Fermingarbörn og friðarmessa

26. mars 2022

Fermingarbörn og friðarmessa

Spottar í fánalitum Úkraínu verða bundnir við trjágreinarnar í friðarmessunni í Hafnarfjarðarkirkju á morgun - mynd: Bylgja Dís Gunnarsdóttir

„Er þetta venjuleg messa þó hún kallist friðarmessa?“ spyr kirkjan.is Bylgju Dís Gunnarsdóttur, í stuttu spjalli um guðsþjónustu helgarinnar hjá þeim í Hafnarfjarðarkirkju. Hún er fræðslu- og æskulýðsfulltrúi kirkjunnar. „Þetta er messa með hefðbundnu sniði,“ svarar hún að bragði, „þó ekki altarisganga – en messuliðir sígildir eins og miskunnarbæn, kollekta, guðspjall o.s.frv.“

Bylgja Dís segir að öllum fermingarbörnum sé boðið að taka þátt í messunni sem hefst kl. 11.00. „Svo munu fimmtán börn sjá um um vöfflubakstur og sölu ásamt nokkrum foreldrum,“ fræðir hún tíðindamann kirkjunnar.is. Ágóði af vöfflusölunni rennur til hjálparstarfs í Úkraínu. 

Allir eru af vilja gerðir til að styðja við bakið á góðu málefni. Þannig gaf til dæmis eitt foreldrið hveiti í vöfflurnar en það vinnur hjá Kornaxi. „Krakkarnir eru spenntir að fá að láta gott af sér leiða, við stöndum öll vanmáttug gagnvart ástandinu og börnin gera það líka og njóta þess að fá hlutverk og gefa af sér. Okkur finnst uppeldislega mjög mikilvægt að bjóða fermingarbörnunum upp á að taka þátt í söfnun fyrir hjálparstarfi,“ segir Bylgja Dís.
Þátttaka í guðsþjónustunni felst meðal annars í því að sögn Bylgju Dísar að fermingarbörnin túlka bæn sína, samkennd og samstöðu með þeim sem búa við eða flýja stríðsátök í Úkraínu með því að tendra ljós eða skreyta nokkrar trjágreinar með litum úkraínska þjóðarfánans. Meðan trjágreinarnar eru skreyttar mun söngfólk kirkjunnar ásamt organistanum, Guðmundi Sigurðssyni, flytja tónlist frá Úkraínu. Lestrar og guðspjallið mun tengjast friðarboðskap Biblíunnar.

„Þessi bænatré munu síðan prýða safnaðarheimilið fram yfir fermingar og minna okkur öll á að biðja fyrir friði og hafa Úkraínumenn í bænum okkar áfram,“ segir Bylgja Dís. „Blái liturinn í fánanum táknar heiðan himininn og hinn guli táknar hveitiakrana sem einkenna landið.“ Bylgja Dís bendir á að blái liturinn sé einnig litur trúarinnar og sá guli litur gleðinnar. „Þannig geta litirnir einnig innblásið bænir okkar,“ segir hún, „heiðan himin yfir fólkinu sem þar býr og uppvöxt aftur í samfélaginu, styrktu trú okkar o.s.frv. Trjágreinarnar tákna líf, vöxt og von.“

Bylgja Dís segir að fermingarbörnin í Hafnarfjarðarkirkju séu um áttatíu. Tæplega 80 börn eru í fermingarfræðslu í Hafnarfjarðarkirkju. Fermingarfræðslan fer fram í litlum hópum og börnin nota AHA-kennsluefnið en þá læra börnin um tilfinningalæsi, styrkleika og gildi í gegnum bæði Biblíusögur og sögur úr samtímanum. „Þetta kennsluefni bíður upp á umræður og hópvinnu og hefur gefist einstaklega vel,“ segir Bylgja Dís. „Við kennum þeim einnig að fletta upp í Nýja testamentinu og förum mikið í skemmtilega leiki og að sjálfsögðu bjóðum við þeim í Vatnaskóg.“ Fyrir nokkru var síðasti fermingarfræðslutíminn og þá var farið í Kahoot-spurningarkeppni og allir fengu páskaegg að launum og í kveðjugjöf. „Þetta var fjörug og skemmtileg stund og góð upprifjun á því sem við höfum lært í vetur,“ segir Bylgja Dís.

„Æskulýðsstarfið gengur vel hjá okkur,“ segir Bylgja Dís, „við settum mikinn metnað í fermingarfræðsluna og sunnudagaskólann. Einnig höfum við verið með öflugt starf fyrir 10-12 ára börn en það lá reyndar niðri í vetur. Við erum síðan einnig með öfluga Barna- og unglingakóra.“

Presturinn sem þjónar í friðarguðsþjónustunni er sr. Sigurður Kr. Sigurðsson, og organisti er Guðmundur Sigurðsson. Félagar úr Barbörukórnum flytja tónlist frá Úkraínu. Ræðumaður dagsins er Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.

Feisbókarsíða Hafnarfjarðarkirkju. 

hsh


  • Frétt

  • Hjálparstarf

  • Menning

  • Messa

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls