Viðtalið: Stutt dvöl varð ævilöng
Víða um land er tónlistarfólk af erlendu bergi brotið sem ber uppi starf í tónlistarskólum og í kirkjum. Sennilega hafa margir heyrt og séð framandi nöfn þegar guðsþjónustur eru auglýstar sem og ýmsir tónlistarviðburðir. Gjarnan eru þetta nöfn sem benda til Austur-Evrópu og eru ekki alltaf auðveld í framburði.
En það er auðvelt að bera fram tékkneska nafnið Pavel Róbert Smid. Hann er einn af þeim mörgu tónlistarmönnum sem hóf störf úti á landsbyggðinni. Nánar tiltekið á Austfjörðum.
Hver er hann? Já, og hvernig stendur á því að lagði land undir fót úr Mið-Evrópu og norður í höf?
Ungur maður í Prag með konu sem er ófrísk. Þau eru að koma sér þaki yfir höfuðið, kaupleiguíbúð. Launin duga ekki fyrir afborgunum og daglegu lífi. Fátækt blasti við og hún var honum svo sem ekki ókunn því að foreldrar hans voru fátækt fólk og hann ólst upp við það. Þó var faðir hans rafmagnsverkfræðingur en hann vildi ekki ganga í kommúnistaflokkinn og neituðu menn því fengu þeir bágt fyrir hjá flokknum. En ungi fjölskyldumaðurinn í Prag velti vöngum yfir því hvað hann ætti að gera. Hann sá auglýsingu í blaði. Hugsaði með sér að þarna væri tækifæri til að afla sér tekna á stuttum tíma, kaupið var hærra þarna en í heimalandi hans. Auglýst var eftir organista á Íslandi, á Reyðarfirði og Eskifirði. „Og ég sló til,“ segir hann með yfirveguðum svip.
Þegar dr. Pavel Róbert Smid kom til Íslands í fyrsta sinn brá honum nokkuð í brún. Sitthvað var hin forna og fagra borg Prag og Reykjavík. Síðan hélt hann austur. Hann trúði vart sínum eigin augum. Var þetta bærinn? Svo lítill og húsin fá.
Dr. Pavel Róbert Smid er fæddur í lítilli borg skammt frá Prag árið 1949. Hann stundaði píanónám frá 6 ára aldri og lauk síðan stúdentsprófi 1968. Nám í orgelleik stundaði hann við Tónlistarháskólann í Prag og framhaldsnám við tónlistarskólann þar í borg. Hann var prófessor við Conservatorium í Prag áður en hann fluttist til Íslands. Árið 1994 lauk hann doktorsprófi í tónlistartúlkun og tónlistargagnrýni við Pacific-háskólann í Los Angeles í Bandaríkjunum. Hann hefur verið organisti á Austurlandi, við Fríkirkjuna í Reykjavík og víðar. Pavel hefur unnið til fjölda verðlauna bæði heima og erlendis. Sömuleiðis hefur hann leikið víða á tónleikum eins og í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Búlgaríu, Tékklandi og Rússlandi – og víðar. „Flugvélin lenti á Egilsstöðum. Á móti honum tók presturinn í háum stígvélum enda var flugvöllurinn eitt svað. Pavel steig út og var í lakkskóm eins og hann var oftast klæddur í borginni fögru, Prag. Hann lærði fljótt að skóa sig hér á landi. „Þegar ég kom til Íslands kunni ég ekki eitt orð í íslensku og ekki heldur ensku,“ segir Pavel, „ég talaði auk móðurmáls míns þýsku og rússnesku.“ Hann segist hafa fengið þýsk-íslenska orðabók og síðan hafi presturinn sagt við sig að hann þyrfti að læra íslensku átta tíma á dag. Það gerði hann og fékk aðstoð frá góðu fólki. Þetta var þremur vikum áður en tónlistarskólinn átti að byrja.
Árin á Reyðarfirði urðu sex og þar var hann organisti og víðar um sveitir – og kenndi við tónlistarskólann.
