Erlend frétt: Tökin hert

22. febrúar 2022

Erlend frétt: Tökin hert

Hertar reglur í Kína - hér er kirkja sótthreinsuð í hinni frægu borg, Wuhan, í mars 2020 - mynd: NTB/AP/Vårt land

Nýjar reglur taka gildi 1. mars í Alþýðulýðveldinu Kína. Þær gera kröfur um að hver sá sem ætlar að deila trúarlegu efni á netinu verði að hafa tilskilið leyfi til þess frá ríkinu.

„Þetta er alvarlegt inngrip og liður í því að ná tökum á dreifingu efnis á samfélagsmiðlum og er mikið áhyggjuefni,“ segir Ed Brown, sem veitir forstöðu stofnun sem vinnur með trúarleg réttindi fólks (Stefanusalliansen). Hann segir að þetta nái til einnig til appa og hvers kyns samskiptaforrita. „Það er ekki ljóst hvort að þetta muni aðeins koma niður á hópum eða líka á einkasamtölum fólks um trúarleg efni til dæmis í gegnum kínverska appið WeChat,“ segir Ed.

Hvað er WeChat?
Í Kína eru miðlarnir Facebook, Twitter, Linkedin og Instagram, bannaðir. Kínverski WeChat vefmiðillinn er sá öflugasti þar í landi og góð leið til að ná til bæði almennings og fyrirtækja.

Nýju reglurnar byggja á kínverskum lögum um netöryggi. Aðeins þau sem sækja um sérstakt leyfi frá yfirvöldum – og fá það – er heimilt að deila út trúarlegu efni hvort heldur texta, myndum, hljóði eða myndbandi. Þetta á við um miðla eins og netsíður, öpp, spjallrásir, blogg, smáblogg, opnar slóðir, boðsendingar eða beint streymi. Ed hefur áhyggjur af því að reglurnar skuli vera þetta víðtækar að þær nái til appa og samskiptaforrita.

Hugleiðingin var fjarlægð

Stjórnarskrá Kína tryggir fólki rétt til að reka eðlilega trúarstarfsemi. Þá er gengið út frá því að starfsemin fari fram innan félagsskapar sem hið opinbera leggur blessun sína yfir. Ráðuneyti trúmála hefur yfirumsjón með þessum málaflokki. Hvað kristna söfnuði snertir þá falla söfnuðir kaþólskra og mótmælenda undir skráningarreglur um þjóðrækna söfnuði ásamt einstökum heimasöfnuðum og neðanjarðarkirkjum sem hafa ekki viljað vera undir smásjá yfirvalda.

Síðastnefndu söfnuðirnir hafa enga lagalega vernd. Ed hefur áhyggjur yfir því hvernig reglurnar komi til með að takmarka starfsemi þeirra.

Norsk trúboðasamtök sem hafa verið að störfum í Kína í áratugi telja líka að skráðir söfnuðir geti komist í vanda gagnvart yfirvöldum.

„Einn af samstarfssöfnuðum okkar sem heyrir til stórri kirkjudeild komst að því að nýársprédikun sem þeir höfðu sett á netið var horfin,“ segir einn starfsmanna norsku trúboðssamtakanna, „hún hafði verið fjarlægð.“ Hann vill ekki láta nafns síns getið í ljósi aðstæðna. Enginn vafi leikur á því að mati hans að reglurnar banni „framandi samtökum eða einstaklingum, á meginlandi Kína,“ að deila trúarlegu efni á netinu.

„Þetta mun verða mjög bagalegt fyrir kaþólikkana vegna sambands þeirra við Róm,“ segir hann.

Stuðli að heilbrigðu samfélagi

Það kemur fram í 14. grein þessara reglna hvaða setningar og viðhorf eru á bannlista og sé gripið til þeirra hafa menn fyrirgert rétti sínum til starfa og boðunar. Þar er tekið fram að óheimil sé öll framsetning trúarinnar sem feli í sér gagnrýni á leiðsögn kommúnistaflokksins, geri lítið úr hinu sósíalíska skipulagi, þjóðlegri og etnískri einingu, ásamt þjóðfélagslegum stöðugleika. Þá er óheimilt að beina boðskapnum að ungu fólki sem og að flétta hann inn í afþreyingu eða ólöglega útgáfu.

