Erlend frétt: Kirkja skemmd
Margar kirkjur á Spáni eru í niðurníðslu vegna þess að enginn hirðir um þær og stjórnvöld eru treg til að láta fé af hendi rakna til viðhalds. Þetta eru gamlar kirkjur, miðaldakirkjur, og sumar þeirra hafa látið mikið á sjá.
Íbúar í litla þorpinu Castronuño á Spáni vöknuðu upp við vondan draum þegar þeir sáu að átt hafði verið við kirkjuna þeirra. Einhver hafði gerst svo djarfur og fyllt upp í sprungur og holur með venjulegu sementi á veggi Maríukirkjunnar þeirra. Svo gott sem sement annars er þá er það ekki rétta efnið til viðgerða á kalkmúruðum veggjum vegna þess að það andar ekki. Veggirnar geta fyrir vikið sprungið í frosti.
Íbúar þorpsins eru um 800 talsins og geta þeirra til að sjá um viðhald á kirkjunni er takmörkuð. Þó þeir séu daprir yfir þessu skemmdarverki sem þó var eflaust unnið af góðum huga þá eru þeir enn daprari yfir almennu ástandi kirkjunnar sem er bágborið svo ekki sé meira sagt. Þakið er til dæmis farið að gefa sig og gróður vex í sprungum á veggjum og þenur þá út.
Ekki er loku fyrir það skotið að erkibiskupsdæmið og stjórnvöld komi til skjalanna og styðji heimamenn við uppbyggingu kirkjunnar. Kirkjan er í rómönskum stíl og talin hafa sögulegt gildi sem slík.
Á Spáni er fólk minnugt þess að fyrir áratug tók áttræð kona sig til og lagaði Jesúmynd í einni kirkju en vann um leið skemmdarverk á myndinni. Annað nýlegt dæmi er viðgerð á 16. aldar verki í Kirkju heilags Mikjáls í borginni Estella á Spáni.
Kirkjan.is sagði frá því í vikunni hvernig kirkju nokkurri á Englandi var komið til bjargar fyrir tilstilli almennings og samtakanna Vina vinalausra kirkna. Mörgum rennur til rifja hvernig menningarverðmæti drabbast niður og vilja taka til hendinni. En allur slíkur fúsleiki til verka verður að vera innan skynsamlegra marka og í samráði við þau sem bera ábyrgð á viðkomandi byggingum.
Vårt land /hsh