Og hvernig var að læra íslensku?
„Það var gert á hnefanum,“ segir Pavel án þess að depla auga. Nú talar hann þessa fínu íslensku.
Eiginkona hans var frá Búlgaríu og hún var líka tónlistarmenntuð og stjórnaði kórum fyrir austan og í bænum – kenndi líka. Hún kom til Íslands 1976 þegar dóttir þeirra var fædd. Síðar eignuðust þau dreng. Börnin búa nú í Þýskalandi og Noregi. Þau skildu að skiptum og núverandi kona hans er íslensk.
Þau hjónin kunnu mjög vel við sig á Íslandi og samkvæmt tékkneskum reglum átti Pavel að snúa aftur til Tékkóslóvakíu 1984 og var boðin staða sem yfirmaður tónlistarmála á heilsuhælum í landinu gegn því að hann gengi í kommúnistaflokkinn. Pavel var ekki á því og þá var sagt við hann það skipti svo sem ekki máli því hann væri orðinn það gegnsósa af hugmyndafræði Vesturlanda og gæti fyrir vikið ekki þjónað ríkinu. „Þeir sögðu við mig að þótt ég gengi í flokkinn þá myndu þeir ekki geta treyst mér,“ segir Pavel. Hann fór þess vegna ekki aftur til heimalandsins. Fyrir vikið sviptu kommúnistarnir hann ríkisborgararétti og dæmdu hann fjarverandi til fimm ára fangelsisvistar. Og tóku íbúðina af þeim. Hann fór ekki til Tékklands fyrr en nokkrum árum seinna þegar kommúnistarnir voru farnir frá völdum, í Flauelsbyltingunni 1989. Nú er hann íslenskur ríkisborgari. Þegar Václav Havel, forseti Tékklands, kom til Íslands, tjáði hann Pavel að hann gæti fengið tékkneskan ríkisborgararétt aftur en Pavel þyrfti að fara í gegnum sendiráðið í Osló með það sem hann gerði nokkrum árum síðar.
Árin fyrir austan voru að áliti hans þau bestu sem hann hefur átt. Pavel fluttist til Reykjavíkur með fjölskyldu sína. Hann fékk kennslu við söngskóla Garðars Cortes, og var organisti við Fríkirkjuna í Reykjavík. Síðan varð hann organisti við Árbæjarkirkju í fimm ár. Pavel varð að láta af störfum sem organisti vegna þess að hann greindist með liðagigt og vefjagigt.
Hann segist kunna vel við Íslendinga. Þeir séu glaðlyndir og gott fólk. Séu djarfir og láti ekki margt stöðva sig. En honum finnst Íslands hafa breyst mikið frá því hann kom hingað. „Amerísk áhrif leyna sér ekki,“ segir hann, „og það er mikið um boð og bönn hérna.“
Pavel unir hag sín vel sem eftirlaunaþegi. Hann hefur gaman af því að búa til mat, lyftir lóðum þegar vel liggur á honum, fer í gönguferðir og fylgist með þjóðmálum hér og í Tékklandi. Hann á líka mjög gott plötusafn og kassettur sem hann er að færa yfir í tölvutækt form. Svo les hann, og mest á íslensku. Þá hefur hann útsett lög og kennt undirspil.
Orgelið leitar auðvitað á huga hans og hann tekur stundum í það eða píanóið. Reyndar er orgelið til sölu. Glæsilegt amerískt orgel, Allen, digital computer organ – frá 1980. „Þau sem hafa áhuga á þessu góða hljóðfæri geta haft samband við mig í gegnum tölvupóst eða síma,“ segir hann með bros á vör, „Ég er náttúrlega í símaskránni en netfang mitt er pavelphd@hotmail.com.“
Þá má nefna það að árið 1993 gaf Pavel út geisladisk og hann er enn til sölu hjá honum.
Geisladiskurinn
Hann sest við orgelið og leikur um stund á það. Hljómurinn er fallegur og mjúkur. Orgelið er amerískt af tegundinni Allen og er nú falt.
hsh