).
úr vetrarskugga,
færði líf og fuglahljóm.
Sólin fer
um Suðurgötu
sem glóhærð dís á gulum skóm.
Hopar ís
við hjartarætur
vex í huga vonarblóm.
Kannski er best að auglýsa strax eftir tónskáldi til að semja lag við þennan fallega og myndræna texta.
Það er gert hér með.
Barnstrúin er sterk þótt menn víða rati. Hún fylgir mönnum út lífið og við hana er glímt á ýmsum skeiðum lífsins. Svo segir Benedikt í ljóði sínu Andinn mikli (bls. 63):
hvar ertu?
Sem viti á vegferð minn
æ vertu.
Handan við orku og efni
er afl þitt.
Í auðmýkt ég yfirstjórn þinni
fel allt mitt.
Frá barnæsku ávallt þig ber ég
við barm minn.
Að lokum í friði svo fer ég
í faðm þinn.
Þetta er sterkt ljóð í einfaldleika sínum sem allir geta tekið undir. Fólk leitar ætíð til upphafsins. Ljóðið felur í sér sterkt trúartraust orðað að hætti nútímans og því öllum skiljanlegt.
En leitin að sjálfum sér getur líka tekið á sig ýmsar myndir – svo í ljóðinu Leit (bls. 62):
og vildi finna innri mann.
Á unaðsströnd, í asa borgar
ekki gat ég fundið hann.
Ég drep um kvöld á dyrnar mínar
og dasaður vill komast inn.
Við ferðalangi blítt ég brosi
og bíð mig loksins velkominn.
Lestur þessarar bókar er nærandi fyrir sál og huga. Mörg ljóðanna kalla á annan lestur og opnast þá með mjúkum og mildum hætti. Eins og í góðri ljóðabók þá blaðar ljóðalesandi fram og aftur og finnur eitthvað nýtt eða rifjar upp. Ljóðabók býr nefnilega yfir þeim töfrum að skilja eftir margt í fangi lesandans sem hann nýtur þess að þrýsta að sér og ilma af.
Góða ljóðabók er hægt að lesa aftur og aftur. Þessi fyllir þann flokk.
Á krossgötum er hógvær og mannbætandi bók með ýmsum vinsamlegum ábendingum og oft með kímnu yfirbragði.
Útgefandi er Bókafélagið, og er hún 64 blaðsíður í harðri kápu.
Kirkjan.is hvetur lesendur sína til að kynna sér þessa bók og verða þeir síður en svo sviknir af þeim kynnum.
hsh