Friðarhugur í samstöðumessu fyrir Úkraínu

13. mars 2022

Friðarhugur í samstöðumessu fyrir Úkraínu

Forsetinn í Dómkirkjunni 13.mars/Óttar Geirsson mbl.is

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson flutti ávarp í samstöðumessu fyrir Úkraínu sem fram fór í Dómkirkjunni í dag, auk formanns félags Úkraínumanna á Íslandi, Lyubomyru Petruk.
Víða í kirkjum landsins tók helgihald safnaðanna mið af ástandi mála vegna stríðshörmunganna í Úkraínu og hefur þjóðkirkjufólk verið hvatt til að styðja með ráðum og dáð, en vissulega einnig með fjárframlögum það starf sem Hjálparstarf kirkjunnar sinnir nú þegar ásamt hjálparstofnunum systurkirkna okkar í gegnum ACT Alliance sem heldur úti öflugu starfi á vettvangi stríðsátakanna nú þegar.

Einfaldasta leiðin til þess er að senda SMS-skilaboðin HJALPARSTARF í símanúmerið 1900 til að leggja fram 2500 kr. framlag.  Einnig má finna allar helstu upplýsingar um margvíslegar leiðir til að styrkja hjálparstarf á svæðinu á heimasíðunni styrkja.is 

Í ávarpi sínu undirstrikaði forsetinn þá samstöðu og þann friðarhug sem Íslendingar vildu sýna, en skipulagning margskonar viðburða síðustu daga hefðu sýnt að ástand mála komi við þjóðarsálina með djúptækum hætti. „Við sitjum hér samstöðumessu með Úkraínu, með fólki þar sem hefur ekkert til saka unnið en sætir nú árásum og þarf að flýja heimili og heimaslóð,“ sagði Guðni en bætti því einnig við að mikilvægt væri að falla ekki í gryfju fordóma. „Við skulum líka hugsa hlýtt til þeirra Rússa nær og fjær sem vilja frið en ekki stríð og þá minnist ég rússnesks málsháttar sem ég lærði eitt sinn: Ekkert er dýrmætara í heimi hér en sönn vinátta.“ Lauk hann svo ræðu sinni með því að ávarpa þau sem þangað voru komin af úkraínsku bergi brotin, sérstaklega á úkraínsku. Ræðu forsetans má lesa í heild sinni hér. 

Lokaorð ávarps forsetans til Úkraínumanna
Шановні співгромадяни Ісландії, які мають українське коріння! Ми, ті хто живуть з вами на цьому острові, висловлюємо вам нашу підтримку у ці похмурі дні. Ми стоїмо пліч-о-пліч із усіма, хто шукає миру. Ми виступаємо на стороні всіх, хто мусить чинити опір агресору. Ми солідарні з усіма, хто хоче жити у вільному та демократичному суспільстві. Сподіваймося, що війна в Україні закінчиться. Також маємо надію, що наш прояв солідарності сприятиме справедливому розв’язанню ситуації.

 

Lokaorð forsetans til safnaðarins og gestanna voru áhrifamikil og endurspegla þá afstöðu sem almennir borgarar og þjóðkirkjufólk hafa til íbúa landsins með úkraínskar rætur sem og þess fólks á flótta sem viðbúið er að til landsins komi á næstu vikum. 

„Við þá íbúa Íslands, sem eiga rætur í Úkraínu, vil ég því segja að við samborgarar ykkar stöndum með ykkur á neyðarstundu. Við stöndum með öllum sem leita friðar. Við stöndum með þeim sem þurfa að verjast ofbeldi. Við stöndum með þeim sem vilja búa í frjálsu lýðræðissamfélagi. Við skulum eiga þá von að ófriðnum í Úkraínu ljúki senn og við skulum eiga þá von að samstaða okkar stuðli að réttlátum lyktum þar sem nú er barist og varist.“

Þess má geta að Biskup Íslands frú Agnes Sigurðardóttir hefur skipað starfshóp undir forystu presta Alþjóðlega safnaðarins til að undirbúa aðgerðir Þjóðkirkjunnar vegna stoðþjónustu við Úkraínumenn á flótta í samstarfi við aðra viðbragðsaðila í landinu. 

 

AM/ forseti.is


 

    hateigskirkja.jpg - mynd

    Samverustund syrgjenda á aðventunni

    13. nóv. 2024
    Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
    kirkjanisaugl.jpg - mynd

    Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

    12. nóv. 2024
    Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
    Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

    Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

    08. nóv. 2024
    ...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls