Viðtalið: Kirkjumyndasmiðurinn

15. mars 2022

Viðtalið: Kirkjumyndasmiðurinn

Rüdiger Þór Seidenfaden, sjónfræðingur, með bækurnar góðu - mynd: hsh

Í öllum þorpum og bæjum eru kirkjur alla jafna áberandi hús í götumyndinni. Þær standa oft hátt og eru vegleg hús og vel við haldið. Sómi síns byggðarlags og íbúar stoltir af kirkjuhúsum sínum. Enda margar minningar tengdar þeim, í gleði og sorg, og oft í marga ættliði.

Svo eru sveitakirkjurnar, stórar og litlar, sem standa sumar einar – og sumar fjarri allri byggð – en aðrar við hlið sveitabæja. Kirkjugarður umhverfis. Eins og öflugt kennileiti í náttúrunni.

Það eru margir sem hafa áhuga á því að taka myndir af kirkjum. Þær eru minningar frá þeim stöðum sem menn sækja heim og oft fegurstu húsin í hverju samfélagi full af menningu og sögu.

Þau eru ekki mörg sem eiga myndir af öllum kirkjum landsins.

En það á Rüdiger Þór Seidenfaden, sjónfræðingur.

Hvernig stendur á því að þessi maður sem kom árið 1981 til Íslands frá Hannover í Þýskalandi með sveinspróf í sínum fræðum, tók sér fyrir hendur að mynda allar kirkjur landsins og meira til?

Kirkjan.is ræddi við hann fyrir nokkru í gleraugnabúð hans við Laugaveg 65 í Reykjavík. Hann festi rætur hér og íslensk náttúra heillar hann.

Rüdiger er hress maður viðræðu, brennur af áhuga fyrir ljósmyndaiðju sinni og hefur gefið út þrjár stórar og veglegar bækur með myndum af öllum kirkjum Íslands.

Margir hafa aðstoðað

„Þegar ljósið komið yfir mig,“ segir Rüdiger fullur af krafti þegar spurt er hvenær hann hafi byrjað á þessu verki sínu og af hverju. Hann bætir við og er skýrmæltur: „17. desember 2010 fékk ég hjartaáfall og var ráðlagt að dreifa huganum.“ Þá kom þessi hugmynd upp hjá Rüdiger að taka myndir af öllum kirkjum Íslands. Það verkefni tók nokkur ár. Hann fór um allt land, um landveg og sjóveg og kona hans, Ingileif Jónsdóttir Seidenfaden, stóð þétt við bak hans.

Ýmis farartæki voru notuð eins og hestar, jeppar og bátar – svo þurfti náttúrulega að ganga.

Síðan raðaði hann myndunum í fyrstu bókina og byrjaði réttsælis með sama hætti og kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá 1198 en þar var Skeggjastaðakirkja efst á blaði. Þetta ráðlagði góður vinur Rüdigers, dr. Gunnar Kristjánsson, fyrrum prófastur á Reynivöllum í Kjós.

En það eru fleiri sem hafa rétt Rüdiger hjálparhönd. Bragi Kristjónsson, bóksali, er þjóðkunnur maður. „Ég þekki hann vel og hann kaupir gleraugu hjá mér, auðvitað!“ segir Rüdiger glaður á svip og kíminn. „Ég spurði hann hvort til væri bók með myndum af öllum kirkjum Íslands.“ Bragi svaraði að bragði neitandi. Rüdiger varð dálítið vonsvikinn þegar hann heyrði þetta afdráttarlausa svar. En Bragi var ekki búinn: „Pabbi og mamma fóru um landið 1953-1957 um allt landið, og hringvegurinn þá ekki kominn! - og tóku myndir af öllum kirkjum.“ Og hann bætti því við að þar sem Rüdiger sýndi þessu svona mikinn áhuga þá væri það upplagt að hann fengi afnot af þeim. Móðir hans hefði gefið myndirnar til Dómkirkjunnar í Reykjavík. Síðan kom sr. Þórir Stephensen með bækurnar til Rüdigers, „Hann gifti okkur hjónin í Dómkirkjunni á síðustu öld,“ segir Rüdiger sæll á svip. Sr. Þórir hefur verið honum innanhandar um margt í þessu.

Nýjar og gamlar myndir

Í kirkjumyndabókum Rüdigers eru sem sé ekki aðeins myndir hans sjálfs heldur og þessar eldri myndir sem hjónin Elísabet Engilráð Ísleifsdóttir og Kristjón Kristjónsson, tóku. Þannig er hægt að bera saman gamlar og nýjar myndir af kirkjum og eykur gildi bókanna enn frekar. Eldri myndirnar eru svart hvítar.

Hvað vekur mesta athygli þegar myndirnar hans Rüdigers eru bornar saman við þær svarthvítu frá Engilráð og Kristjóni?

„Fyrst gróðurfar,“ svarar Rüdiger, „það er allt annað og svo eru skorsteinar á kirkjunum á gömlu myndunum sem eru horfnir á þeim nýju.“ Hann segir að ekki hafi verið hægt að taka sums staðar myndir af kirkjunum frá sama sjónarhorni og þær gömlu voru teknar því að gróðurinn hafði vaxið svo ótrúlega mikið. Hann nefnir sem dæmi Hof í Vopnafirði.

