Jólatónleikahald raskast víða
Desembermánuður hefur alltaf verið líflegur og hressandi tími þar sem framboð af tónleikum hefur verið mjög fjölbreytilegt. Sígild tónlist hefur eiginlega einkarétt á þessum mánuði umfram aðra og þá hinn sérstaki söngur sem fer með boðskap aðventu og jóla ásamt léttum og græskulausum jólasveinalögum.
Kirkjan.is hefur eins og aðrir tekið eftir því að tónleikar eru felldir niður eða það liggur óvissa í lofti um tónleikahald. Kórónuveiran er sökudólgurinn en með sóttvarnarreglum yfirvalda er reynt að vernda almenning sem best fyrir henni. Reglurnar trufla allt félags- og kirkjulíf – alla almenna félagsmálastarfsemi.
Margt tónlistarfólk starfar hjá kirkjum ýmist í fullu starfi eða hlutastarfi. Þess vegna hefur kórónuveirufaraldurinn verið tónlistarfólki sérstaklega erfiður og valdið margs konar óvissu. Stundum er tónleikum frestað einn daginn en næsta er frestun blásin af. Þannig að á ýmsu getur gengið. Reynt er að taka tillit til allra þátta og ekki síst til þeirra sem veiran gæti átti greiðari aðgang að en hjá öðrum.
Kirkjan.is hafði samband við fjölda kirkjutónlistarfólks og presta til að spyrja út í tónleikahald á þessum veirutímum.
Svörin voru misjöfn – en öll góð! Mörg þeirra skinu af gleði enda var þá búið að halda aðventutónleika innan allra reglna. Meira að segja búið að syngja fyrir eldri borgarana. En önnur svör báru með sér seiglusvip, svo sem bitið væri í skjaldarrendur en engu síður engin flimtan höfð í frammi því þreytumerki gerðu vart við sig hjá á einum og einum eins og hjá þeim kórum sem voru búnir að æfa stíft í margar vikur en urðu svo að gefa allt frá sér að sinni. Þetta á við um marga kóra, kirkjukórana, barnakórana og unglingakóra. Þessi viðbrögð eru mjög svo skiljanleg í ljósi þeirrar bjartsýni sem ríkti í fyrra um að á þessum jólum yrði sigur unninn á veiruskömminni.
En þó einstaka kórar hafi látið frá sér tónleika þá er furðu víða því haldið til streitu að hvika ekki frá tónleikahaldi í einhverri mynd. Þeir skulu tíundaðir hér lesendum til þæginda og eftir því sem svör gáfu til kynna. Einnig skal bent á heimasíður kirkna og Facebókarsíður sem hafa svo sannarlega sýnt mikilvægi sitt í kirkjustarfi sem gott tengslanet á þessum kórónuveirutíma. Sumum tónleikum verður streymt og áhugasamir hvattir til að fylgjast með því og skoða hið rafræna tengslanet kirkju sinnar. Þá hafa nokkrar kirkjur þegar haldið sína tónleika sem áður sagði, t.d. kór Breiðholtskirkju sem bauð til þeirra á sunnudaginn og fór skráning fram á netinu. Sóknin bauð og heppnaðist allt vel.
Svo setja margar kirkjur jólalög og sálma inn á Facebókarsíður sínar. Ekki gleyma því.
Í sumum kirkjum er tónleikahald sem ekki tengist kirkjustarfsemi. Margar kirkjur hafa afar góðan hljómburð og eru eftirsóttar til tónleikahalds.
Listinn hér fyrir neðan er ekki tæmandi – lesari athugi það. Inn á suma tónleika er ókeypis en aðgöngugjald inn á aðra. Sumstaðar er krafist hraðprófs. Nánari upplýsingar ættu að vera á heimasíðum kirknanna eða Facebókarsíðum þeirra. Hér er slóð ýmist gefin upp á heimasíðu eða Facebókarsíðu.
Austfjarðaprestakall - Kolfreyjustaður: Aðventuhátíð í kirkjunni sunnudaginn 12. desember kl. 20.00. Kórsöngur - sungið fyrir eldri borgara á Uppsölum.
Akraneskirkja: Kór kirkjunnar verður með jólatónleika í Vinaminni 16. desember kl. 20.00 og þar verður krafist hraðprófs. Þá verður Kór Saurbæjarsóknar með tónleika ásamt öðrum kórum 14. desember.
Akureyrarkirkja: Kammerkórinn Hymnodia – tónleikar í kirkjunni 22. desember kl. 21.00.
Blönduóskirkja: Olga Vocal Ensemble syngur jólin inn í kirkjunni, kl. 20.00. Kirkjunni er skipt í þrjú sóttvarnarhólf - grímuskylda. Skagfirski kammerkórinn 17. desember kl. 20.00. Stjórnandi Helga Rós Indriðadóttir og organisti er Rögnvaldur S. Valbergsson. Jólahúnar – 19. desember kl. 16.00.
