Biblíuapp fyrir börn

19. febrúar 2022

Biblíuapp fyrir börn

Fjörlegar og vinalegar myndir í Biblíuappinu - skjáskot: hsh

Hið íslenska biblíufélag er gamalt og virðulegt félag. Já, elsta félag landsins við hliðina á Hinu íslenska bókmenntafélagi. Tilgangur þess er fyrst og fremst sá að vinna að útbreiðslu Biblíunnar, sjá til þess að unnið sé að þýðingu hennar, og hvetja til þess að hún sé notuð. Margar þýðingar á Biblíunni hafa komið út á íslensku.

Nútíminn kallar á nýjar leiðir til útbreiðslu á Biblíunni. Margir kannast við Biblíuappið og hafa það í símanum sínum. Geta lesið Biblíuna í símanum hvort heldur í strætó eða flugvél.

Barnabiblíur hafa líka verið gefnar út. Þar hefur Skálholtsútgáfan – útgáfufélag þjóðkirkjunnar verið í fararbroddi.

Börnin eru orðin tæknivædd og jafnvel á köflum tæknivæddari en hin fullorðnu. Að minnsta kosti leika snjalltækin í höndum margra þeirra.

Biblíufélagið hefur nú látið útbúa íslenska útgáfu af Biblíuappi fyrir börn.

Kirkjan.is ræddi við einn stjórnarmanna Hins íslenska biblíufélags, dr. Grétar Halldór Gunnarsson, sem starfar um þessar mundir sem prestur í Ísafjarðarprestakalli, og spurði hve lengi þetta hefði verið í bígerð.

„Strax eftir að íslenskar Biblíuþýðingar voru fyrst gerðar aðgengilegar á Biblíuappinu árið 2018, þá var farið að ræða þennan möguleika að útbúa Barnabiblíuappið á íslensku,“ segir dr. Grétar Halldór og bætir því við að Styrmir Hafliðason sem sé áhugamaður um Biblíuna á nýjum miðlum hafi fyrstur komið með þessa hugmynd og hafi svo á endanum leitt verkefnið ásamt Einari Aroni Fjalarssyni. „Stjórn Biblíufélagsins samþykkti formlega að veita fjármunum í verkefnið í desember 2020.“

Röskur hópur var kallaður til að þýða verkið en í honum voru þau Guðni Einarsson, Hafliði Kristinsson, Unnar Erlingsson, Yngvi R. Einarsson Jakob Hafþór Björnsson, Fanný Kristín Tryggvadóttir, Andri Ómarsson, Aron Hinriksson og Sigurður Bjarni Gíslason. „Leikarinn snjalli, Gói, Guðjón Davíð Karlsson, var fenginn til að lesa textann,“ segir dr. Grétar Halldór.

Biblíuappið verður kynnt í fyrstu á samfélagsmiðlum Biblíufélagsins. Auðvelt verður að hlaða appinu niður og skipta yfir á íslensku. Mikilvægt er að sem flestir kynni sér appið og veki áhuga annarra á því. Allt kirkjufólk hvar í kirkju sem það stendur er kallað til þess verks.

Biblíuappið fyrir börn er nú aðgengilegt á 65 tungumálum auk íslensku og það er auðvelt að skipta á milli tungumála í stillingum appsins.

En allt kostar fé. Margir sjálfboðaliðar hafa komið að þessu verki. Þá eru Bakhjarlar Biblíunnar ómissandi sem og aðrir styrktaraðilar Biblíufélagsins. Þegar allir leggjast heilshugar á eitt gerast góðir hlutir.

Bakhjarlar biblíufélagsins gegndu lykilhlutverki í því að unnt væri að ýta Biblíuappinu úr vör. Bakhjarlar eru mánaðarlegir styrktaraðilar Biblíufélagsins sem hafa stutt sérstaklega við þessa framsókn Biblíunnar inn á nýja miðla. Bakhjarlar eru traustir félagsmenn Hins íslenska biblíufélags sem vilja greiða götu Biblíunnar í nýjum miðlum á tækni- og upplýsingaöld.

Í guðsþjónustunum á Biblíudeginum er augum sérstaklega beint að Biblíunni og boðskap hennar. Staða Biblíunnar í samfélaginu er einstök því að hún geymir ekki aðeins mikilvæga trúarlega texta heldur er hún og samofin íslenskri menningu, trúarlegri og veraldlegri. 

hsh

 


  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Frétt

  • Biblían

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls