Kirkja og list: Með nýju sniði
Listakonan heitir Kristín Björk Kristjánsdóttir og listamannsnafn hennar er Kira Kira. Hún stendur fyrir tónleikaröð i þremur kirkjum á Suðurlandi og fyrstu tónleikarnir voru í gær í Strandarkirkju í Engilsvík. Þeir tónleikar gengu vel fyrir sig: „Það var yndisleg stemmningin í Strandarkirkju, Engilsvíkin er magnaður staður!“ segir listakonan
„Þetta er í fyrsta sinn sem ég er með svona tónleikaröð í sveitakirkjum, en mér hefur hins vegar nokkrum sinnum verið boðið að taka þátt í Kirkjulistahátíð og þá í öll skiptin í Hallgrímskirkju,“ segir Kira Kira þegar kirkjan.is spyr hana úti í tiltækið. Hún segist hafa flutt til Stokkseyrar fyrir um tveimur árum og hafi lengi alið með sér þann draum að halda tónleika í einhverjum af þessum fallegu kirkjum á svæðinu.
„Ég upplifi ákveðna lotningu þegar ég kem í kirkjur eins og Hraungerðiskirkju í Flóahreppi og það er einhvern veginn mjög satt og gott ástand til þess að skapa út frá, halda tónleika, syngja og töfra fram myndlist í samhljómi við aðra sem líður eins,“ segir listakonan Kira Kira og er greinilega full tilhlökkunar.
En Kira Kira er ekki ein á vettvangi. Með henni er tónlistarfólk sem og annað listafólk.
Í dag, laugardaginn 11. desember verður listastund í Hraungerðiskirkju í Flóahreppi. Með henni verða ljósmyndarinn Snorri Hertervig og Frímann Kjerúlf Björnsson myndlistarmaður og eðlisfræðingur. „Spennandi að sjá hvaða töfrar verða til í kringum þessa stund,“ segir Kira Kria.
Á morgun, sunnudaginn 12. desember, verður svo listastund í Stokkseyrarkirkju kl. 18.00. Ásamt Kiru Kiru koma fram tónlistarmaðurinn Hermigervill og söngkonan og gítarleikarinn Sandrayati Fay frá Balí, en þetta verður einnig Stokkseyrarfrumsýningin á stuttmynd Kiru Kiru, „Eldingar eins og við,“ -11 mínútna draumferðalagi í Unaðsdal á Snæfjallaströnd þaðan sem Kira Kira er ættuð.
Listakollektívan Brimrót býður upp á aðventumarkað og yljandi hressingu fyrir og eftir tónleikana á Stokkseyri, í húsnæði sínu þar sem áður var félagsheimilið Gimli sem varð einmitt 100 ára á dögunum en einnig lítur rithöfundurinn Ísak Harðarson við og les upp fyrir gesti.
hsh
Hér leikur Kira Kira á langspil og spiladós í Strandarkirkju