Dalvíkurkirkja: Jólatónleikar 17. desember í umsjón Kristjönu Arngrímsdóttur - kl. 20.30.
Egilsstaðakirkja: Á Þorláksmessukvöld milli kl. 22.00-23.00 munu Torvald Gjerde organisti og hans gestir að vanda leika og syngja jólasálma og jólalög í Egilsstaðakirkju og geta áheyrendur komið og farið að vild, aðgangur ókeypis. Loks verða jólatónleikar Egilsstaðakirkju haldnir sunnudaginn 2. janúar. Þar koma kirkjukór, barnakór og kammerkór kirkjunnar fram ásamt Kór Vallaness og Þingmúla og einsöngvara. Aðgangur ókeypis og stjórnandi er Torvald Gjerde.
Fella- og Hólakirkja: Kór kirkjunnar verður með tónleika 16. desember kl. 20.00.
Glerárkirkja: Kór Glerárkirkju ásamt Margréti Árnadóttur, verður með tónleika sunnudaginn 12. desember kl. 16.00. Fólk sýni neikvæða niðurstöðu úr hraðprófi.
Grindavíkurkirkja: Miðvikudagskvöldið 15. desember kl. 19.00. Jólatónleikar Kórs Grindavíkurkirkju Einsöngvari er Bragi Árnason. Á efnisskránni eru m.a. Queen, Þrjú á palli og Baggalútur auk jólalaga í útsetningu kórstjórans Kristjáns Hrannars Pálssonar. Tónleikunum verður streymt á Facebook-síðu kirkjunnar. Tæknimaður er Guðjón Sveinsson
Hallgrímskirkja í Reykjavík: Fyrstu tónleikar Kórs Hallgrímskirkju verða 16. desember kl. Hraðprófa krafist. Kórnum stjórnar Steinar Logi Helgason. Þá verður bryddað upp á nýjung sem kallast „Syngjum jólin inn,“ en það er almennur söngur, kórsöngur og lestrar. Björn Steinar Sólbergsson verður við orgel. Þrír kirkjukórar koma fram, Kór Hallgrímskirkju, Steinar Logi Helgason, stjórnar honum svo Dómkórinn í Reykjavík, undir stjórn Kára Þormars, og Kór Breiðholtskirkju undir stjórna Arnar Magnússonar. Annan dag jóla, 26. desember, kl. 17.00, verður Björn Steinar Sólbergsson með orgeltónleika og þar leikin að sjálfsögðu jólatónlist. Á gamlársdag verða hinir sívinsælu tónleikar „Hátíðarhljómar við áramót,“ og hefjast þeir kl. 16.00.
Hóladómkirkja: Skagfirski kammerkórinn 19. desember kl. 20.00. Stjórnandi Helga Rós Indriðadóttir og organisti er Rögnvaldur S. Valbergsson
Húsavíkurkirkja: Tónleikar 20. desember kl. 20.00, orgel og kórsöngur.
Hvammstangakirkja: Jólatónleikar í kirkjunni 21. desember kl. 20.00.
Langholtskirkja: Jólasöngvar kórs Langholtskirkju verða 18. og 19. desember og er þetta í fertugasta og þriðja sinn sem þeir eru haldnir. Miðasala á Tix.is. Yfir tvö hundruð söngvarar hafa sungið í kórum kirkjunnar í vetur, frá þriggja ári aldri og nánast upp úr. Það eru fimm kórstjórar sem stýra þessum kórum. Langholtskirkja er eftirsóttur tónleikastaður og því margir kórar sem halda þar tónleika sína.
Neskirkja: Jólatónleikar 15. desember - kórfélagar veita nánari upplýsingar.
Ólafsvíkurkirkja: Tónleikar kirkjukórs Ólafsvíkurkirkju miðvikudaginn 15. desember kl. 19.00.
Siglufjarðarkirkja: Tónleikar 16. desember þar sem hljómsveitin Ástarhnoðrarnir, leikur, en hana skipa ungir vaskir menn. Hún bar sigur úr býtum í söngvakeppni framhaldsskólanna í fyrra.
Sandgerðiskirkja: Vox felix - tónleikar þriðjudaginn 14. desember kl. 20.00. Hópurinn er samstarfverkefni kirknanna á Suðurnesjum. Stjórnandi er Arnór Vilbergsson. 10% af ágóða tónleikanna renna til Píeta samtakanna.
Vopnafjarðarkirkja: Aðventutónleikar kirkju- og barnakórsins sunnudaginn 12. desember kl. 17.00.
hsh