Erlend frétt: Kirkjur sprengdar
Sannarlega er það sárast þegar heimili fólks eru lögð í rúst í miskunnarlausum hernaði eins og nú geisar í Úkraínu.
Það eru ekki aðeins hús úkraínskra borgara sem orðið hafa fyrir barðinu á rússneska innrásarliðinu heldur og ýmsar aðrar byggingar.
Yfir sextíu kirkjur og byggingar þeim tengdar hafa verið laskaðar eða lagðar í rúst í Úkraínu frá því að innrás Rússa hófst fyrir um sextíu dögum. Sumar litlar, aðrar stórar og fornar, enn aðrar nýjar. Þá hæfði eldflaug skóla gyðinga og sýnagógu. Listaverk fara forgörðum, steindir gluggar brotnir í mél og helgir íkónar sallaðir niður. Presturinn Rostyslav Dudarensko var skotinn til bana af rússneskum hermönnum þegar hann hóf upp krossmark til að varna því að skriðdrekar færu inn í þorpið hans, Yasnohorodka, sem er um fimmtíu kílómetra frá Kænugarði.
Myndir hafa birst af rétttrúnaðarkirkjum þar sem sjá má hrunda veggi og sex stærstu dómkirkjurnar eru ekki annað en járna- og múrrústir. Sama er að segja um aðrar kirkjulegar byggingar svo ekki sé nú talað um fjölbýlis- og einbýlishús.
Samkvæmt alþjóðalögum er það stríðsglæpur að ráðast á sögu- og menningarlegar byggingar, kirkjur og tilbeiðslustaði.
Almennir borgarar eru skotmark, fjöldagrafir finnast, rússneskir hermenn drepa fólk og nauðga konum. Þessum glæpum fjölgar dag frá degi.
„Það er hryllilegt og ómannlegt,“ segir prestur nokkur í úkraínsku rétttrúnaðarkirkjunni í Kænugarði, um viðurstyggð eyðileggingarinnar á guðshúsum Úkraínumanna. „Ég skil ekki hvers vegna Rússarnir sprengja kirkjurnar – ef við erum kristnar manneskjur þá eigum við að keppa að friði.“
Kirill, höfuðklerkur rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, hefur ekki fordæmt innrás Rússa í Úkraínu. Hann virðist hafa gleymt því að á síðustu dögum Sovétríkjanna var ungur KGB-starfsmaður að nafni Pútín, sem gekk hart fram í nafni þess sama ríkis ásamt öðrum, gegn hvers kyns skipulagðri trúarstarfsemi.
Þær kirkjur sem standa eftir eru þó ekki óhultar. Framganga rússneska hersins sýnir það. Menn hafa brugðist til varnar 18. aldar barokk kirkjunni í Lvív, Dómkirkju himnafarar blessaðrar Maríu meyjar, en þar er að finna listaverk sem eru á heimsminjaskrá UNESCO, með því að sveipa líkneski með einangrunarefni og slegið járni fyrir steindu gluggana.
En þó kirkjur séu sprengdar í tætlur þá hefur það komið í ljós að kristin trú er ekki í húsum. Hversu sárt sem tjónið annars er þá hefur saga Úkraínu sýnt að trúin er sterkari en allir erfiðleikar. Svo má alltaf reisa kirkjur aftur.
Byggt á Peter Stanford/The Daily Telegraph/BBC/Church Times/Ukrinform/hsh
Dómkirkja heilags Mikaels erkiengils í Maríupol
Kirkja í borginni Sievierodonetsk
Kirkja heilags Nikulásar í borginni Avdiivka