Auk þess er það tekið fram að allir hópir, skólar, trúarstofnanir sem nú þegar hafa fengið viðurkenningu, hafi forsvarsmenn og kennara sem túlka trúarlegar kenningar með þeim hætti að þær samræmist „félagslegu jafnvægi, þróun, og heilbrigðu samfélagi,“ sem veki með trúuðum þegnum „föðurlandsást og virðingu fyrir landsins lögum.“

Hvernig er trúarlegt skilgreint í þessu samhengi?

„Það er ekki að finna í textanum. Vandinn liggur í þessu að ekki er skilgreint við hvað átt sé með trúarlegu innihaldi. Er til dæmis falið í þessu að ef einhver spyr svo: Viltu biðja fyrir mér? Og hvað með fræðilega umræðu um trúmál? Aftur á móti er talað um að efni sem geti leitt til sundrungar milli trúarbragða og innan herbúða þeirra, geti leitt til missis starfsleyfis. Þá getur þetta valdið því að umræða innan trúfélaga verði kæfð,“ segir Ed.

Kórónuveiran

Ed telur að þetta nýja regluverk hafi komið til vegna kórónuveirufaraldursins.

„Kórónuveiran hafði auðvitað mikil áhrif á ferðafrelsi fólks og samkomuhald,“ segir hann. „Mörg trúfélög tóku það til bragðs að hittast á netinu eins og við þekkjum í gegnum margs konar fjarfundabúnað. Yfirvöldin komust þá að því að þau höfðu ekki þá stjórn á málum sem þau vildu.“

Ed tengir stjórnunarþörfina ekki beint við hugmyndafræði kommúnismans heldur frekar til eldri pólitískrar hefðar sem segir að valdhafarnir hafi „umboð himinsins.“

„Það þýðir að leiðtoginn eigi að tryggja efnahagslega velsæld og öryggi. Takist honum það ekki hefur fólkið rétt til að setja hann af. Sagan segir að uppreisn gegn leiðtogunum hafi oft hafist með friðsamlegum hætti í trúarlegum hreyfingum. Þetta situr fast í þjóðarsálinni og útskýrir að kommúnistaflokkurinn leggi áherslu á öryggi og jafnvægi. Og stjórnunin finnur sér öruggan farveg í regluverkinu.“

Persónuvernd horfin

Mannréttindalögfræðingurinn Njål Høstmælingen fullyrðir að tölvustjórn í Kína verði stöðugt umfangsmeiri.

Hefur fólk orðið sáttara við þessa stjórnsemi í kórónuveirufaraldrinum?

„Faraldurinn hefur haft sín áhrif, jú. En ég held því miður að það sé rétt að stuðningur fólks við þessa stjórnsemi hafi aukist. Persónuvernd í Kína er nánast ekki til. Það má finna alls konar öpp sem eru með lélegar varnir, tæki og tólk frá fyrirtækjum til að fylgjast með fólki fyrir yfirvöld,“ segir Njål.

Georg Orwell mættur
Hann kallar Kína Paradís Orwells eftir framtíðarsögu George Orwell 1984. Sagan segir frá samfélagi sem er stýrt af stjórnmálaflokki, Flokknum, og þegnarnir eru undir stöðugu eftirliti hans.

Auk annarrar tölvutækniframleiðslu hafa Kínverjar á síðustu árum þróað öflugt kerfi sem greinir andlit. „Það er eins og þeir hafi lesið sinn Orwell býsna vel,“ segir Njål, „og hugsað með sér að þetta hafi nú aldeilis verið snjöll hugmynd.“ En hann bendir líka á að á Vesturlöndum sé einnig fylgst með starfsemi trúfélaga og hvernig menn tjái sig þar á bæ.

Í lokin bendir hann á að í sjálfu sér sé auðvelt að stofna trúfélag. En ætli menn hins vegar að njóta einhvers opinbers stuðnings, þá verði að undirgangast margs konar reglur og skilyrði.

Kirkjan.is sagði frá því hvar kristið fólk væri mest ofsótt í veröldinni. Kína er í 17. sæti þeirra landa sem ofsækja kristið fólk hvað mest. 

Vårt land/ Heidi Marie Lindekleiv/hsh


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Trúin

  • Erlend frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls