Bjartsýnn hópur

15. febrúar 2022

Bjartsýnn hópur

Frá aðalfundi ÆSKÞ - fjarfundur og staðfundur - frá vinstri: Hákon Darri Egilsson og Berglind Hönnudóttir - mynd: Daníel Ágúst Gautason

Æskulýðsmálin skoruðu hátt í stefnumótun þjóðkirkjunnar sem fór fram á síðasta ári. Til stendur að gera átak í þeim efnum svo um munar. Öllum er ljóst að æskulýðsstarf þjóðkirkjunnar er einn mikilvægasti þátturinn í því að efla kirkjustarf í nútíð sem framtíð. Þjóðkirkjan hefur á að skipa vösku liði sem sinnir æskulýðsmálum innan ÆSKÞ og víðar.

Aðalfundur ÆSKÞ var haldinn fyrir nokkru.

Kirkjan.is hafði samband við Berglind Hönnudóttur, formann ÆSKÞ, og spurði fyrst hvort þátttaka hefði verið góð á fundinum.

„Hún var með besta móti í ár, en eins og allir vita hafa samkomutakmarkanir sett strik í reikninginn í allri starfsemi sem krefst þess að fólk komi saman og hefur það svo sannarlega einnig átt við starf ÆSKÞ,“ segir Berglind sem jafnan er kölluð Bella. „Þetta var annað árið í röð þar sem í boði var bæði að taka þátt í aðalfundinum á staðnum og að taka þátt í gegnum fjarfund.“ Bella segir að þetta fyrirkomulag henti félaginu vel þar sem að aðildarfélög séu vítt og breitt um landið og einnig í Noregi.

Settur framkvæmdastjóri ÆSKÞ, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, lætur senn af störfum og mun stjórn ÆSKÞ funda á næstunni um hvað gera skuli í stöðunni.

Næsta landsmót verður á Akranesi. Stefnt er að því að fá 400 ungmenni til að koma – hvernig á að fara að því?

„Það er mikið sóknartækifæri fyrir kirkjuna að halda úti æskulýðsstarfi út um allt land,“ segir Bella og er full af baráttuanda, „ungmenni sækja mikið í starfið hjá kirkjum landsins og margir orðnir þyrstir í viðburði á borð við landsmót og fá að eiga samfélag með öðrum unglingum.“ Bella segir að það sé alltaf gott að vera með eitthvert markmið til að stefna að. „Okkur langar einnig til þess að fleiri kirkjur efni til æskulýðsstarfs og mæti á landsmót næsta haust.“

Hvernig er fjárhagurinn hjá ykkur?

„Fjárhagur ÆSKÞ er í jafnvægi,“ segir Bella, „þökk sé stuðningi frá kirkjunni. Þegar félagið var stofnað þá var auðsóttara að fá styrki frá fyrirtækjum og opinberum sjóðum en í dag er staðan önnur. Æskulýðssjóði er til dæmis óheimilt að styrja rekstur, mót eða árvissa viðburði félagasamtaka.“ Bella segir að rekstur ÆSKÞ hafi undanfarið aðallega verið byggður á aðildargjöldum félaga og styrkjum frá þjóðkirkjunni. „Við teljum það mikilvægt að félagið geti ávallt staðið við sínar skuldbindingar,“ segir Bella „og þá sérstaklega í tengslum við landsmót og höfum við því hagað rekstri okkar undanfarin ár þannig að við gætum klárað eitt rekstrarár ef allir styrkir yrðu felldir niður.“

Hvernig er aðsóknin að Leiðtogaskólanum? Hver er aldurinn?

„Aðsókn í leiðtogaskólann er mjög góð, það eru prestar á hverjum stað sem að ákveða hverjum sé boðin skólavist í leiðtogaskólanum,“ segir Bella. „Leiðtogaskólinn er miðaður við 10. bekk og fyrsta bekk í framhaldsskóla en vegna aðstæðna þá er hann í boði fyrir 9. bekk og 10. bekk á Austurlandi þar sem að mörg þeirra fara úr bæjarfélaginu þegar þau byrja í framhaldskóla.“

hsh

 


Sr. Þuríður Björg Wiium Árnadóttir og Daníel Ágúst Gautason, djákni

  • Frétt

  • Fundur

  • Menning

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Viðburður

  • Æskulýðsmál

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls