Viðtalið: Mörg járn í eldi
Hallgrímskirkja í Reykjavík hefur um áratuga skeið verið í forystuhlutverki í tónlistarlífi þjóðkirkjunnar og stundum verið kölluð flaggskip kirkjutónlistarinnar á Íslandi. Forveri Björn Steinars Sólbergssonar í starfi organista, Hörður Áskelsson, var þar frumkvöðull.
Þegar Hörður og Mótettukórinn létu af störfum í Hallgrímskirkju urðu ákveðin kaflaskil í sögu kirkjunnar.
Björn Steinar Sólbergsson er organisti og tónlistarstjóri Hallgrímskirkju og hefur þar forystu í öllum tónlistarmálum.
„Það er risavaxið verkefni og að mörgu sem þarf að hyggja,“ segir Björn Steinar þegar kirkjan.is ræðir við hann um tónleikahaldið og fleira í Hallgrímskirkju. Hann segist hafa lagt höfuðáherslu á að áfram yrðu tveir tónlistarmenn við kirkjuna, organisti og kórstjóri, eins og tíðkast víða við dómkirkjur og höfuðkirkjur.
„Hallgrímskirkja er þjóðarhelgidómur og hefur að mínu mati stóru hlutverki að gegna í menningarlífi þjóðkirkjunnar og landsins alls,“ segir Björn Steinar, „ég ber mikla virðingu fyrir arfleifðinni og þar er margt sem ég mun byggja á. Eðlilega verða þó breytingar með nýju fólki. Við endurskipulögðum fyrirkomulag tónleikahaldsins.“
Núna eru allir viðburðir undir merkjum Hallgrímskirkju og árinu skipt upp í fjögur tímabil: Aðventa og jól, Vetur og vor, Orgelsumar og Haust í Hallgrímskirkju. Guja Sandholt var verkefnaráðin sem tónleikastjóri til að sinna skipulagi og kynningu fyrir tónleika.
Björn Steinar sótti framhaldsmenntun sína til Frakklands. Þar er mikil saga og rík hefð sem hefur mótað hann og mun hafa áhrif á verkefnavalið.
Björn Steinar segir kirkjutónlistina vera óþrjótandi brunn sem kirkjan geti leitað í. „Þar ber fyrstan að nefna Johann Sebastian Bach og barokktímann,“ segir Björn Steinar. „Í því sambandi má nefna að við erum komin í samstarf við Barokkbandið Brák sem sérhæfir sig í flutningi barokktónlistar og snemmklassíkur. Brák kemur fram í messu og á tónleikum með Kór Hallgrímskirkju í vor, eða 22. maí nk.“
Tónleikaröðin Vetur og vor hófst 5. febrúar sl. með tónleikum Friðriks Vignis Stefánssonar og Ragnhildar Dóru Þórhallsdóttur. Tónleikarnir voru mjög vel sóttir, bæði af heimafólki og ferðamönnum sem fjölgar nú ört og eru þakklátir fyrir tónleikaframboðið í kirkjunni.
Á laugardaginn 5. mars kl. 12.00 leikur Steinar Logi Helgason á Klais-orgelið efnisskrá sem hann nefnir Föstutónar og Faðir vor.
Á sunnudaginn 6. mars kl. 17.00 heiðrar Cantoque ensemble Jón Nordal og vill með því fagna 95 ára afmæli tónskáldsins á sl. ár
Svo sannarlega má segja að Björn Steinar sé með mörg járn í eldinum þegar kemur að tónlistarlífinu í Hallgrímskirkju.
hsh