Andleg fylgd

1. maí 2022

Andleg fylgd

Skálholtsdómkirkja - mynd: hsh

Evrópsk samtök (e. Spiritual Directors in Europe) sem tengjast andlegri fylgd – gamalli hefð í kristni sem gengið hefur í endurnýjun lífdaga frá því á síðari hluta 20. aldar, gangast fyrir móti í Skálholti dagana 4.-9. maí. Þessu móti hefur verið frestað nokkrum sinnum vegna kórónuveirufaraldursins. En nú er komið að því. Dagskráin er fjölbreytileg.

Í tengslum við mótið kemur hingað til lands kona að nafni Penny Warren en hún er í leiðtogahópi samtakanna The Community of Aidan and Hilda  sem tengjast eyjunni Lindisfarne. Þessi samtök eru dæmi um hreyfingar í nútímanum sem nýta tengslanet fólks til að styrkja kristið trúarlíf með hjálp gamalla klaustrahefða.

Penny hefur reglulega leitt kyrrðardvalir og kyrrðardaga. Penny er svokallaður andlegur fylgdarmaður og sálufélagi (e. soul friend) og kennir reglulega um líf í ljósi trúar (e. spirituality), bænina og um að byggja upp reglulegt bænalíf – innan biskupsdæmis síns og víðar.

Penny sækir næringu og styrk í keltnesku kristnu hefðina, kirkjufeðurna og -mæðurnar. Þessi keltneski arfur mótar sýn hennar á sköpunina alla og leiðir þau sem taka þátt í kyrrðarbæninni inn á brautir samhygðar, réttlætis og friðar.

Penny mun halda kynningarfund í Grensáskirkju 2. maí kl. 19.30-21.30. Þangað eru allir velkomnir.

Penny hefur iðkað hugleiðslubæn (e. contemplative way of prayer) mest alla ævi sína og notið andlegrar fylgdar hjá vísu fólki frá því hún var hálf þrítug. Hún er bókahönnuður og listakona og nýtur útivistar við að sinna garðinum og húsdýrum og jafnframt að ganga um hæðir og strendur Devon og víðar. Penny hefur nýlega lagt efni til bókarinnar, Caught up in Love (Fangin af elsku) sem gefin er út af BRF (Biblíulestrarfélaginu) í Bretlandi og er nú að skrifa bók um Þrenninguna og viðeigandi lífshætti.

„Persónuleg andleg fylgd er lítið þekkt hérlendis þótt trúarleg leiðsögn sé vissulega kunn í ýmsu formi. Átta daga kyrrðardvöl með persónulegri andlegri fylgd var í Holti í Önundarfirði (Friðarsetrinu) sumarið 2007 og samsvarandi dvöl á Löngumýri í Skagafirði árið eftir og sex daga dvöl í Skálholti árið 2009 og aftur þar haustið 2014. Nokkrir Íslendingar hafa kynnst 8 daga kyrrðardvölum, með persónulegri andlegri fylgd, erlendis og fjórir þeirra hafa lokið grunnþjálfun í að veita slíka fylgd (á Liagård í Noregi).“ (Vigfús Ingvar Ingvarsson, Andleg fylgd og mót í Skálholti, Bjarmi, 1. tbl. 116. árg. apríl 2022, bls. 28-29.)

Sr. Ragnheiður Jónsdóttir, sóknarprestur í Mosfellsprestakalli, hefur mikla reynslu af Kyrrðarbæn (e. centering prayer) og kristilegri íhugun.

„Við erum átta talsins sem höfum þegið hina andlegu fylgd frá Seamus Cullen en hann hefur komið til Íslands á sex vikna fresti í rúmt ár,“ segir sr. Ragnheiður. „Ég átti frumkvæði að því til þess að við gætum kynnt okkur Andlega fylgd frá aðila sem hefur er margreyndur í þessum málum.“ Hún segir að einnig hafi verið rætt um hvort hægt væri að fá hóp fagfólks til að setja upp tveggja ára þjálfunar-kennsluprógramm.

Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi hafa síðan 2008 haldið fjölda kyrrðardaga í Skálholti.

Íslenskt teymi hefur verið innan handar í sambandi við Skálholtsmótið og í því eru sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson, Margrét Eggertsdóttir, sr. Ragnheiður Jónsson, sr. Kristján Valur Ingólfsson, og sr. Gunnþór Þ. Ingason. Vígslubiskupinn í Skálholti, sr. Kristján Björnsson, og sóknarpresturinn í Skálholti, sr. Dagur Fannar Magnússon, taka á móti fólkinu ásamt heimamönnum. Þeir sr. Kristján og sr. Dagur Fannar munu og koma að helgihaldi mótsins.

Í fyrrnefndri grein sinni í Bjarma segir sr. Vigfús Ingvar Ingvarsson ennfremur:
„Andleg fylgd er ekki sálgæsla. Grunnur hennar er sérstök hlustun, hlustun á það sem fólk tjáir og jafnframt hlustun eftir rödd Guðs inn í aðstæður. Bæn og íhugun gegna einnig miklu hlutverki í þessu sambandi. Andleg fylgd er gjarnan tengd kyrrðardvölum (oft 8 daga) þar sem þátttakendur hitta andlegan fylgdarmann daglega. Hitt formið er að hittast mitt í hversdagslífinu, oft með einhverra vikna millibili. Í svokölluðum hlustunarhópum er einnig hægt að veita nokkra andlega fylgd.“ (Vigfús Ingvar Ingvarsson, Andleg fylgd og mót í Skálholti, Bjarmi, 1. tbl. 116. árg. apríl 2022, bls. 28-29.)

Samtökin Spiritual Directors in Europe.

 


Penni Warren

  • Frétt

  • Heimsókn

  • Menning

  • Ráðstefna

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Trúin

  • Fræðsla

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls