Erlend frétt: Úrsögnum fækkar

21. febrúar 2022

Erlend frétt: Úrsögnum fækkar

Helgistund í danskri kirkju - mynd: KristeligtDagblad/Kåre Gade

Nýjar tölur frá Þjóðskrá Danmerkur sýna að aldrei hafa færri sagt sig úr dönsku kirkjunni síðan árið 2007. Þessi þróun er útskýrð að hluta til með því að vísa til kórónuveirunnar margumtöluðu en hún hafi dregið fram mikilvægi félaga og ýmissa samtaka í nærumhverfi fólks.

Á síðasta ári sögðu 8961 sig úr dönsku þjóðkirkjunni.

Forystufólk í dönsku kirkjunni er að vonum ánægt með þessar nýju tölur og vonast til að nú séu hjólin farin að snúast kirkjunni í vil þó hægt sé.

„Síðustu 15-20 árin hefur þjóðkirkjan unnið að ýmsum nýjungum sem eru að skila árangri,“ segir biskupinn í Álaborgarstifti, Thomas Reinholdt. „Ég nefni sem dæmi yngri-barnafermingarfræðslu, krílasálma og önnur guðsþjónustuform ásamt ýmsu öðru.“ Hann segir að með þessu hafi kirkjan náð góðu sambandi við sitt fólk og uppskeri traust fyrir vikið. „Og vildu eflaust margir vera núna í okkar sporum.“

Undanfarin fimmtán ár hafa úrsagnir úr dönsku þjóðkirkjunni verið mismiklar. Stærsta höggið var greitt kirkjunni af guðleysisamtökunum dönsku árið 2016 en þá fóru þau í herferð gegn kirkjunni. Það ár sögðu 24.728 manns sig úr kirkjunni. Frá árinu 2016 hefur hins vegar úrsögnum fækkað.

„Eftir höggið 2016 gengu úr kirkjunni einstaklingar sem margir hverjir voru á leiðinni úr kirkjunni hvort sem var,“ segir stiftsbiskupinn í Álaborg. „Nú erum við frekar á lygnum sjó.“

En það eru ekki allir á einu máli um að þjóðkirkjan ein og sér geti þakkað sér að færri segi sig úr kirkjunni. Kirkjusagnfræðingur (og guðfræðingur) við Kaupmannahafnarháskóla, Rasmus H.C. Dreyer segir:

„Þó að við nennum ekki að tala lengur um kórónuveirufaraldurinn þá er hann að mínu mati ein af ástæðum þess að dregið hefur úr úrsögnum úr kirkjunni. Í pólitíkinni er talað um rally-round-the-flag-breytuna á viðsjárverðum tímum en þeir þjappa fólki saman. Við sáum það hér heima að fólk stóð við bakið á ríkisstjórn landsins í byrjun faraldursins.“

Hann bendir á að kórónuveirufaraldurinn hafi sýnt fram á mikilvægi stórra sem smárra félaga og samtaka í nærumhverfinu.

„Við fundum aftur fyrir þjóðernistilfinningu, takmörkunum og því að fara út yfir mörk – við rákum okkur kannski aftur illilega á fallvaltleika mannlífsins, fundum að við höfðum ekki stjórn á tilverunni. Svarið við slíkum tilfinningum er trúarlegt,“ segir Rasmus.

En að áliti kirkjusagnfræðingsins er það ekki bara kórónuveirufaraldurinn einn og sér sem útskýrir málið. Fækkun úrsagna úr dönsku þjóðkirkjunni var þegar hafin árið 2019.

„Það túlka ég sem merki um tilhneigingu til að slá vörð um heimabyggð, það sem stendur okkur næst og líka það þjóðlega; kórónuveirufaraldurinn dró það líka fram, og þetta fer sem allþungur straumur um samfélag okkar í dag,“ segir hann, „glóbalisminn er búinn að vera sem hugmyndafræði, hættutímar hafi aftur knúið dyra eins og kalda stríðið. Öll þessi þróun styður að því að fólk haldi sér við þjóðkirkjuna sem stofnun er það þekkir, hún er þjóðleg, heimilisleg og alþjóðlegur félagsskapur kristins fólks.“ Hann segir einnig að fækkun úrsagna sýni að fólkið í kirkjunni sé bara ánægt með hana: „En það verður að segjast eins og er að starf þjóðkirkjunnar er framúrskarandi og hún þarf ekki að týna sér í einhverjum framfarahug út af því,“ segir Rasmus, „í raun þarf fólk nú bara að átta sig á því að við ráðum ekki við allt í lífinu og veröldinni eins og við höfum ímyndað okkur að við gerðum.“

Astrid Krabbe Trolle er trúarbragðafélagsfræðingur við Hróarskelduháskóla. Hún segir að þjóðkirkjan danska skuli nú ekki fagna sigri of fljótt. Lækkandi tölur um úrsagnir úr þjóðkirkjunni sýni fremur að umræðan um kirkjuna hafi verið lítil á kórónuveirutímanum og megi ekki líta á það sem jákvæða þróun.

„Þetta segir okkur fyrst og fremst að opinber gagnrýni hefur verið hverfandi lítil,“ segir Astrid, „engin sérstök mál hafa skotið upp kolli sem ýta undir úrsagnir eins og var til dæmis í kringum umræðuna um hjónavígslu samkynhneigðra árið 2012 eða herferð guðsleysissamtakanna árið 2016.“ Hún segir að danskt samfélag hafi verið upptekið af öðru en kirkjunni eins og minkaslátruninni umdeildu og bólusetningum.

Færri úrsagnir úr kirkjunni leiða ekki heldur hugann frá miklu stærri vandamálum sem blasa við þjóðkirkjunni:

„Það er meðal annars sú hæga og bítandi þróun sem heggur í raðir þjóðkirkjunnar og felst í nýrri samsetningu þjóðarinnar og færri barnaskírnum – kórónuveirufaraldurinn hefur ekki haft svo ýkja mikil áhrif í þeim efnum.“

KristeligtDagblad/Niels Hein/hsh




  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Trúin

  • Erlend frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls