Fermingarbörn og friðarmessa
„Er þetta venjuleg messa þó hún kallist friðarmessa?“ spyr kirkjan.is Bylgju Dís Gunnarsdóttur, í stuttu spjalli um guðsþjónustu helgarinnar hjá þeim í Hafnarfjarðarkirkju. Hún er fræðslu- og æskulýðsfulltrúi kirkjunnar. „Þetta er messa með hefðbundnu sniði,“ svarar hún að bragði, „þó ekki altarisganga – en messuliðir sígildir eins og miskunnarbæn, kollekta, guðspjall o.s.frv.“
Bylgja Dís segir að öllum fermingarbörnum sé boðið að taka þátt í messunni sem hefst kl. 11.00. „Svo munu fimmtán börn sjá um um vöfflubakstur og sölu ásamt nokkrum foreldrum,“ fræðir hún tíðindamann kirkjunnar.is. Ágóði af vöfflusölunni rennur til hjálparstarfs í Úkraínu.
Bylgja Dís segir að fermingarbörnin í Hafnarfjarðarkirkju séu um áttatíu. Tæplega 80 börn eru í fermingarfræðslu í Hafnarfjarðarkirkju. Fermingarfræðslan fer fram í litlum hópum og börnin nota AHA-kennsluefnið en þá læra börnin um tilfinningalæsi, styrkleika og gildi í gegnum bæði Biblíusögur og sögur úr samtímanum. „Þetta kennsluefni bíður upp á umræður og hópvinnu og hefur gefist einstaklega vel,“ segir Bylgja Dís. „Við kennum þeim einnig að fletta upp í Nýja testamentinu og förum mikið í skemmtilega leiki og að sjálfsögðu bjóðum við þeim í Vatnaskóg.“ Fyrir nokkru var síðasti fermingarfræðslutíminn og þá var farið í Kahoot-spurningarkeppni og allir fengu páskaegg að launum og í kveðjugjöf. „Þetta var fjörug og skemmtileg stund og góð upprifjun á því sem við höfum lært í vetur,“ segir Bylgja Dís.
„Æskulýðsstarfið gengur vel hjá okkur,“ segir Bylgja Dís, „við settum mikinn metnað í fermingarfræðsluna og sunnudagaskólann. Einnig höfum við verið með öflugt starf fyrir 10-12 ára börn en það lá reyndar niðri í vetur. Við erum síðan einnig með öfluga Barna- og unglingakóra.“
Presturinn sem þjónar í friðarguðsþjónustunni er sr. Sigurður Kr. Sigurðsson, og organisti er Guðmundur Sigurðsson. Félagar úr Barbörukórnum flytja tónlist frá Úkraínu. Ræðumaður dagsins er Bjarni Gíslason, framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar.
Feisbókarsíða Hafnarfjarðarkirkju.
hsh