Bjartsýn við ysta haf
Öll hús þurfa viðhald. Kirkjur eru þar engin undantekning.
Þórshafnarkirkja á Langanesi tók að rísa úr jörðu 1995 og var vígð 1999. Það var stór stund er þessi fyrsta kirkja reis á Þórshöfn. Hún tekur 160 manns í sæti í kirkjuskipi og á jarðhæð er safnaðarheimili og skrifstofa prestsins. Aðstaða í kirkjustarfi er sem sé prýðileg.
Kirkjan.is hefur tekið eftir því að presturinn á Þórshöfn, Skinnastaða- og Langanesprestakalli í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi, sr. Jarþrúður Árnadóttir, hefur birt myndir á Feisbók af framkvæmdum við kirkjuna. Það var fullt tilefni til að spyrja prestinn út í málin og kirkjustarf við ysta haf.
Fyrsta spurningin var einfaldlega: Hvað er verið að gera við kirkjuna?
„Það er verið að gera við þakið og þetta eru talsvert viðamiklar framkvæmdir,“ svarar sr. Jarþrúður, „við höfum verið að glíma við lekavanda í kirkjunni og hún liggur undir miklum skemmdum. Flætt hefur inn í hana bæði frá turninum og niður í kjallara. Veggir eru mjög rakaskemmdir og parket mjög illa farið í safnaðarheimili.“
Kirkjustarfið
Sr. Jarþrúður segir að kirkjustarfið hafi gengið vel fyrir sig fyrir sig að janúarmánuði undanskildum. „Eitthvað um að vera í kirkjunni í hverri viku,“ segir hún, „barnastarf fyrir 6-9 ára og Tíu til tólf ára í hverri viku. Foreldramorgnar eru líka vikulega. Og sunnudagaskóli annan hvern sunnudag.“
Fermingarfræðslan hefur sömuleiðis gengið vel fyrir sig. Það eru fimm fermingardrengir og þeir munu fermast 17. og 18. júní.
Þá eru kyrrðar- og fyrirbænastundir í hverri viku og hefur myndast góður hópur í kringum það starf
„Ég fer í vikulegar heimsóknir í leikskólann, svona samverustundir,“ segir sr. Jarþrúður. Eins fer hún í hverri viku á dvalar- og hjúkrunarheimilið Naust og hefur þar um hönd samverustund. Helgistundir hafi verið fáar vegna kóvíds og færðar en allt standi það til bóta. „Þó náðum við guðsþjónustu saman um daginn, 27. mars en þar þjónuðum við, ég og prófasturinn, sr. Jón Ármann Gíslason á Skinnastað.“ Í guðsþjónustunni lék Jón Gunnþórsson á harmónikku tvo sálma og eitt lag eftir hann sjálfan og annað erlent. Sr. Jarþrúður sá um sönginn.
Tónlistarstarfið
Sr. Jarþrúður segir að Jón Gunnþórsson sé í kirkjukór Langanesprestakalls og sé 83 ára gamall. „Við urðum fljótlega vinir og byrjuðum að syngja og spila saman og svo ákváðum við að nýta tónlistina í messu, því hann er duglegur að semja sín eigin lög og við gamla texta - er mjög fær á harmónikkunni,“ segir sr. Jarþrúður en myndskeið af þeim á Feisbók þar sem hann leikur á nikkuna og hún syngur hafa vakið athygli fyrir einlægni og hæversku – og þar sem kynslóðabilið er brúað með glæsibrag.
Þórshöfn er eins og margur annar staður á landinu að það vantar karla í kirkjukórinn og auk þess þurfi fleira yngra fólk í kórinn. „En það kemur,“ segir sr. Jarþrúður full bjartsýni. Þau hafa verið heppin með tónlistarkennara sem hafa getað hlaupið undir bagga með undirspil í kirkjunni þó þeir hafi ekki verið menntaðir í orgelleik og kórstjórn. Allt hafi þetta gengið furðu vel og eru þau þakklát fyrir.
Sr. Jarþrúður er bjartsýn kona og jákvæð og hefur staðið kirkjuvaktina á Þórshöfn á þriðja ár.
hsh
Framkvæmdir við Þórshafnarkirkju
Sr. Jarþrúður fræðir börnin í sunnudagaskólanum
Sr. Jón Ármann Gíslason, prófastur, og sr. Jarþrúður Árnadóttir
Falleg yfirlitsmynd úr Þórshafnarkirkju