Íslenskar kirkjur fyrr og nú, heita bækur Rüdigers. Bækurnar eru til sölu í verslun hans, Gleraugnasölunni að Laugavegi 65, hann áritar þær ef kaupendur óska þess. Þær eru til dæmis tilvaldar sem gjafir á merkum tímamótum í lífi fólks og stofnana. Bækurnar eru prentaðar í Bretlandi. Þetta er hugsjónastarf og engin álagning af hálfu hans – og upplagið er lítið í senn. Ekki bara einstaklingar hafa keypt þær heldur og fyrirtæki, til dæmis hótel. „Flestar bækur fóru til Bern í Sviss, þeir segja að þær séu svo mikil landkynning,“ segir Rüdiger. Við kirkjumyndirnar er eingöngu texti á íslensku sem segir til um hver kirkjan sé og sitthvað fleira. Rüdiger leggur áherslu á að þetta séu ljósmyndabækur.

Menningarverðmæti

Hann leggur mikla áherslu á að kirkjurnar séu menningarverðmæti og hver og ein þeirra segi sína sögu: „Bænhúsið á Núpstað er í mínum huga ekki minna virði en Péturskirkjan í Róm,“ segir Rüdiger. Hann bætir við með þungri áherslu eftir smá umhugsun: „Það er menningarleg skylda okkar Íslendinga að sjá til þess að vernda þessar minjar með öllum tiltækum hætti.“

En Rüdiger er ekki af baki dottinn þegar kirkjumyndabækurnar eru annars vegar. Hann segist eiga nóg efni í fjórðu bókina sem myndi fjalla um horfnar kirkjur. Kirkjur og bænhús voru víða um land og enn sjást merki um margar þeirra þó þær séu fyrir löngu horfnar í jörðu. Kirkjugarðar standa og segja sína sögu.

Rüdiger tekur skýrt fram að í bókum hans séu ekki myndir af einkakirkjum sem margir hafa reist á sumarbústaðalöndum sínum. Þó á hann myndir af þeim öllum.

Margt hefur komið fyrir Rüdiger á þessu mikla kirkjuferðalagi hans. „Sagan er endalaus,“ segir hann og slær sér á lær.

Á stíminu út í Papey var mikil undiralda en það náðist að koma í eyjuna. Þegar aftur var komið í land heyrði Rüdiger skipstjórann segja: „Þetta var nú á tæpasta vaði!“ Siglingin tók eina og álfa klukkustund. Með í ferðinni voru erlendir ferðamenn en þeir skildu auðvitað ekki neitt það sem skipstjórinn sagði. Sem betur fer.

Hann segir frá siglingu sinni til Grunnavíkur til að taka mynd af kirkjunni þar. Honum hafði verði afhentur lykill og skrúfjárn til að opna. Þegar komið var á staðinn reyndist hann ekki vera með rétt skrúfjárn í höndunum og varð að bíða heilan dag á staðnum. Þegar hann ætlaði að mynda Staðarkirkju í Aðalvík, Sléttuhreppi, var slæmt í sjóinn svo ekkert varð úr þeirri ferð. Þetta var eina kirkjan sem hann hafði ekki myndað – og litmynd af þeirri kirkju í einni bóka hans er sú eina sem hann hefur ekki tekið. Nokkru síðar boðaði Ferðafélag Íslands til sérstakrar ferðar í Staðarkirkju svo að Rüdiger gæti myndað hana. Og að sjálfsögðu varð hann hinn glaðasti og myndaði kirkjuna í hólf og gólf. Þessi ferð var gerð honum til heiðurs og hann afar þakklátur fyrir það.

Þannig er saga þessa glaðlega og hressilega manns, sjónfræðingsins, við Laugaveg í Reykjavík. Sjónfræðingsins sem fékk snemma áhuga á Íslandi, fylgdist með Surtseyjargosinu 1963 og þá ekki orðinn tíu ára, og líka Heimaeyjargosinu tíu árum síðar, 1973; hann hafði mikinn áhuga á landafræði og jarðfræði.

Rüdiger á sem sé elstu starfandi gleraugnaverslun landsins. Kom hingað fyrir vissa tilviljun að loknu sveinsprófi í sinni grein og þáverandi eigandi Gleraugnasölunnar sá strax að Rüdiger vissi og kunni meira í greininni en aðrir ungir menn. Vildi framlengja dvöl hans sem Rüdiger féllst á. Kona Rüdigers var verslunarstjóri í búðinni og hann fór því ekki langt að sækja sér konuefnið.

„Ég þurfti ekki að deyja til að upplifa Paradís á jörðu,“ segir Rüdiger Þór í lokin. „Það er mín skoðun í stuttu máli á Íslandi, og þarf ekki neinu við hana að bæta.“

hsh


Gleraugnasalan á Laugavegi 65 er elsta starfandi glerlaugnaverslun á landinu, stofnuð 1961


  • Kirkjustaðir

  • Menning

  • Samfélag

  • Frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls