Kirkjan opin
Kirkjunni.is þótti það athyglisvert að ein kirkja skyldi auglýsa í messudálki Morgunblaðsins á laugardaginn að hún yrði opin milli kl. 11.00-12.00 á sunnudaginn, Vídalínskirkja. Þar yrði leikið á orgel og prestur viðstaddur, bænastund, eða kyrrðarstund.
Nú er það svo að messudálkur Morgunblaðsins er ekki tæmandi auglýsingastaður en engu að síður auglýsa þar flestar kirkjur á suðvesturhorni landsins – og reyndar nokkrar úr öðrum landshlutum – messuhald sitt. Aðrar kirkjur sem áttu auglýsingu í laugardagsblaðinu ýmist boðuðu messufall eða minntu á streymi sitt. Auðvitað auglýsa flestar kirkjur á Feisbókarsíðum sínum og heimasíðum - eða í héraðsfréttablöðum. Langholtskirkja hefur til dæmis líka boðið upp á opna kirkju á sama tíma og Vídalínskirkja og auglýst á Feisbókarsíðu sinni. Kannski fleiri þótt kirkjan.is viti ekki af því.
Það að flestar kirkjur landsins skulu vera lokaðar almenningi til helgihalds á helgum dögum er að sjálfsögðu kirkjusöguleg tíðindi út af fyrir sig. Þjóðkirkjan hefur lagt sig í framkróka með að fara eftir öllum reglum sóttvarnayfirvalda og meira en það. Sýnt ábyrgð og jafnframt umhyggju. Hún veit af mannauði sínum sem hefur brugðist við aðstæðum með streymi og upptökum – kirkjurnar eru því opnar í vissum skilningi með þeim hætti.
Þess vegna hefur Vídalínskirkja líka auglýst undanfarið að hún væri opin á sunnudögum til bænahalds milli kl. 11.00 og 12.00. Með því hefur fólki verið gefið tækifæri til að koma saman til einslegs bænahalds og hitta einhvern þegar allt er meira og minna lokað. Prestur er á staðnum og í gær var það sr. Matthildur og organistinn Jóhann Baldvinsson var við hljóðfærið.
„Það eru alltaf einhverjir sem koma og einn er hver einn sem rímar sannarlega við kristna trú,“ sagði sr. Matthildur Bjarnadóttir, prestur, þegar kirkjan.is ræddi við hana um málið í gær. „Við teljum það gott að fólk viti af opinni kirkju sem það getur komið í á þessum undarlegu tímum og beðist fyrir með sjálfu sér og hlustað á organleik. Við höfum ekki ennþá lent í neinum vandræðum með fjölda fólks.“ Þau sem hafi nýtt sér þetta tækifæri séu afar þakklát.
Sr. Matthildur segir að frá sálgæslusjónarmiði skipti það starfsfólkið í Vídalínskirkju máli að einstaklingar, sem líður illa, komi ekki að lokuðum dyrum heldur sé prestur á staðnum sem tekur á móti þeim sem þurfi á áheyrn að halda. Þetta er allt á forsendum þeirra sem ákveða að kíkja inn í kirkjuna.
Á sama tíma er sunnudagaskólinn sendur út rafrænt því það er ekki hægt að bjóða barnafjölskyldunum til kirkjunnar vegna sóttvarna.
Samtal á kirkjubekk
Það var næðisstund eftir bænahaldið í Vídalínskirkju í gær nokkru fyrir hádegið og saman ræddu í stutta stund presturinn, sr. Matthildur, organistinn, Jóhann Baldvinsson, og kirkjan.is. Úti var napurt en hlýtt og notalegt inni í kirkjunni.
Jóhann er afar ánægður með orgel kirkjunnar sem er verk Björgvins Tómassonar frá 2013. „Tónarnir mjúkir og fallegir,“ segir hann. Björgvin Tómasson er líka dæmi um íslenskan kirkjulistamann þegar horft er til hve mikil listasmíð orgel hans eru.
Steindir gluggar Leifs Breiðfjörð fara einkar vel í kirkjunni þó ekki séu þeir stórir. Leifur er í hópi merkustu kirkjulistamanna á Norðurlöndum
Í Vídalínskirkju er listaverk sem hangir í lofti milli kirkjuskips og gangs. Það heitir Eining, glerlistaverk, þrír krossar en þó einn kross. Höfundar þess eru Sören Staunsager Larsen (1946-2003) og Sigrún Einarsdóttir, glerlistamenn í Bergvík á Kjalarnesi. Þetta listaverk var gefið af velunnurum kirkjunnar, Byggingafélagi Gylfa og Gunnars.
Stór Kristsmynd á vesturvegg er gerð af Baltasar Samper – hún sýnir Krist á göngu í Heiðmörkinni, kraftalegur, ungur maður og einbeittur á svip. Eftirtektarvert að naglaförin eru ögn fyrir ofan úlnlið.
Það fer ekki fram hjá neinum sem kemur inn í kirkjuna að hún er dálítið mikið á breiddina eins og sagt er.
„Það er mjög þægilegt að kirkjan skuli vera svona breið þegar við erum með barna- og æskulýðsstarf,“ segir sr. Matthildur, „allir eru svo nálægt hver öðrum.“ Satt er það fólk situr þéttara í löngum röðum og heyrir og sér betur allt sem fram fer við altarið.
Í lokin var slegið á létta listræna strengi þegar talið barst að hinum vinsæla sjónvarpsþætti á RÚV, Séra Brown, vegna þess að í síðasta þætti á föstudaginn sagði frá kirkjukórasamkeppni. Allir sem séð hafa þættina kannast við hve vel þeir eru leiknir og umgjörðin vönduð. „Það var líka merkilegt að í þessum þætti var enginn myrtur,“ sagði Jóhann organisti og hló við en bætti við að það hefði líka verið annað sem vakti athygli. Jóhann lék sálminn Ver hjá mér, Herra, í bænastundinni. Hann er númer 426 í Sálmabókinni. „Lagið kom fyrir í þættinum um Séra Brown nú um helgina og það spannst smá umræða um það á Facebook,“ segir Jóhann glaður í bragði. „Menn komu honum ekki alveg fyrir sig í fljótu bragði.“ Annar sálmur við þetta lag er: Ó, Jesúbarn, þú kemur nú í nótt (nr. 75), og sá lagboði er í núverandi sálmabók. Enska heitið er Abide with me.
Kirkjan.is hélt út í nepjuna eftir góða stund með organista og presti. Hlýir tónar umrædds lags verma sálina og hér má hlusta á lagið með ólíkum flytjendum.
hsh
Jóhann við orgelið og leikur lagið góða - og steindir gluggar Leifs Breiðfjörð
Listaverkið Eining - eftir Sören og Sigrúnu í Bergvík á Kjalarnesi
Listaverk Baltasars Sampers