Erlend frétt: Kirkjan og flóttafólkið frá Úkraínu

6. apríl 2022

Erlend frétt: Kirkjan og flóttafólkið frá Úkraínu

Flóttafólk frá Úkraínu í Berlín - mynd: Church Times

Fjölmargir söfnuðir þjóðkirkjunnar hafa haldið samtöðumessur fyrir Úkraínu og safnað fé fyrir flóttafólkið. Hjálparstarf kirkjunnar hefur sett af stað neyðarsöfnun. Samstarfshópur þjóðkirkjunnar um málefni flóttafólksins hefur verið skipaður en í honum eru þau sr. Toshiki Toma, sr. Ása Laufey Sæmundsdóttir og sr. Eva Björk Valdimarsdóttir. Þá hefur þjóðkirkjan lagt sitt af mörkum með rekstur á leikskóla fyrir börn flóttafólksins en hann er í húsnæði Hvítasunnukirkjunnar, Fíladelfíu.

Margar kirkjur búa vel hvað húsnæði snertir. Kirkjurnar eru rúmgóðar og safnaðarheimilin mörg hver býsna stór og vel útbúin. Þetta á bæði við hér á Íslandi og víðar.

Margir söfnuðir í Berlín hafa skotið skjólshúsi yfir úkraínska flóttamenn. Um 1500 flóttamenn dveljast í safnaðarheimilum, kirkjum og öðru húsnæði á vegum þeirra. Önnur safnaðarheimili hafa verið notuð sem dagsetur fyrir flóttafólkið og því boðið upp á margs konar afþreyingu og tilbreytingu.

Skipulagið er með þeim hætti að sjálfboðaliðar í nágrenninu koma til hjálpar, elda mat og sjá um börn og liðsinna konunum.

Þau eru öll dýrmæt
„Enginn er er skilinn eftir,“ segir dr. Christina-Maria Bammel, prófastur evangelísk-þýsku kirkjunnar í Berlín-Brandenburg. Hún hvetur fleiri söfnuði til að opna dyr sínar.

Fjöldi flóttamanna frá Úkraínu hefur streymt til Berlínar og þess vegna hefur verið gripið til þessa ráðs að kalla til sjálfboðaliða og kirkjuleg samtök.

Samtökin Caritas og Karmelítanunnur hafa til dæmis breytt gömlu umönnunarheimili í flóttamannabúðir sem taka 180 manns.

Þá er í bígerð að setja upp sálgæslumiðstöð þar sem flóttafólk og sjálfboðaliðar geta fengið aðstoð.

Berlín er aðeins í 80 km fjarlægð frá pólsku landamærunum og þar á milli eru góðar samgöngur. Meira en helmingur úkraínska flóttamanna hefur komið frá Póllandi til Þýskalands. Fyrir rúmri viku komu hvorki meira né minna en 10.000 flóttamenn og búist er við að þeim fjölgi.

Borgarstjóri Berlínar hefur látið þau orð falla að borgin verði senn ófær um að glíma við ástandið og hefur óskað eftir aðstoð frá sambandsfylkinu.

Á aðallestarstöð Berlínar hefur verið boðið upp á sálgæslu presta fyrir nýkomið flóttafólk.

Húsnæði á gamla Tegel-flugvellinum verður notað sem höfuðmiðstöð flóttafólksins.

Samkirkjulegar bænastundir fyrir fórnarlömbum stríðsins hafa verð haldnar og meðal annars í Dómkirkju mótmælenda í Berlín. Kaþólska kirkjan hefur einnig hafið söfnun til styrktar flóttafólki frá Úkraínu.

„Við syrgjum öll fórnarlömb rússneska ríkisins í árás þess á Úkraínu og viljum hlusta sérstaklega á þau sem hafa mátt þola þjáningar þessa skelfilega stríðs og biðjum í samkirkjulegu samfélagi fyrir friði og sáttargjörð,“ segir dr. Annette Kurschus, forseti kirkjuráðs Evangelísku kirkjunnar í Þýskalandi.

Chrismon/Church Times/hsh


  • Kirkjustarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Frétt

  • Flóttafólk

  • Úkraína

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls