Skírn - mynd: KristeligtDagbladÞegar kosið er gefst tækifæri til að velja á milli. Skoðanir geta verið skiptar og áherslur mismunandi. Það er hið besta mál.
Biskupskosning stendur fyrir dyrum í Hróarskeldustifti í Danmörku. Núverandi biskup stiftisins, sr. Peter Fischer-Møller, lætur af störfum fyrir aldurs sakir í ágúst. Þau sem líta hýru auga til biskupsstafsins eru sr. Rasmus Nøjgard, sóknarprestur, sr. Anna Helleberg Kluge, prófastur, sr. Ulla Thorbjørn Hansen og sr. Per Vibskov Nielsen, prófastur. Kosning hefst 20. apríl og lýkur 12. maí.
Á einum fundi af mörgum með frambjóðendunum sem haldinn fyrir skömmu undir yfirskriftinni „Það er munur á þeim," féllu þau orð að það væri guðfræðilega ekki nokkur munur á frambjóendum. Það var dálítið þversagnakennt í ljósi þess að fundirnir voru haldnir meðal annars til að leitast við að draga fram ólíkar guðfræðiáherslur hjá frambjóðendum.
Eins og í pólitíkinni þá er notast við hinn gamalkunna mælikvarða hægri-vinstri. Allir frambjóðendur til Hróarskeldubiskupsstarfsins sitja býsna þétt á miðjunni, segja þau sem hafa rýnt í stöðuna. Það kom fram hjá frambjóðendum að allir gætu þeir unnið með fólki í kirkjunni þrátt fyrir ólíkar stefnur, skoðanir og viðmið.
En viti menn. Skiptar skoðanir reyndust vera um skírnina.
„Er óskírt barn, barn Guðs?“ var spurt á fundinum.
Sá eini sem svaraði því neitandi var sr. Per Vibskov Nielsen, prófastur í Norrebrø-prófastsdæmi í Kaupmannahöfn.
Hann sagðist vilja halda fast í skírnarformið og samkvæmt því verða börn, Guðs börn í skírninni. „Í gamla daga kölluðum við þau sem voru óskírð, heiðingja. Ég veit auðvitað að þetta er gamaldags orðfæri en ég nota það vegna þess að í því liggur einmitt að eitthvað gerist í skírninni sem veldur straumhvörfum. Þess vegna geta þau sem eru óskírð ekki verið börn Guðs.“
Hinir biskupsframbjóðendurnir lýstu því yfir að þessu væru þeir ósammála. Þeir héldu því fram að allir væru börn Guðs.
Sr. Rasmus Nøjgaard, sóknarprestur í Kirkju heilags Jakobs á Østerbro í Kaupmannahöfn benti á að þó væri enn munur á því að vera skírður og ekki skírður.
„Allt frá siðbótinni hefur það staðið í kirkjuskipaninni frá 1537 að allir óskírðir séu börn Guðs og að kærleikur Guðs umfaðmi þau. Það þýðir þó að ekki sé munur á því að vera skírður og ekki skírður. Ég nota gjarna líkingu um þetta þegar börnin mín eru með bekkinn sinn í heimsókn. Öll hin börnin í bekknum þeirra eru yndælisbörn og gæta hvert að öðru. En börnin mín geta verið algjörlega viss um að ég er kjölfestan í lífi þeirra og mun fyrirgefa þeim allt. Ég held að þetta sé ágæt mynd til að lýsa skírninni. Við erum öll börn Guðs en ef þú ert skírður þá er Guð kjölfestan í lífi þínu.“
Þessi orð féllu ekki í góðan jarðveg hjá sr. Ullu Thorbjørn Hansen, prófasti í Slagelse-prófastsdæmi.
„Ég þoli ekki þá mynd af Guði sem sýnir hann draga börn í dilka,“ sagði hún og bætti við: „Í anda Grundtvigs eru allar manneskjur börn Guðs. En það er mikilvægt að undirgangast skírn. Jesús hefur gefið fyrirmæli um hana og við skírum vegna þess að okkur er uppálagt að gera það og skírnin er góð fyrir okkur. Skírnin segir að við erum í nánu sambandi við Guð og hún er auðkenni okkar. Við tilheyrum Guði.“
Sr. Per Vibskov Nielsen var spurður hvort þau sem væru óskírð væru glötuð.
„Nei, ég trúi á Jesú. Það er hið mikilvæga fyrir mig. Ég trúi að hann hafi frelsað okkur,“ svaraði hann. Þar sem menn töldu hann fara undan í flæmingi við spurningunni var hún ítrekuð og hann svaraði:
„Ég get svarað þessu með þeim hætti að ég segi við foreldrana að það sé gott að barnið þeirra verði skírt svo það fari ekki út í heiminn svífandi í lausu lofti af því að það eigi hvergi samastað. Ég kalla það ekki glötun en skírnin sýnir að þú tilheyrir Kristi.“
Stríðsglæpamaður dróst inn í umræðuna þegar sr. Anna Helleberg Kluge, prófastur í Næstved-prófastsdæmi útskýrði afstöðu sína:
„Þegar ég tala um að allir séu börn Guðs hvort sem þeir eru skírðir eða ekki, er það vegna þess að frá mínum bæjardyrum séð er það eini möguleikinn. Annað samrýmist ekki guðsmynd minni. Ég hef jarðsungið ungabörn sem voru óskírð. Í þeim tilvikum skiptir skírnin ekki máli. Hvað sem kann að standa í fræðibókum um þetta þá held ég fast í þá trú að Guð er með manneskjunni óháð því hvort hún er skírð eða ekki. Var Hitler skírður? Já, vissulega. Væri það ekki fáránlegt að hann væri frelsaður en barnið sem lifði aðeins þrjár klukkustundir væri glatað? Við verðum að gæta að miskunnseminni,“ sagði hún.
Fleiri fundir eru á döfinni.
Skírnum hefur fækkað í Danmörku eins og hér á landi.
Skírnin hefur verið ofarlega á baugi innan íslenskrar kirkju síðastliðin misseri.
Fróðlegt væri að heyra skoðanir íslenskra presta á skírninni, eðli hennar og inntaki; hvort þær falli í sama farveg eða séu ólíkar hvað einhver blæbrigði snertir. Eða kannski mjög ólíkar.
KristeligtDagblad/Jakob Weinkouff Hansen/hsh
Biskupsframbjóðendur.
Frá vinstri: sr. Per Vibskov Nielsen, sr. Anna Helleberg Kluge, sr. Rasmus Nøjgaard og sr. Ulla Thorbjørn Hansen