Erlend frétt: Umhverfismálin

5. apríl 2022

Erlend frétt: Umhverfismálin

Frá mótmælunum í Birmingham -mynd: Church Times

Anglíkanskir prestar á Englandi og fólk úr kristnum trúfélögum ásamt öðrum hafa gripið til sinna ráða gegn loftslagsvandanum. Það eru hóparnir Hættið að nota olíu og Kristnir loftslagsaðgerðarsinnar sem standa að þessum aðgerðum.

Um síðustu helgi fóru félagar úr þessum hópum að birgðastöðvum olíufyrirtækja nálægt Birmingham og London og komu í veg fyrir að olíubílar kæmust leiðar sinnar. Mótmæli voru einnig í Kingsbury nálægt Coventry. Fólkið sest fyrir framan olíuflutningabílana og hreyfir sig hvergi. Margir klifra upp á bíla og koma sér þar kyrfilega fyrir.

Lögreglan handtók 200 manns í þessum aðgerðum olíuandstæðinga.

Stór orð eru höfð uppi og sagði sr. Mark Colman að olían væri að drepa fólkið. „Það er tími kominn til að við bindum enda á notkun hennar. Við erum of háð henni. Venjulegt fólk í söfnuðum okkar þjáist vegna þess að olían er líka undirrót verðbólgu.“

Mótmælendur segja að loftslagshlýnun haldi áfram og þrátt fyrir aðvaranir vísindamanna sem segja heiminn fara yfir öll mörk sem þjóðirnar eru búnar að sammælast um. Þá er kallað eftir því að notkun jarðefnaeldsneytis (olía, gas og kol) verði hætt með öllu.

Sr. Helen Burnett, sagði að í samanburði við skelfilegar blóðsúthellingar í Úkraínu þá gæti baráttan gegn hækkun hitastigs jarðar litið út fyrir að vera fremur léttvæg. „En alvaran blasir svo sannarlega við okkur. Það er barátta allra þeirra sem eru í fremstu víglínu loftslagsvárinnar, sérstaklega börnin okkar og unga fólkið, og meirihluti heimsins í suðrinu.“

Einn mótmælendanna, Neil Rothnie, eftirlaunaþegi sem vann áður hjá olíufyrirtæki, segir að aðeins eitt sé í fyrirrúmi hjá olíu- og gasiðnaðinum, og það sé ekki loftslagsváin. Ekki heldur umhyggja fyrir verkafólki sem vinnur við olíu- og gasvinnslu í Norðursjónum heldur: „Þeir stefna á meiri framleiðslu á olíu og gasi í Norðursjónum og hirða ekkert um afleiðingar þess fyrir loftslag eða efnahag.“ Stjórnvöld verði að ná tökum á þessum vanda og stöðva notkun á olíu.

Mótmælendur vitna gjarnan til dr. Faith Birol, framkvæmdastjóra Alþjóðlegu orkumálastofnunar, sem sagði í fyrra: „Ef stjórnvöld ætla að taka á loftslagsvandanum af alvöru þá verða engar nýja fjárfestingar í sambandi við olíu, gas og kol, frá og með þessu ári.“

„Engin trú á jarðefnaeldsneyti,“ stóð á breiðum auglýsingaborða fyrir utan kirkju eina í Lougborough og sagði sr. Emily Sharman, sem er meðlimur í Kristnir loftslagsaðgerðarsinnar að kristið fólk væri oft kallað til að gera eitt og annað fyrir utan þægindarammann í nafni Guðs. „Eitt það fyrsta sem er nefnt í Biblíunni er sköpunin og þessi borði hefur þau skýru skilaboð að hér erum til að vernda það sem Guð hefur skapað.“

Á sumum stöðum hafa hjólreiðamenn farið um í hópum til að hvetja anglíkönsku kirkjuna til að hætta að fjárfesta í jarðefnaeldsneytisvinnslu. Einn skipuleggjanda hjólreiðamótmælanna, Jim Green, segist hafa orðið fyrir miklum áhrifum frá loftslagsráðstefnunni í Glasgow í fyrra og það væri mikilvægt að kirkjurnar sýndu forystu í loftslagsbaráttunni. „Á síðasta ári undirritaði biskupafundur Suður-Afrískra biskupa skýra yfirlýsingu þar sem kallað er eftir tafarlausum aðgerðum gegn notkun jarðefnaeldsneytis. Notkun þess hefur hörmuleg áhrif þvert yfir alla Afríku.“

Þá samþykkti biskupsdæmið í Norwich að kirkjan skyldi hætta fjárfestingum í fyrirtækjum sem standa fyrir jarðefnaeldsneytisvinnslu og hvatti aðra til að feta í fótspor þess.
Frekari mótmæli eru fyrirhuguð um næstu helgi í Hyde Park í London.

Church Times/hsh

Þjóðkirkjan og umhverfismálin:

Umhverfisstefna þjóðkirkjunnar
Lýsa ber yfir viðbragðsástandi í loftslagsmálum
Orkuskipti í samgöngumálum á vegum starfsfólks kirkjunar
Umhirða jarða þjóðkirkjunnar
Handbók um umhverfismál í þjóðkirkjunni
Grænn söfnuður


  • Frétt

  • Menning

  • Samfélag

  • Umhverfismál

  • Umhverfismál og kirkja

  • Erlend frétt

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls