Kolaportið á aðventu

13. desember 2021

Kolaportið á aðventu

Kolaportið í gær. Frá vinstri: Sigurbjörn Þorkelsson, prédikarinn, Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, sr. Bjarni Karlsson, stjórnandi helgihaldsins og tónlistarinstjórinn Guðrún Árný Karlsdóttir - mynd: hsh

Það var þétt setið í Kolaportinu í gær þegar samkoma, Kolaportsmessa, hófst þar undir stjórn sr. Bjarna Karlssonar. En það var Sigurbjörn Þorkelsson, rithöfundur, sem flutti hugleiðingu, og náði vel til fólksins. Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, stýrði bænahald af mikilli alúð en þó nokkuð er um að óskað sé fyrirbæna. Fyrirbænaefnin eru mörg og veita innsýn í hvað fólk er að glíma við. Samkomugestir tóku af miklum alhug undir bænirnar.

Tónlistin var í höndum Guðrúnar Árnýjar Karlsdóttur, tónlistarstjóra helgihaldsins, og var hún flutt með glæsibrag. Viðstaddir létu vel í sér heyra og gleði skein úr andlitum þeirra.

„Hér er bara þessi ágæti vísir að söfnuði,“ sagði sr. Bjarni Karlsson við tíðindamann kirkjunnar.is. „Þú sérð það, fólk úr ýmsum áttum og kemur hingað reglulega þó svo starfið hafi verið í hléi um stund.“ Hann sagði að nú yrði farið á fullt aftur og næsta samkoma yrði 9. janúar. „Og við bætum íslenskukennslu við dagskrána eftir helgihaldið,“ sagði sr. Bjarni fullur af eldmóð, „ætlum að kenna íslenskuna í gegnum bingó.“ Hann benti á tjald til hliðar í salnum og sagði bingóið yrði sýnt á því. „Daði Guðjónsson, kennari, hefur unnið að því að hanna út frá kennslufræði bingó sem kennsluleið í íslensku,“ segir sr. Bjarni og verði það spennandi að sjá hvernig tekst til.

Mannlífstorg
Kolaportsmessurnar hvíla á gömlum grunni og hafa verið haldnar í rúma tvo áratugi – eða í 21 ár. Þær byggja á þeirri einföldu en sterku hugmynd að helgihald þurfi ekki sérhannað húsnæði heldur lifandi fólk og frjálst helgihaldsform. Hvar sem tveir eða þrír koma saman þar er hægt að efna til kristilegs helgihalds. Kolaportið er einmitt slíkur staður. Mannlífstorg. Vissulega er það verslunarstaður og viðkomustaður fjölda fólks sem leitar að félagsskap sem krefst í raun ekki of mikillar nálægðar. Hver getur verið hann eða hún sjálf - eða þess vegna leikið einhvern annan eins og mannfólkið gerir víða. En þó með öðrum. Í hringiðu líðandi stundar. Það sást vel í helgihaldi dagsins. Samvera, nánd fólks enda þótt það þekktist kannski ekki svo ýkja mikið. Og sumir vilja jafnvel ekki þekkja aðra og það virðir fólk. En þeir eru. Eins og allir aðrir á mannlífssviðinu eru manneskjur. En kærleikurinn fer sem betur fer ekki í manngreinarálit. Inn í þetta fallega og fjölbreytilega samfélag töluðu hinir þrautreyndu skipuleggjendur, þau Ragnheiður, Bjarni og Sigurbjörn, af virðingu og hlýju. Allt gert af miklu innsæi, kærleika og þrótti.

Sr. Bjarni kynnti fyrir tíðindamanni kirkjunnar.is Kolaportshaldarann sjálfan, Ívar Trausta Jósafatsson. „Hann á rætur í Laugarneshverfinu og KFUM,“ sagðir sr. Bjarni stoltur. „Og hann vildi alls ekki að þessi félagslegi og trúarmenningarlegi vettvangur glataðist og bauð okkur þetta svæði í Portinu sem mér finnst þægilegra en þar sem við vorum áður.“ Ívar Trausti er framkvæmdastjóri Hafnartorgs og þetta var fyrsta messan í samvinnu við hann.

En hvaðan kemur fólkið?

„Sumir leggja leið sína sérstaklega hingað þegar þeir heyra af Kolaportsmessu,“ svarar sr. Bjarni, „aðrir eru hér á staðnum í margvíslegum erindum og heyra svo óminn af söng og koma.“ Svo er hópur sem venur komur sínar í Kolaportið um hverja helgi og sækir messurnar þegar þær eru.

Sr. Bjarni segir að þetta sé hópur sem sæki alla jafna ekki kirkju en finni sig í þessari kirkju, Kolaportskirkjunni, sem hefur opinn og hlýjan, kærleiksríkan faðm. Félagslegur bakgrunnur fólksins er af ýmsum toga og hagur margra mætti vera betri.

En eitt var augljóst. Kolaportsmessan lyfti mannskapnum upp. Síðast en ekki síst var þakklæti ofarlega í huga fólksins, þakklæti fyrir góða stund.

Kolaportsmessur fara fram á vegum þjóðkirkjunnar og þær sýna styrk hennar. Þjóðkirkjan býður upp á ótrúlega breidd í helgihaldi og boðunaraðferðum sem allar eiga rétt á sér í sínum aðstæðum. 

Kolaportsmessur verða haldnar ætíð annan sunnudag í mánuði yfir vetrartímann, kl. 14.00.

hsh


Það var góð mæting í Kolaportsmessuna í gær

 


Ragnheiður Sverrisdóttir, djákni, hefur lengi komið að Kolaportsmessunum

 


Sr. Bjarni Karlsson nær vel til fólks með hlýju og umhyggju - tónlistarstjórinn Guðrún Árný við hjómborðið og bæði heillaði fólk með söng sínum og fékk það til að þenja raddböndin

  • Kærleiksþjónusta

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Viðburður

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls