Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi

5. mars 2022

Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi

Sr. Svavar Stefánsson

Frestur til að skila inn framboðum til kirkjuþings rennur út 15. mars. Tilkynningu um framboð skal skilað inn ásamt fylgigögnum á netfangið: kirkjan@kirkjan.is 

Rafrænar kosningar fara svo fram nk. 12. maí - 17. maí.

Kirkjan.is mun á næstu dögum birta stutt viðtöl við fólk sem setið hefur á kirkjuþing og segir það frá reynslu sinni í stuttu máli.

Kirkjuþing er sterkur lýðræðislegur vettvangur í starfi kirkjunnar. Þau sem sitja á kirkjuþingi hafa ábyrgðarmikið hlutverk sem felst meðal annars í því að hafa vald á hendi, til dæmis í fjármálum kirkjunnar. Seta á kirkjuþingi kallar á heilindi, samviskusemi og ábyrgðartilfinningu.

Fólk sem setið hefur á kirkjuþingi hefur komið úr flestum ef ekki öllum starfsstéttum samfélagsins og unnið gott starf í þágu þjóðkirkjunnar. Karlar og konur, fólk til sjávar og sveitar, þéttbýli og dreifbýli. Fólk á öllum aldri. Þetta hefur sýnt breidd þjóðkirkjunnar og sveigjanleika sem er nauðsynlegur í því fjölbreytta samfélagi sem kirkjan er. 

Seta á kirkjuþingi er líka gefandi og ánægjulegt starf þar sem kirkjuþingsfulltrúar eiga gott samfélag og kynnast þjóðkirkjunni á nýjan hátt.

Sr. Svavar Stefánsson er fæddur í Reykjavík þann 14. mars 1949. Lauk stúdentsprófi frá MR 1969. Útskrifaðist vorið 1975 sem guðfræðingur. Lauk mastersprófi í guðfræði (sálgæslu og prédikunarfræði) í Bandaríkjunum vorið 1990.

Vígður sóknarprestur í Búðardal haustið 1975 en vorið 1976 veitt Norðfjarðarprestakall, Neskaupstað. Sóknarprestur í Þorlákshöfn 1991. Forstöðumaður Svæðisskrifstofu Vinnumálastofnunar á Selfossi 1998 til ársloka 2002. Sóknarprestur í Fellasókn í Reykjavík 2002 til 2016.

Gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í félagsmálum og kirkjumálum. Kirkjuþingsmaður í tvö kjörtímabil í prestsskapartíð sinni í Reykjavík. Hefur gegnt ýmsum nefndarstörfum fyrir Þjóðkirkjuna. Leitt stuðningshópa syrgjenda hjá Nýrri dögun í tvo áratugi.

Eiginkona Svavars er Auður B. Kristinsdóttir, sérkennari, og eiga þau þrjú börn.

Hvað er áhugaverðast við það að sitja á kirkjuþingi?
Það sem mér fannst áhugaverðast, var að kynnast betur hvernig öll löggjöf og starfsreglur kirkjunnar eru unnar og endurskoðaðar í nefndum og umræðum á kirkjuþingi og fá þannig að kynnast betur þessum grundvelli í starfi kirkjunnar. Það var áhugavert og fróðlegt.

Hvaða ráð myndir þú gefa þeim sem hafa áhuga á að bjóða sig fram til setu á kirkjuþingi?
Að kynna sér efni og efnistök mála síðustu kirkjuþinga og kynna fyrir sóknarfólki síns kjördæmis þær áherslur og skoðanir í þeim málum sem kirkjuna varðar og hlusta eftir skoðunum safnaðarfólks.

Hvað kom þér mest á óvart í störfum kirkjuþings?
Ég held að mér hafi komið á óvart hve umræður og nefndarfundir voru frjóir og sýndu mikinn áhuga kirkjuþingsfulltrúa á málefnum kirkjunnar. Einnig oft mikil hugmyndaauðgi um farsælt trúar- og kirkjustarf í stórum sem minni söfnuðum.

Hvernig fannst þér andrúmsloftið og samstarfsandinn hafa verið á kirkjuþingi?
Í flestum tilfellum var andrúmsloft jákvætt og uppbyggilegt þó stundum væru deildar meiningar og ólíkar áherslur eins og eðlilegt er. Kirkjuþingsfulltrúar kunnu að takast á um ólíkar skoðanir. En fulltrúar vildu flestir halda í heiðri að sýna góðan samstarfsanda.

Er eitthvað eitt sem stendur upp úr í minningunni frá tíma þínum á kirkjuþingi?
Sem sóknarpresti þá í fjölmennri sókn í Reykjavík, er mér minnisstætt hve dýrmætt það er að kynnast kirkju- og safnaðastarfi í ólíkum sóknum og héruðum um landið í umræðum á Kirkjuþingi. Þar eignaðist maður marga nýja vini og lærði betur að finna oft málamiðlanir.

hsh


  • Kirkjuþing

  • Samfélag

  • Skipulag

  • Þing

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls