Kjósum á kirkjuþing: Þau hafa setið á kirkjuþingi
Frestur til að skila inn framboðum til kirkjuþings rennur út á miðnættti á morgun, þriðjudaginn 15. mars. Tilkynningu um framboð skal skilað inn ásamt fylgigögnum á netfangið: kirkjan@kirkjan.is
Rafrænar kosningar fara svo fram nk. 12. maí - 17. maí.
Kirkjan.is hefur undanfarið birt stutt viðtöl við fólk sem setið hefur á kirkjuþingi og segir það frá reynslu sinni. Þetta er sjöunda og síðasta viðtalið.
Fólk sem setið hefur á kirkjuþingi hefur komið úr flestum ef ekki öllum starfsstéttum samfélagsins og unnið gott starf í þágu þjóðkirkjunnar. Karlar og konur, fólk til sjávar og sveitar, þéttbýli og dreifbýli. Fólk á öllum aldri. Þetta hefur sýnt breidd þjóðkirkjunnar og sveigjanleika sem er nauðsynlegur í því fjölbreytta samfélagi sem kirkjan er.
Seta á kirkjuþingi er líka gefandi og ánægjulegt starf þar sem kirkjuþingsfulltrúar eiga gott samfélag og kynnast þjóðkirkjunni á nýjan hátt.
Það er dýrmætt að kynnast góðu kirkjufólki víða að á landinu og fá heildaryfirsýn um málefni kirkjunnar, sögu hennar og sambands hennar við ríkið sem er ótrúalega margþætt. Maður kynnist líka veikleikum okkar kirkju og það kom vel í ljós eins og leitt var fram af nefnd um valdmörk að stjórnkerfi hennar var af því tagi að henni varð ekki stjórnað nema með samkomulagi. Biskupar, kirkjuráð og kirkjuþing þurftu að vera sammála og samstiga til þess að mál næðu fram að ganga og þetta var óspart nýtt til að tefja, flækja eða ónýta mál. Afleiðingin var meðal annars sú að leitað var málamiðlana um mál sem alls ekki er hægt að miðla málum um. Þannig eru starfsreglur um val og veitingu prestsembætta til umræðu á hverju kirkjuþingi vegna þess að þar er verið að reyna að sætta andstæður sem ógerlegt er að sætta. Annaðhvort eru prestar kjörnir eða skipaðir í samræmi við menntun og reynslu. Allar tilraunir til þess að gera hvoru tveggja eru dæmdar til að mistakast og hafa allar gert það. Samt halda menn áfram að reyna sem er kannski fallegt en setur líka stórt spurningarmerki við prestakvótann á kirkjuþingi. Er eðlilegt að kvótaprestar séu að taka þátt í ákvörðunum sem snerta starfskjör þeirra og ráðningu? Nei, auðvitað ekki. Af hverju eru þeir ekki bara kjörgengir á kirkjuþing eins og við hin sem störfum í kirkjunni og undirsettir almennum hæfisreglum?
Hvaða ráð myndir þú gefa þeim sem hafa áhuga á að bjóða sig fram til setu á kirkjuþingi?
Þau þurfa að átta sig á því að vatnaskil hafa orðið. Kirkjuþing hefur nú fjárveitingarvaldið og spilar úr þeim fjármunum sem kirkjujarðasamkomulagið tryggir árlega og eignaávöxtun ef einhver er. Prestar eru ekki lengur embættismenn hjá hinu opinbera heldur starfsfólk sjálfstæðs trúfélags sem enn hefur þó skyldur gagnvart almenningi um allt land: Þetta er gjörbreyting og þeir sem bjóða sig fram þurfa að hugsa vel um það að hverskonar kirkju er rétt að stefna í nútímanum. Allt regluverkið þarf að einfalda og endurskoða og halda rekstrinum innan fjárhagsmarka. Þetta er risavaxið verkefni og við þurfum öflugt, gott og áhugasamt fólk á kirkjuþing.
Hvað kom þér mest á óvart í störfum kirkjuþings?
Mér kom mest á óvart þegar sá vandaði íhaldsmaður Pétur Kr. Hafstein lagði sem forseti kirkjuþings grunninn að nýrri rammalöggjöf um kirkjuna og setti fram tillögur um lýðræðisvæðingu hennar. Hvort tveggja markaði tímamót en kirkjuþing varði síðan tíu árum í að útvatna lýðræðishugmyndirnar og reyna að tryggja að sem flestir embættismenn innan hennar hefðu lagastoð fyrir sinni stöðu. Þarna tapaðist tíminn og möguleikarnir til þess að ráða ferðinni. Niðurstaðan varð því sú að kirkjan varð að taka við því sem að henni var rétt af ríkisvaldinu.
Hvernig fannst þér andrúmsloftið og samstarfsandinn hafa verið á kirkjuþingi?
Það var upp á ofan og oft undirliggjandi togstreyta og persónulegar væringar eins og gengur á þingum. Mér varð vel til vina á kirkjuþingi og á fyrst og fremst minningar þaðan um góðar stundir og glaðvær samtöl.
Er eitthvað eitt sem stendur upp úr í minningunni frá tíma þínum á kirkjuþingi?
Já, það eru sárindin yfir því hvernig ríkisstjórn sem ég studdi kom fram við kirkjuna eftir bankahrunið. Kirkjan hafði ekki látið glepjast af tilboðum um kúlulán og fjármálasnúninga og hún stóð því vel eftir hrunið og sóknirnar nutu góðs af sóknargjöldum sem voru samkvæmt lögum miðuð við þróun skattstofns almennings. Í góðæri áttu söfnuðir að njóta góðs af bættri afkomu almennings og í niðursveiflu að þola niðurskurð. Fjármálaráðuneytið sá ofsjónum yfir þessari stöðu kirkjunnar og síðan hefur Alþingi sett upphæð sóknargjalda út fyrir sviga á hverju ári að tillögu þess um leið og skorið var niður hjá kirkjunni inn að beini. Þetta var valdsmennska og nauðung sem var erfitt að þola. Líklega hefðum við átt að fara á hausinn í bankahruninu, þá hefði kirkjan hugsanlega sloppið við refsingar vegna ábyrgrar fjármálastjórnar. Það var erfitt verk að vera í fjárhagsnefnd og fjármálahópi kirkjuráðs eftir hrunið. Ég býst við að hið sama sé upp á teningnum nú þegar glíma þarf við nýjan og snúinn veruleika í fjárhagsmálum Þjóðkirkjunnar/Biskupsstofu.
hsh