Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi

10. mars 2022

Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi

Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni - mynd: Regína B. Þorsteinsdóttir

Frestur til að skila inn framboðum til kirkjuþings rennur út 15. mars. Tilkynningu um framboð skal skilað inn ásamt fylgigögnum á netfangið: kirkjan@kirkjan.is 

Rafrænar kosningar fara svo fram nk. 12. maí - 17. maí.

Kirkjan.is mun á næstu dögum birta stutt viðtöl við fólk sem setið hefur á kirkjuþing og segir það frá reynslu sinni í stuttu máli.

Kirkjuþing er sterkur lýðræðislegur vettvangur í starfi kirkjunnar. Þau sem sitja á kirkjuþingi hafa ábyrgðarmikið hlutverk sem felst meðal annars í því að hafa vald á hendi, til dæmis í fjármálum kirkjunnar. Seta á kirkjuþingi kallar á heilindi, samviskusemi og ábyrgðartilfinningu.

Fólk sem setið hefur á kirkjuþingi hefur komið úr flestum ef ekki öllum starfsstéttum samfélagsins og unnið gott starf í þágu þjóðkirkjunnar. Karlar og konur, fólk til sjávar og sveitar, þéttbýli og dreifbýli. Fólk á öllum aldri. Þetta hefur sýnt breidd þjóðkirkjunnar og sveigjanleika sem er nauðsynlegur í því fjölbreytta samfélagi sem kirkjan er. 

Seta á kirkjuþingi er líka gefandi og ánægjulegt starf þar sem kirkjuþingsfulltrúar eiga gott samfélag og kynnast þjóðkirkjunni á nýjan hátt.

Pétur B. Þorsteinsson lauk djáknanámi 1996 í Suður-Þýskalandi og starfaði þar sem æskulýðsfulltrúi í Vaihingen/Enz til ársins 2000. Þá réðist hann til Háteigskirkju sem fræðslufulltrúi. Síðan tóku við átta ár sem djákni í Lögmannshlíðarsókn (Glerárkirkju). Starfaði á þessum tíma m.a. í ýmsum nefndum um æskulýðsstarf í kirkjunni, var framkvæmdarstjóri Kirkjudaga 2005 og sat á tímabili í stjórn Djáknafélagsins. Hann kom inn á kirkjuþing sem varamaður og sat þar fram til búferlaflutnings til Þýskalands 2013. Hann starfaði í fimm ár sem djákni í prófastsdæminu Reutlingen að æskulýðsstarfi með sérstaka áherslu á alþjóðlegt æskulýðsstarf. Hin síðustu þrjú ár hefur hann verið verið framkvæmdastjóri „Hoffnung für Osteuropa“, hjá kærleiksþjónustu kirkjunnar (Diakonisches Werk Württemberg).

Hvað er áhugaverðast við það að sitja á kirkjuþingi?
Það að hafa tök á því að móta ásýnd, virkni og boðun kirkjunnar í teymi með fólki sem vill kirkjunni vel.

Hvaða ráð myndir þú gefa þeim sem hafa áhuga á að bjóða sig fram til setu á kirkjuþingi?
Fólkið sem kýs fulltrúana er fólk með góðar hugmyndir fyrir kirkjuna sem ber að taka alvarlega. Um leið væntir fólkið að þau sem bjóða sig fram séu með mótaðar hugmyndir um hvaða málefni eigi að vera í forgangi. Þess vegna er mikilvægt að sækja samtal við kjósendur, taka sér tíma til að átta sig á því hvaða brýr þurfi að byggja á milli hugmynda kjósenda og eigin forgangsverkefna. Ég er sem fyrr á þeirri skoðun að þau sem sitja á Kirkjuþingi beri fram málefnin sem brennur á vörum fólks heima í héraði. Og samtal eins og það sem ég nefni hér að framan er góð leið til þess að gera öllum ljóst að framboðið er ekki þáttur í eign framapoti, heldur heimahéraðinu til hagsbóta.

Hvað kom þér mest á óvart í störfum kirkjuþings?
Hversu fjölbreytt starfið er og hversu stórkostlegir möguleikarnir eru á að taka virkan þátt ef maður tekur sér tíma og vinnur sig inn í málin. Þá kynntist ég alveg nýjum hliðum á öðrum Kirkjuþingsfulltrúum og lærði að meta víðtæka þekkingu þeirra í sögulegu, lagalegu, guðfræðilegu og samfélagslegu samhengi.

Hvernig fannst þér andrúmsloftið og samstarfsandinn hafa verið á kirkjuþingi?
Á tíðum rafmagnaður, stundum aðeins of í anda heittrúarsamtaka þegar mér sjálfum eða öðrum brann málefnið of mikið fyrir brjósti en alla jafna mjög gott andrúmsloft, fólk viðræðugott og mikill áhugi á að skilja hin ýmsu sjónarhorn.

Er eitthvað eitt sem stendur upp úr í minningunni frá tíma þínum á kirkjuþingi?
Ég var heillaður af þeirri natni sem bakvarðarsveit Biskupsstofu lagði í alla umgjörð fundanna - sáu til þess að öll gögn lægju á réttum tíma fyrir og að sjálfsögðu að það væri mikill og góður matur. Ég var nú ekki óánægður með það.

hsh


  • Kirkjuþing

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Skipulag

  • Þing

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls