Erlend frétt: Úrsögnum fækkar
Nýjar tölur frá Þjóðskrá Danmerkur sýna að aldrei hafa færri sagt sig úr dönsku kirkjunni síðan árið 2007. Þessi þróun er útskýrð að hluta til með því að vísa til kórónuveirunnar margumtöluðu en hún hafi dregið fram mikilvægi félaga og ýmissa samtaka í nærumhverfi fólks.
Á síðasta ári sögðu 8961 sig úr dönsku þjóðkirkjunni.
Forystufólk í dönsku kirkjunni er að vonum ánægt með þessar nýju tölur og vonast til að nú séu hjólin farin að snúast kirkjunni í vil þó hægt sé.
Undanfarin fimmtán ár hafa úrsagnir úr dönsku þjóðkirkjunni verið mismiklar. Stærsta höggið var greitt kirkjunni af guðleysisamtökunum dönsku árið 2016 en þá fóru þau í herferð gegn kirkjunni. Það ár sögðu 24.728 manns sig úr kirkjunni. Frá árinu 2016 hefur hins vegar úrsögnum fækkað.
„Eftir höggið 2016 gengu úr kirkjunni einstaklingar sem margir hverjir voru á leiðinni úr kirkjunni hvort sem var,“ segir stiftsbiskupinn í Álaborg. „Nú erum við frekar á lygnum sjó.“
En það eru ekki allir á einu máli um að þjóðkirkjan ein og sér geti þakkað sér að færri segi sig úr kirkjunni. Kirkjusagnfræðingur (og guðfræðingur) við Kaupmannahafnarháskóla, Rasmus H.C. Dreyer segir:
Hann bendir á að kórónuveirufaraldurinn hafi sýnt fram á mikilvægi stórra sem smárra félaga og samtaka í nærumhverfinu.
„Við fundum aftur fyrir þjóðernistilfinningu, takmörkunum og því að fara út yfir mörk – við rákum okkur kannski aftur illilega á fallvaltleika mannlífsins, fundum að við höfðum ekki stjórn á tilverunni. Svarið við slíkum tilfinningum er trúarlegt,“ segir Rasmus.
En að áliti kirkjusagnfræðingsins er það ekki bara kórónuveirufaraldurinn einn og sér sem útskýrir málið. Fækkun úrsagna úr dönsku þjóðkirkjunni var þegar hafin árið 2019.
Astrid Krabbe Trolle er trúarbragðafélagsfræðingur við Hróarskelduháskóla. Hún segir að þjóðkirkjan danska skuli nú ekki fagna sigri of fljótt. Lækkandi tölur um úrsagnir úr þjóðkirkjunni sýni fremur að umræðan um kirkjuna hafi verið lítil á kórónuveirutímanum og megi ekki líta á það sem jákvæða þróun.
Færri úrsagnir úr kirkjunni leiða ekki heldur hugann frá miklu stærri vandamálum sem blasa við þjóðkirkjunni:
„Það er meðal annars sú hæga og bítandi þróun sem heggur í raðir þjóðkirkjunnar og felst í nýrri samsetningu þjóðarinnar og færri barnaskírnum – kórónuveirufaraldurinn hefur ekki haft svo ýkja mikil áhrif í þeim efnum.“
KristeligtDagblad/Niels Hein/hsh